Mánudagur 03.12.2012 - 13:19 - FB ummæli ()

Sýnum smá fyrirhyggju og skynsemi

21. febrúar 1953 birtist þessi forsíðufrétt í Morgunblaðinu. Þá þegar var ofnotkun kraftaverkalyfsins penicillíns vandamál. Lyf sem ætlað var að bjarga fólki frá lífshættulegum bakteríusýkingum eins og lungnabólgu, en fólk var farið að taka við allskonar pestum, ekki síst inflúensu og sem síðar olli framgangi óvinveittra sýkla og munnbólgum en virkaði ekkert á inflúensuna sjálfa.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, en aldrei hefur sýklalyfjaofnotkunin verið meiri. Ekki síst þegar sýklalyf eru tekin vegna sakleysislegra bronkítis- og skútabólgueinkenna fullorðinna og vægra eyrnabólgueinkenna barna og sem búið er að kortleggja svo vel hér á landi að tengist miklu sýklalyfjaónæmi pneumókokkanna. Sýkingarvalds númer eitt þegar um alvarlegar bakteríusýkingar er að ræða eins og lungnabólgur og blóðeitranir. Sem voru þess valdandi að meðalaldur mannsins var amk. 10 árum styttri en hann er í dag.

Á síðustu árum hefur margsinnis verið sýnt fram á að notkun sýklalyfja í hinum vestræna heimi er helmingi meiri mánuðina um og eftir áramót, þegar algengast er að hinn árlegi inflúensufaraldur gengur yfir. Nokkuð sem gott er að hafa í huga ef ná á niður óþarfa sýklalyfjanotkun í þjóðfélaginu og sem talin er vera á milli 50-70% af allri notkun sýklalyfja í dag að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Enn er tækifæri til að láta bólusetja sig gegn árlegri Inflúensu og sem sennilega leggst af fullum þunga um jólin. Fáar bólusetningar draga jafn mikið úr þörf á sýklalyfjameðferð, þar sem fylgisýkingar eftir slæma inflúensu eru svo algengar. Hjá yngstu börnunum er talað um allt að 50% fái bráða miðeyrnabólgu eftir inflúensuna sjálfa og lungnabólgurnar geta svo sannarlega verið hættulegar.

Umræðan hefur þó hjá sumum litast af hræðslunni af drómasýki sem í einstaka tilvikum var bundið við svínaflensubólefnið sérstaklega, aðallega þó í Finnlandi og Svíþjóð. Ég var í sumar á norrænu þingi um bólusetningar á Norðurlöndunum. Þar var meðal annarra rannsókna kynntar athyglisverðar niðurstöður um svínaflensubólusetninguna sem forðaði okkur frá mikið verri faraldri sem annars hefði orðið. Eins komu fram athyglisverðar upplýsingar um orsakir tengsl bólusetningarinnar og drómasýkinnar í Finnlandi. Nokkuð sem hefur sennilega með veikleika sumra fyrir drómasýki almennt að gera, og sem hefði að öllum líkindum komið fram hjá sömu einstaklingum fyrr en síðar, óháð bólusetningunni. Sem tengist líklega efnum í svínaflensubóluefninu sérstaklega og sem auka áttu á ónæmissvarið fljótt. Aðferðir í framleiðslu á bóluefninu sem sannarlega er tilefni til að rannsaka miklu betur. Af hverju þetta gerðist í Finnlandi og í minna mæli í Svíþjóð eingöngu á Norðurlöndunum, er sennilega vegna mikið hærri tíðni almennt í þessum löndum á drómasýki, og sem tengist ákveðinni tilhneigingu til ónæmissjúkdóms í miðtaugakerfinu sem drómasýkin virðist vera. Ekki ólíkt og ýmsir gigtarsjúkdómar eru og sem eru með mjög ólíka tíðni milli landa.

Mogginn hafði rétt fyrir sér þegar árið 1953. Nú 60 árum seinna erum við í miklu verri málum hvað sýklalyfjaónæmið snertir. Leita verður allra leiða til að draga úr óþarfa sýklalyfjanotkun m.a. með bólusetningum gegn árlegri inflúensu, kíghósta og pneumókokkum fyrir valda aldurshópa og sem landlæknisembættið mælir með. Á sama tíma og aldrei hefur verið meiri ástæða til að tala gegn kukli og skottulækningum hverskonar. Sem áttu jú sinn blómatíma fyrir tilkomu læknavísindanna, en sem svo sannarlega mega vera mikið markvissari í sínum ráðleggingum en þau eru í dag. Annars er voðinn vís og við hverfum aftur um aldir, jafnvel löngu fyrir tilkomu sýklalyfjanna okkar og þegar kuklið var allsráðandi.

http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item18725/Evropudagur-vitundarvakningar-um-syklalyf

http://www.hirsla.lsh.is/lsh/handle/2336/11250?mode=full

http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/bolusetningar/bolusetningar-barna/

http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/bolusetningar/bolusetningar-fullordinna/

http://blog.dv.is/svanurmd/2012/12/03/bref-vegna-thingsalyktunartillogu-um-graedara/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn