Þriðjudagur 30.10.2012 - 13:11 - FB ummæli ()

..og getur ráðið miklu um ávísun lyfja?

Lyfjamál eru nær daglega til umræðu í þjóðfélaginu, en því miður oftast ekki af góðu þar sem ofnotkun eða misnotkun ber oft á góma. Sumum reynist auk þess erfitt að skilja tengsl notkunarinnar við gæði heilbrigðisþjónustunnar. Gæði viðtalsins við sjúklinginn skiptir þannig oft meira máli en magn eða fjöldi viðtala m.a. í bráðaþjónustunni og sem velferðarráðherra hefur réttilega bent á að sé óeðlilega hár hér á höfuðborgarsvæðinu. En í hverju felst þá þessi samtvinnaði vandi og hverju er um að kenna öðru en meintri vaktgleði heimilislækna á kvöldin en leti á daginn eins og ráðherrann íaði að nýlega. Meira um þetta og veikleika heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu í framhaldi af síðustu færslu.

Álagið á vakt- og bráðaþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu þar sem um 40.000 íbúum vantar fastan samanstað í heilsugæslunni, er margfalt á við það sem þekkist í nágranalöndunum. Ástand sem á eftir að versna á næstu árum þegar helmingur starfandi heimilislækna hættir störfum vegna aldurs og nýliðunin er allt of lítil og sein. Í höfuðborg þar sem uppbygging heilsugæslunnar var aldrei kláruð sem skyldi.

Fáir gera sér grein fyrir hvað óhófleg og óþörf lyfjanotkun getur kostað þjóðafélagið mikið, ekki síst þegar litið er langtímaafleiðinganna. Þannig skoðaði ég og félagar mínir orsakir, tengsl og langtímaáhrif ofnotkunar sýklalyfja hér á landi, ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að hvergi á Norðurlöndum er sýklalyfjanotkunin meiri og hvergi er sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvaldanna sem valda eyrnabólgum barna, skútabólgum og lungnabólgum, meira eða alvarlegra. Þar sem við erum búnir að fá yfir okkur tvo faraldra af penicillinónæmum stofnum pneumókokka á síðustu tveimur áratugum og sem vakið hafa heimsathygli. Ástæðurnar mátti sennilega fyrst og fremst skýra af óeðlilega mikilli sýklalyfjanotkun barna á höfuðborgarsvæðinu um árabil og sem var hátt í helmingi meiri en t.d. á Akureyri. Í höfuðborg þar sem dagþjónustu heilsugæslunna hefur tilfinnalega vantað vegna undirmönnunnar. Nokkuð sem kemur líka heim og saman við þá staðreynd í dag að Reykvíkingar þurfa hæstu skammta af breiðvirku penicillíni ef meðhöndla á alvarlegar sýkingar, þegar Akureyringum nægir helmingi minni skammtar.

Flestir hljóta að skilja að sjúklingar og foreldrar barna sem eru vel upplýstir um heilsu og sjúkdóma, munu síður leita eftir skyndiþjónustu við minnstu kvillum sem upp koma og krefjast strax úrlausna m.a. með lyfjum á vöktunum. Ef megináherslur heilbrigðisyfirvalda er hins vegar á aðgengið á skyndivaktir og bráðamóttökur, verður auðvitað notkun skyndilausna algengari. Alþjóðlegar leiðbeiningar gera hins vegar ráð fyrir að megnið af heilbrigðisþjónustunni fari fram þverfaglega í heilsugæslunni á daginn eða hjá læknum á stofum sem gefa sér góðan tíma til upplýsinga, fræðslu og eftirfylgni. Skiptir þá litlu máli hver vandinn er, sýkingar, verkir, þunglyndi, kvíði eða hvati til lífstílsbeytinga. Sum vandamál eru þó vissulega þess eðlis að þau krefjast úrlausna strax á vakt- og bráðamóttökum sem hjúkrunarfræðingar hjálpa okkur að meta. Þá er ekki síst mikilvægt að þeir sem eru mest þurfandi fái góða þjónustu en blandist ekki um of í oft yfirfullar biðstofur með minna þurfandi. Minna sjúkum, ekki síst kvefuðum börnum sem vísað er á vaktirnar þar sem lítil persónuleg tengsl skapast og sem boðið geta upp á takmarkaða eftirfylgd með einkennum eða fræðslu.

