Þriðjudagur 08.01.2013 - 18:00 - FB ummæli ()

HPV veiran og krabbamein unga fólksins

HPV veiran (Human Papilloma Virus) veldur ekki bara kynfæravörtum (condylomata acuminata) sem eru mjög algengar meðal ungs fólks hér á landi, heldur líka flöguþekjukrabbameini að undangengnum forstigsbreytingum í leghálsi þúsunda kvenna á ári hverju, auk hratt vaxandi nýgengi flöguþekjukrabbameina í munnholi og við endaþarm hjá báðum kynjum um heim allan. Krabbamein sem í dag má fyrirbyggja að miklu leiti með betri lífsháttum og forvörnum, sérstaklega smitvörnum og bólusetningu í tíma.

Visst áhyggjuefni, umfram aðrar norrænar þjóðir, er hærra hlutfall ungra kvenna með sögu um kynfæravörtur hér á landi, eða hjá hátt í fjórðungi ungra íslenskra kvenna. Tíðnin er hærri hjá konum sem hafa átt marga rekkjunauta, enda enginn eyland þegar um kynsjúkdómana er að ræða. Staðreynd sem gildir um alla smitsjúkdóma hvar sem er í heiminum, en háð smitleiðum og kynhegðun. Umræða sem svo sannarlega er ekki vanþörf á að ræða betur í dag.

Nýgengi leghálskrabbameina kvenna á Norðurlöndunum sem oftast (>90% tilfella) tengist HPV veirusýkingu, er um 9 konur af hverjum 100.000. Tíðnin hefur farið lækkandi með góðri krabbameinsleit og sem mun væntanlega lækka enn frekar þegar árangur af bólusetningum ungra stúlkna í dag gegn HPV veirunni fer að skila sér. Forstigsbreytingarnar finnast hins vegar miklu meira mæli og hátt í 300 konur fara í  keiluskurð á hverju ári hér á landi vegna alvarlegra forstigsbreytinga auk þess sem margfalt fleirum er fylgt náið eftir árlega vegna breytinganna. Um 20 einstaklingar greinast síðan á ári með HPV orsakað/tengt krabbamein í munnholi og koki, fleiri karlar en konur. Í sumum vestrænum ríkjum eru dánartilfelli flöguþekjukrabbameina í munnholi og koki þegar orðin álíka mörg árlega og vegna flöguþekjukrabbameina í leghálsi kvenna. Eftir að farið var að bólusetja ungar konur gegn HPV veirunni er síðan áætlað að dánartilfellum krabbameina í munnholi og koki karla verði hlutfallslega fleiri en kvenna.

Allar konur í Danmörku í dag fá bólusetningu gegn HPV veirunni (Gardasil) ókeypis  til 26 ára aldurs. Heilbrigðisaðgerð sem kynnt var á Norrænu bólusetningaráðstefnunni í Kaupmannahöfn sl. haust (Nordic Vaccine Meeting, 2012) til að efla hjarðónæmið og sporna hraðar gegn krabbameinsþróuninni. Ákvörðunin mun væntanlega skila þannig danska þjóðfélaginu miklu hraðari ávinningi en hér á landi þar sem aðeins grunnskólastúlkur fá bólusetningu gegn HPV veirunni ókeypis. Bólusetningin hefur hins vegar engin verndandi áhrif á karla sem hafa aðeins samræði við aðra karla og smitaðir eru af HPV veirunni. Annar stór markhópur sem rétt er að veita athygli strax í dag með tilliti til ókeypis bólusetninga.

Í raun er áætað að yfir 40% yngri kvenna séu smitaðar af HPV veirunni í leghálsi á hverjum tíma og án þess að nokkur einkenni séu til staðar (svo sem kynfæravörtur). Eins að um 80% eldri kvenna hafi sögu um eitthvert smit áður á lífsleiðinni.  Um 7% allra yngri fullorðinna eru taldir með smit í munnholi (oftast vegna sögu um að hafa stundað munnmök).

Í allt að hálfu prósent tilfella gengur HPV veirusýking ekki yfir á tilætluðum tíma á u.þ.b. tveimur árum, heldur mallar áfram og það sem verra er, getur valdið genabreytingum í flöguþekjufrumunum sem breytast í krabbameinsfrumur fyrir tilstilli margvíslegra áhættuþátta. Hinir illvígu stofnar, aðallega 16 og 18 (>70%) geta þannig valdið forstigsbreytingum ólíkt því sem stofnar 6 og 11 gera og sem aðeins valda fljótt hinum sýnilegum kynfæravörtum. Vægar forstigsbreytingarnar geta hins vegar verið til staðar í allt að 10-20 ár áður en sjálft krabbameinið myndast og verður greinanalegt eða sýnilegt með berum augum. Alvarlegri forstigbreytingar greinast hins vegar snemma með stroksýnum í smásjárskoðun. Kembileit sem býðst ungum konum í dag að láta framkvæma, m.a. á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Þar sem árvekni og eigin ábyrgð að taka þátt skiptir öllu máli.

