Á ferðalögum á framandi slóðum gerist margt öðruvísi en ætlað er í fyrstu. Okkar eigin flóra, sem við berum með okkur, í og á frá föðulandinu, lætur þá oft undan, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Undan ásókn framandi og stundum hættulegra stofna og eitthvað allt annað tekur við.
Algengastar eru magapestir með niðurgangi vegna nýrra stofna saurgerla, E. coli, sem við höfum lítið eða ekki kynnst áður. Stærsti hluti skýringarinnar er minna hreinlæti og mengað neysluvatn, ekki síst drykkjarvatnið sem er jú hvergi betra en heima. Kólígerlarnir eru hins vegar algengir í drykkjarvatni víða erlendis, jafnvel í vatni sem keypt er átappað á flöskur. Gerlarnir berast gjarnan líka með ósoðnum mat og grænmeti sem skolað hefur verið upp úr misgóðu vatninu. Sjálfsagt gætum við aðlagast þessum saurgerlum eins og öðru misgóðu með tímanum, en varla á stuttum ferðalögum þar sem oft mikið liggur við.
Sýkingarnar geta vegar verið heiftugar og staðið yfir í marga daga. Því er mikilvægt að við gerum viðeigandi mótvægisrástafanir gegn þeim í tíma. Handþvottur, gjarnan með spritti er mikilvægur og eins að reynt sé að tryggja öruggt drykkjarvatn eða sjóða það vatn sem í boði er hverju sinni. Eins að elda allan mat vel og forðast jafnvel grænmetið, en ávextirnir sem við skrælum sjálf ættu að vera öruggari.
Gegn flestum stofnum E. coli gerla svo og ýmissa magaveirupesta sem eru minna alvarlegar en algengar, eru fá bóluefni til en sem verið er að þróa. Á margar aðrar örveirur sem geta valdið alvarlegustu matareitrunum og öðrum sýkingum á ferðalögum eru hins vegar til bóluefni og sem ferðafólki er gjarnan ráðlagt að fá fyrir brottför. Ekki síst fyrir þá sem ætla í krefjandi göngur um óbyggðir og þegar við þurfum á öllum okkar „innri“ styrk að halda.
Það þarf síðan ekki mikinn óþrifnað hjá einhverjum millilið sem handfjallar matvælin okkar, og sem jafnvel getur verið einn af okkar egiin samferðamönnum, til að smitast af bakteríum sem valda alvarlegustu sýkingunum svo sem
lifrarbólgu A, svo ekki sé talað um salmonellu og shígellu sem valdið geta blóðkreppusótt, háum hita og hættu á ofþornun á skömmum tíma. Sérstaklega ber að mæla alltaf með bólustningu gegn lifrarbólgu A svo og jafnvel gegn taugaveiki (Salmonella typhi) ef farið er til sumra staða og heilsugæslan gefur ráðleggingar um, eftir tilefnum hverju sinni.
Fyrr í sumar skrifaði ég um lífshættulega sýkingu, Tick borne enchepalitis (TBE), sem er heilabólguvírus og berst með biti skógarmítla og sem hægt er að bólusetja sig gegn, svo og um Lyme sjúkdóminn sem berst með bakteríum sem skógarmítlarnir bera oft einnig með sér á sumum svæðum. Eins í Skandinavíu, en sem því miður ekkert gott bóluefni er til gegn, en ákveðin sýklalyf virka ágætlega á ef þau eru notuð í tíma og þegar fyrstu einkenni sýkingar verður vart í húð. TBE er eins nokkuð algeng heilabólga í fjarlægari löndum, ekki síst í miklu skóglendi. Sem betur fer þurftum við ekki að hafa áhyggjur af TBE eða Lymesjúkdómnum í göngunni okkar nú, og allir vel bólusettir fyrir því nauðsynlegasta.
Ákveðin sýklalyf geta eins verið gott að geta gripið til, gegn ákveðnum sýklum sem valda verstu magapestunum og til að þeir eyðileggja ekki ánægju af ferðinni góðu. Þannig oft mesta þarfaþing gegn slæmu E. coli sýkingunum, og ef grunur vaknar um sýkingu af völdum Salmonellu og Shígellu. Það sannaðist a.m.k. nú um daginn í gönguferðinni okkar um Atlasfjallgarðinn í Marokkó. Þá veiktist helmingur hópsins af slæmri matareitrun, sennilega af völdum E.coli. Sumir mjög hastarlega með köldu og síðar byrjunareinkennum ofþornunar og magnleysið varð algjört. Án sýklalyfjanna hefði ferðin sennilega eyðilagst, a.m.k. fyrir suma. Ekki síst þegar yfir 3000 metra hæð er komið og háfjallveikinnar getur farið að verða vart og frekar hratt er farið yfir. Nokkuð sem sannaðist vel þegar bera þurfti einn innfæddan Marokkóbúa af toppi Toupkal úr rúmlega 4000 m hæð, nær dauða en lífi, og sem ætlaði sér aðeins 2 daga til að ná toppnum.
Íslendingur er útlendingur í framandi landi. Oft viðkvæmur fyrir nýjum aðstæðum og siðum. Ekki síst er varðar heilsuna og þar sem hann er jafnvel allt of góðu vanur heima fyrir. Eins ef hitinn veður mikill og þegar sólstingur getur reynist húfulausum ofviða í sterkri sól og einkennin líkst þá heilahimnubólgu þegar verst lætur. En við aðlögumst furðufljótt ef rétt er að farið og fyrirhyggja er sýnd. Ekki síst í mat og drykk og með hjálp réttra bóluefna og góðra lyfja sem getur verið rétt að hafa með, en ekki má misnota frekar en annað í lífinu. Þá komum við flest ánægð og frísk heim, reynslunni ríkari, til sálar og líkama.