Vegna þessarar áratuga reynslu og þar sem sjá mátti í hvaða óefni stefndi, skrifaði ég bréf fyrir tæpum 4 árum til þáverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundar Jónassonar. Ég vildi góðfúslega benda á vandann og hvaða leiðir væru hugsanlega færar til úrbóta m.a. til að fyrirbyggja óhóflega lyfjanotkun í flestum lyfjaflokkum, jafnhliða því að bæta þjónustu heilsugæslunnar. Uppástunga um samráð við grasrótina í takt við niðurstöður áratugalangs gæðaþróunnarverkefnis í heilsugæslunni sem maður vonaði að gæti skilaði einhverjum vegvísi fyrir heilbrigðisyfirvöld. Bréfinu var aldrei svarað, ekki heldur af þeim tveimur ráðherrum sem síðan hafa tekið við embættinu eða heilbrigðisnefnd alþingis sem fékk afrit.

Vegna þessarar áratugalöngu umræðu og spurningarinnar enn og aftur nú um hvort undirmönnun lækna í heilsugæslunni, ekki síst á sjálfu höfuðborgarsvæðinu, sé alvarlegt ástand eða ekki og hvað sé til úrbóta, endurbirti ég nú nokkra valda kafa úr bréfinu góða og sem annars má lesa í heild sinni HÉR.

„Læknar skrifa oft út á lyf í takt við (af sömu tilefnum) hvað kollegarnir gera til að vera ekki “öðruvísi” og til að skapa sér ekki óvinsældir. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að læknar komi sér upp vinnuferlum, stundum allt að því ómeðvitað til að samlagast straumum í heilbrigðiskerfinu og eftir kröfum almennings hverju sinni. Í nýlegri mastersritgerð Péturs Péturssonar heilsugæslulæknis á Akureyri er gerð góð grein fyrir af hverju læknar skrifa upp á lyf (sýklalyf) án þess að fyrir liggi beinar læknisfræðilegar ástæður (non-pharmalogical prescriptions). Álag og tímaleysi bæði læknis og sjúklings kemur þar inn sem áhrifaþáttur auk launakjara lækna t.d. á vöktum sem þurfa að vinna hratt til að halda uppi ásættanlegum launum. Ekki má heldur gleyma áhrifum lyfjafyrirtækja sem reyna eins og þau frekast geta að hafa áhrif á lækna, mismikið eftir sérgreinum.“

Nýta má reynslu sem okkar rannsókn á sýklalyfjunum hefur gefið til að stuðla að bættum lyfjaávísanamálum almennt enda var um gæðaþróunarverkefni að ræða sem spratt upp hjá grasrótinni sjálfri og höfðaði m.a. til skilnings almennings á virkni og gagnsemi lyfja. Héðan í frá verða ýmsar upplýsingar er varðar lyfjaávísanir aðgengilegar úr Lyfjagagnagrunni Landlæknis en eitt af meginhlutverkum Landlæknis er að fylgjast með eftirritunarskyldum lyfjum og lyfjanotkuninni almennt. Mikilvægast er þó fyrir heilbrigðisyfirvöld að vita hvernig nýta megi grunninn til skynsamlegrar lyfjastjórnunar í framtíðinni. Einhliða inngripsaðgerðir valda oftast mikill óánægju og dæmast oft til að misheppnast. Oftar er farsælla er að innleiða breyttan hugsunarhátt hjá læknum og almenningi varðandi lyfjaávísanir út frá bestu þekkingu á notkun lyfja hverju sinni t.d. með gæðaþróunarverkefnum.“

„Þegar hefur heilsugæslan sýnt frumkvæði í þessum efnum með rannsókn á sýklalyfjanotkun, þróun sýklalyfjaónæmis yfir áratug og breytinga sem má gera þegar vilji er fyrir hendi eins og sýndi sig á héraði þar sem sýklalyfjanotkun minnkaði um 2/3 jafnframt sem eyrnaheilsa barna virtist skána. Þetta ákveðna verkefni hefur vakið eftirtekt erlendis en því miður síður hjá stjórnvöldum hér heima þar sem þörfin er mest. Svipaðar rannsóknir má gera sem tengjast ýmsum öðrum lyfjaflokkum t.d geð- og svefnlyfjum sem byggist þá á réttri notkun lyfjanna, fyrirbyggjandi aðgerðum og öðrum úrræðum en lyfjaávísunum. Í raun ætti að líta á öll álíka verkefni innan heilbrigðiskerfisins sem sprota- eða frumkvöðlaverkefni til að bæta hag og heilsu þjóðar sem eru ekki síður mikilvæg ýmsum öðrum stórum verkefnum í líftæknivísindum sem hlúð hefur verið að og litið upp til hér á landi hingað til. Heilsugæslan gegnir þannig ekkert síður mikilvægu hlutverki en aðrar sjúkrastofnanir í að lækna og viðhalda heilsu auk þess sem hún á að vera leiðandi í forvörnum og fræðslu.“

Ósvarað ráðherrabréf og lyfjamálin

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn