Nú eru að nálgast þrjú ár síðan ég skrifaði pistil um frábæra kvöldstund á sjávarréttarveitingarstað eitt laugardagskvöldið þar sem allir sem komu að þjónustunni lögðu sig fram að gera kvöldið frábært fyrir okkur gestina og sem heppnaðist svo vel. Á veitingarstað þar sem við fengum að bragða það besta sem landið og miðin hafa upp á að bjóða og þegar rétt er á málum haldið. Með þá samlíkingu í huga bar ég saman þegar ég önnur kvöld settist jafnvel tvisvar framan við sjónvarpið mitt til að horfa á fréttatíma allra landsmanna. Í von um eitthvað bitastætt í allri þjóðmálaumræðunni, en þar sem ég varð oftast fyrir miklum vonbrigðum og sem viljandi var haldið undan. Af svo mörgum málum sem brann á þjóðinni.
Á síðasta ári hefur sjaldan verið meiri þörf á upplýstri umræðu um heilbrigðismálin. Þegar hrun heilsugæslunnar blasir við hér á höfuðborgarsvæðinu, en reisa á nýjan Landspítala úr steinsteypu og stáli á lóð sem er eins og slæmur draumur í dós í allri fátæktinni. Þar sem umræðu um mannauðinn og forgangsröðunin tilfinnanlega vantar, en sem kostar á ári þó bara svipaða upphæð og brjóstapúðamálið fræga, en þögla. Allt mál sem helst eru ekki heldur rædd fyrir viðkvæma og feimna gesti í sjónvarpsstofunni, þaðan af síður sjúka, en sem bara vilja vilja hafa kjöt á beinunum sínum sem lengst. Meðferð mála sem minnir óþægilega á þá þöggun sem hér ríkti endalaust áður og allir virtust sammála um alla skapaða hluti. Allt þar til raunveruleikinn blasti síðan ískaldur við, og allt var um seinan. Hverja er verið að verja?
“ Í hversdagslífinu horfi ég á fréttir á hverju einasta kvöldi en fátt kemur mér orðið á óvart. Ríkissjónvarpið finnst mér vera farið að lifa á gamalli hefð, þótt það hafi átt góða spretti eftir hrun þegar ýmsir þáttastjórnendur voru í vígamóð. Jafnvel Kastljósið er oft hundleiðinlegt og stjórnendur forðast heitustu umræðurnar eða nálgast fréttamatinn eins og kettlingar kringum heitan pott. Hvernig í ósköpunum er hægt að fylla hvern þáttinn af öðrum af jafn áhugalitlu efni eins og raun ber vitni, ekki síst þegar viðsjárverðir atburðir eru að gerast allt í kringum okkur, á hverjum einasta degi. Fréttir sem snúa að velferð og kjörum fólksins í landinu og stjórnsýslunni sjálfri. Fréttamatur sem kemur okkur öllum við og við viljum snæða, þótt bragðið kunni að vera framandi á köflum og miskryddað. Engin meistaraeldamennska það hjá fjölmiðli allra landsmanna. Sennilega er þetta meðtekin ákvörðun til að þóknast stjórninni þeirra og stjórninni okkar, að rugga þjóðaskútunni ekki um of og sem reyndar hriplek er orðin. Ójöfnu saman að jafna og við gömlu sjómennina okkar sem réru til að afla, ekkert síður í öldurótinu. Bestu þættir sem sýndir hafa verið í íslensku sjónvarpi í seinni tíð eru reyndar þættirnir, Fagur fiskur í sjó, sem ég hef áður skrifað um af þessu sama tilefni. Að gera betur og leggja sálina að veði.“
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/03/06/sjavarkjallarinn/
http://www.visir.is/nidurskurdur-farin-ad-ogna-oryggi-sjuklinga/article/2012120719182