Fimmtudagur 06.12.2012 - 14:45 - FB ummæli ()

Bráðaþjónustuvandinn er kerfislægur

Margoft hefur verið bent á óhemjumikið álag á vaktþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu sem jafnast á við þann fjölda sem sækir slíkar þjónustu í milljónaborgum erlendis. Mikil undirmönnun í heilsugæslunni á mörgum sviðum og niðurskurður í sjúkrahústengdri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins tel ég fyrst og fremst vera um að kenna. Vandinn í heilsugæslunni hefur varað í áratugi og aldrei verið meiri. Uppbyggingunni var aldrei lokið á höfuðborgarsvæðinu og hrun blasir nú við vegna atgerfisflótta strafsfólks og þeirrar staðreyndar að helmingur starfandi heimilislækna í dag hættir störfum vegna aldurs næsta áratuginn.

Fjöldinn sem leitar sér heilbrigðisaðstoðar á höfuðborgarsvæðinu einu utan dagvinnutíma heilsugæslunnar, nálgast þrjúhundraðþúsund á ári. Nú er svo komið að meirihluta bráðari erinda er ekki lengur sinnt í heilsugæslunni sjálfri, heldur á vöktum í bráðaþjónustunni (Læknavaktinni, Slysa- og bráðamóttöku LSH og Barnalæknavaktinni) þar sem eftirfylgd með sjúklingunum er lítil sem engin. Erindum, sem samt samkvæmt alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum, á fyrst og fremst að sinna í vel mannaðr góðri og heildrænni heilsugæslu og sem flestar þjóðir kappkosta nú að byggja og styrkja.

Slysa- og bráðamóttaka LSH er vel skipulögð deild með mjög hæfu starfsfólki sem mér hefur áhlotnast sá heiður að fá að starfa með í meira en þrjá áratugi, eða allt frá þeim tíma sem hún var aðeins þrjú herbergi í gömlu álmunni á gamla Borgarspítalanum. Deild sem mér hefur fundist afskaplega vænt um, séð blómstra en síðan séð breytast í bákn sem er við það að bresta enda tugfaldast að stærð. Sprungurnar eru orðnir stórar í nýju veggjunum, fyrst og fremst vegna allt of mikils álags á starfsfólkið, ekki síst unglækna og hjúkrunarfræðinga. Mest vegna erinda sem strangt til tekið eiga ekki heima á háskólasjúkrahúsmóttöku. Erinda sem heilbrigðisyfirvöld kusu samt að beina sjúklingum til þriðja hluta sólarhringsins með einhliða ákvörðun fyrir tveimur árum þegar vaktþjónusta heimilislækna í heila öld var lögð niður. Ákvörðun sem síðan hefur m.a. valdið því að stórlega hefur dregið úr vitjanaþjónustu heimilislækna á kvöldin og um helgar, enda skilaboðin augljós, að fólk sé ávallt velkomið til háskólasjúkrahússins beint, en ekki með „óþarfa“ viðkomu hjá heimilislækni eða annarri ráðgjöf í heilsugæslunni.

Stundum þarf að taka upp augljóst myndmál til að yfirvöld skilji. Því get ég líkt ástandinu nú í heilbrigðiskerfinu við vatnsveitustíflu sem er við það að brest, en þar sem markmiðið var að veita þjóðinni náttúruvæna orku eða skulum við segja góða lýðheilsu. Lýðheilsuvandamálin felast í miðlunarlóninu og ef það verður of stórt flæðir lónið yfir veituna og hætt er við að stíflan góða gefi sig, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Bráðvandamál og skyndilausnir eru farin að lita allt of mikið heilbrigðisþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu og miðlunarlónið vex óðfluga, sprungur komnar í stífluna og það flæðir jafnvel yfir á köflum. Þá tala hins vegar sumir um að flýta eigi byggingu nýrrar risastíflu fyrir ókoman framtíð, í stað þess að miðla nú strax vatninu í réttan farveg. Að lýðheilsuvandamálunum og venjulegum bráðamálum sé veitt til hjáveitanna þar sem þau eiga heima, m.a. í heilsugæslunni. Íslenski vandinn er hins vegar sá að hjáveiturnar eru veikburða og svo hefur verið lengi, brýnasta heibrigðiskefismál þjóðarinnar sem þarf að laga.

Bráðaþjónustuvandinn nú er þannig, því miður, miklu meiri heldur en bara yfirflæðið gefur til kynna með uppsögnum hjúkrunarfræðinganna. Uppsagnir sem eru fyrst og fremst tilkomnar vegna allt of mikils vinnuálags til lengri tíma og lélegra kjara miðað við ábyrgð. Stærsti vandinn er kerfislægur og á sér djúpar rætur. Nokkuð sem heilbrigðisyfirvöld hafa ekki viljað horfast í augun við eða hlustað á, í áratugi. Hvað sem núverandi velferðarráðherra og fyrrverandi heilbrigðisráðherra segja um málið og sem vitna sífellt til yfirstjórnenda, undirmanna sinna á háskólasjúkrahúsinu og sem bera erfiða ábyrgð á daglegum rekstri. Í stað þess að kynna sér vandann í grasrótinni og sjá og finna, hvar hin raunveruleg þolmörk liggja hjá þjóðinni.

http://www.visir.is/nidurskurdur-farin-ad-ogna-oryggi-sjuklinga/article/2012120719182

 http://www.ruv.is/sarpurinn/silfur-egils/09122012/vilhjalmur-ari-arason-laeknir

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn