Þriðjudagur 02.10.2012 - 21:52 - FB ummæli ()

…fyrir mig og mína.

Í tilefni af dæmalausri umræðu um heilbrigðismálin þar sem mesta áherslan hefur verið lögð á byggingu nýs háskólasjúkrahús, jafnvel á kostnað frumþjónustunnar sem er að molna, og allt er jú spurning um rétta forgangsröðun, vil ég leggja til litla ferðasögu frá Atlasfjöllunum í Marokkó. Sögu um skort á frumheilsugæslu. Eins hvað það litla, og sem við í dag teljum svo sjálfsagt, skiptir í raun miklu máli ef vantar.

Líka í heildarmyndinni eins og hún lítur út hér á landi í dag, þar sem bráða- og vaktmóttökur eru yfirfullar á höfuðborgarsvæðinu og stundum langur biðtími eftir þjónustu. Ekkert síður ef við viljum horfa til skipulags heilbrigðismála almennt og hvert ber að stefna með forgangsröðunina. Eins og nú endurspeglast í tillögum að lausnum vegna ofálags á Slysa- og bráðamóttöku LSH og að leysa megi bara vandann með fjölgun bráðatækna og bráðalækna. Álag sem fyrst og fremst hefur verið vegna undirmönnunar heimilslækna í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu um árabil. Sérfræðingum, sem með hjálp hjúkrunarfræðinganna í heilsugæslunni sem þar starfa einnig, ættu vel að geta sinnt yfir 70% af erindunum sem leitað er með á bráðamóttöku háskólasjúkrahúsins í dag. Alveg eins og skipulag gerir ráð fyrir í flestum öðrum vestrænum ríkjum og þar sem rétt er að málum staðið.

Á gönguslóð upp úr einu fjallþorpinu við eitt efsta hlaðna steinhúsið í brekunni, sat fyrir okkur berbersk fátæk fjölskylda undir valhnetutré til að verjast sterkri sólinni. Allir vor klæddir í sín fínustu föt. Konur og börn í litskrúðugum fötum og fullorðinn fjölskyldufaðir í skjannahvítum kufli með hettu. Öll brostu þau sínu blíðasta um leið og faðirinn spurði leiðsögumanninn hvort einhver læknir væri með í hópnum okkar og sem gæti litið á litla drenginn sem var með slæma og að því er virtist alvarlega húðsýkingu. Hann hafði reynt allskonar krem sem ekkert hjálpuðu. Gröfturinn vall úr sárunum í hársverðinum sem ég greindi sem „geitur“ og sem var ekki óvanaleg sýking í hársverði á Íslandi á öldum áður. Þegar „leitað var geita“ hjá fólki, tengt oft óþrifnaði og bitsárum eftir lýs og annan ófögnuð. Þó skyld húðsýkingu sem við köllum í dag aðeins kossageit með takmarkaðri útbreyðslu kringum munn og nef.

Meira en 30 kílómetrar voru í læknishjálp í Atlasfjöllunum og yfir 100 km. til að nálgast nauðsynleg lyf. Milli þorpa þar sem nær allar samgöngur eru tengdar múlaösnum eða tveimur jafnfljótum. Sem betur fer gat ég gefið smá ráðleggingar þar sem ég stóð fyrir framan fjölskylduna og sent drengnum síðan viðeigandi sýklalyf næsta morgun, eftir að hafða náð að nálgast farangur minn sem múlasnalestin hafði flutt á undan okkur á næsta áfangastað hærra uppi í fjöllunum. Þegar aðrir Berbar lögðust síðan á eitt með að koma sendingunni sem fyrst til skila. Lyf sem ég hafði bara haft með mér til vonar og vara, fyrir mig og mína, en kom nú öðrum að meira gagni. Í landi sem ekki hefur haft efni á heilsugæslu eins og flestar þjóðir skilgreina hana yfirleitt.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn