Það er furðuleg upplifun að lenda í sandstormi frá Sahara. Ekki síst þegar maður er hátt upp í Atlasfjöllunum og á hans alls ekki von. Eins að bera slíkan storm saman við aðra storma sem maður þekkir svo vel á Íslandi. Kalda snjóstorma á veturna eða með suðaustan roki og rigningu á sumrin. Þegar við köllum okkur sanna Íslendinga og bítum bara á jaxlinn. Enda viljum við gjarna njóta alls skalans, og vitum að eftir svart ský kemur alltaf björt sól. En skýin eru misdökk. Í ævintýragöngunni okkar eins og sjálfri lífsgöngunni, og sem gerir allar göngur, ekki síst í fjöllunum svo frábærar, heima og að heiman.
Eftir annan göngudaginn okkar í Atlasfjöllunum í Marokkó var tjaldað undir fjallaskarði í rúmlega tvöþúsund metra hæð. Eftir frábæran dag upp langan, djúpan og hlykkjóttan dal, í sólskini og hita. Þar sem við m.a. komum við í þremur þorpum sem stöðugt urðu fumstæðari eftir því sem ofar dróg. Beint á móti tjaldstæðinu rétt fyrir sólsetur gátum við síðan fylgst með brúðkaupi í efsta þorpinu handan við gilið. Litskrúðugt fylgdarlið hafði fylgt brúðunni yfir fjöllin sunnan megin frá heila dagleið, sumir á múlösnum. Fögnuðurinn var mikill þegar fylkingarnar mættust rétt ofan við þorp brúðgumans og gestirnir boðnir velkomnir. Þar sem allir skemmtu sér síðan fram á nótt við trumbuslátt og söng sem heyrðist vel upp fjallasalinn. Hátíðarhöld sem væntanlega áttu eftir að standa yfir í nokkra daga eins og hefð er fyrir. Fæstir áttu hins vegar von á eftirfylgdinni frá Sahara síðar um nóttinna, að minnsta kosti við.
Kúlutjöldin höfðu verið reist í röðum á lítilli malarflöt. Sólsetrið var einsstakt þetta kvöld of síðan stjörnubjartur himinn sem boðaði fyrir okkur Íslendingana að ef til vill yrði kalt um nóttina. Allir klæddu sig því í hlý föt ofan í svefnpokana. Ég var við það að sofna þegar skyndilega hrikti í tjaldinu og síðan skynjaði maður vindhviður sem áttu eftir að versna með reglubundnu millibili. Það hitnaði í tjaldinu og allt svart varð svartara. Finna mátti fljótt hvernig örfinn sandurinn fyllti tjaldið og vitin. Svona gekk þetta alla nóttina og tjaldið lagðist niður í verstu hviðunum og stangirnar bönkuðu í höfuð og bak. Alla nóttina lá ég með arabaklútinn yfir vitunum og sem sonur minn hafði lánað mér til fararinnar. Enginn svefn en aðeins hugsanir um hvar maður væri eiginlega staddur. Hversu mikið gat vont versnað, tjaldið jafnvel fokið út í buskann og við með. Hvenær myndu lungun fyllast af ryki og sandi. Úti fyrir mátti einstaka sinnum heyra í Berbunum sísla við tjöldin, og matartjöldin stóru höfðu greinilega fokið niður. Martröð fyrir mig en óveður fyrir þá sem þeir voru greinilega vanir og gerðu sínar ráðstafanir gagnvart. Stormur sem mig hafði aldrei órað fyrir að ég myndi sjálfur lenda í, en vissi að var til í skáldsögunum og bíómyndunum. Ekki stormur með köldum hvítum snjó, heldur heitum svörtum eyðimerkursandi sem skall á okkur nú eins og þurrar brimöldur.
Það lygndi með morgninum og ákveðið var að leggja snemma í hann. Upp fjallaskarðið sem var einn erfiðasti kafli ferðarinnar, upp snarbratta steinahlíð um 1600 metra, upp í tæplega 3.600 metra hæð. Þar sem nýtt hæðarmet var slegið eftir tæplega 6 tíma göngu. Þar sem stoppa þurfti á 50 metra millibili í lokin til að ná vel andanum og sumir farnir að kenna sér meins í maga og höfði. Þar uppi sem síðan mátti sjá fjallaþorpið í fjarska og þar sem gleðskapurinn hafði ríkt fram á nóttina. Alveg þar til sandstormurinn tók yfirhöndina og maður fór að hugsa eitthvað allt annað. En nýjum áfanga var nú náð og við tók nýtt ævintýri handan við og þegar niður í dal hálfhirðingjanna og geitanna kom. Ennþá langt í næsta tjaldstað bak við allt önnur fjöll.