Krabbameinin eru hins vegar farin að greinast á fleiri stöðum en á kynfærum kvenna (aðallega leghálsi en einnig leggöngum og við skapabarma) eingöngu og áður sagði, t.d. í munnholi, á getnaðarlimum karla og við endaþarm hjá báðum kynjum (>85% af völdum HPV stofni 16). Stundum er þannig ástæða til að útfæra stroksýni frá endaþarmi einnig, en hins vegar nægja strokpróf ekki til að greina frumubreytingar í munnholi, koki eða á getnaðarlimum karla. Því miður eru engin veirulyf til gegn HPV veirunni, en vörtueitur má nota staðbundið á kynfæravörturnar.

Bóluefnin sem standa okkur nú til boða gegn HPV sýkingum eru Cervarix®, gegn stofnum 16 og 18 og Gardasil®, sem gefur auk þessarra sömu stofna, vörn gegn stofnum 6 og 11 og þar með einnig um 90% vörn gegn kynfæravörtunum. Aðeins Cervarix býðst 11-12 ára stúlkum ókeypis í grunnskólunum í dag. Ekki er enn búið að sanna með klínískum rannsóknum fyrirbyggjandi áhrif bóluefnanna gegn HPV orsökuðum krabbameinum í munnholi og koki sérstaklega, en sem þó allt bendir til að gagnist vel enda um sömu veirustofnana að ræða og valda leghálskrabbameinum kvenna og allar rannsóknir sýna svo góðan árangur gegn.

Mikilvægt er að bæta forvarnir gegn öllum kynsjúkdómum og fræðslu um kynheilbrigði almennt meðal unga fólksins á Íslandi í dag. Þetta á ekki síst við um smitvarnir gegn alvarlegust kynsjúkdómunum í dag og sem leitt geta síðar til lífshættulegra krabbameina. Á sama tíma og draga þarf enn frekar úr tóbaksreykingunum sem einnig er mikill áhrifavaldur í meingerð margra krabbameina, í munnholi ekkert síður en í lungum. Samspil HPV veirunnar við ýmsa aðra áhættuþætti krabbameina svo sem reykinga, áfengis og jafnvel getnaðarvarnarpillunnar er talin geta skýrt um 7% allra krabbameina. Hluti af ráðgjöf um kynheilbrigði þarf því að fara fram um leið og getnaðarvarnir eru ræddar við unga fólkið. Bjóða þyrfti helst öllum stúlkum til 26 ára aldurs ókeypis bólusetningu gegn HPV eins og Danir eru farnir að gera.

Og spurningin er síðan hvað við ætlum að gera í málefnum ungra drengja í dag en sem verða karlmenn á morgun? Heilbrigðisyfirvöld m.a. Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu, mæla nú með HPV bólusetningu fyrir drengi og sem á að verja þá einnig gegn kynfæravörtum (Gardasil). Ástralir ætla að bjóða þessar bólusetningar ókeypis fyrir alla drengi á þessu ári. Aðgerðir til að bæði kynin njóti góðs af, fyrr en síðar. Íslendingar ættu ekki að þurfa að vera eftirbátur annarra þjóða í þessu mjög svo mikilvæga heilbrigðismáli unga fólksins. Ekkert síður en að styrkja þarf áframhaldandi eftirlit á Leitarstöð KÍ og fylgjast áfram náið með öllum hugsanlegum breytingum í leghálsi kvenna á öllum aldri og sem aðrir stofnar HPV veirunnar en 16 og 18 kunna að valda í framtíðinni.

http://www.ssi.dk/Vaccination/Boernevaccination/Sporgsmal%20og%20svar/Om%20HPV-vaccination.aspx

http://ekstrabladet.dk/nyheder/samfund/article1892225.ece

http://politiken.dk/tjek/sundhedogmotion/sygdom/ECE1733797/alle-kvinder-foedt-mellem-1985-og-1992-kan-nu-faa-gratis-hpv-vaccine/

736346/sex-og-samfund-drenge-skal-ogsaa-have-gratis-hpv-vaccine/

http://politiken.dk/tjek/sundhedogmotion/sygdom/ECE1746180/kvinder-stroemmer-til-fitnesscentre-og-matas-for-at-blive-hpv-vaccineret/

http://www.abc.net.au/news/2012-07-12/hpv-vaccine-extended-to-boys/4126354

http://www.ada.org/news/7023.aspx http://www.cdc.gov/mmwr/preview/mmwrhtml/mm6115a2.htm http://www.cancerresearchuk.org/cancer-info/cancerstats/types/oral/incidence/uk-oral-cancer-incidence-statistics

http://www.krabbameinsskra.is/resources/pdf/frodleikur/krabbamein_a_islandi_2012-krabbamein_i_munnholi_og_munnkoki_hvada_thydingu_hafa_vortuveirur.pdf

http://www.krabb.is/Assets/leitarstod/pdf/20071200Laeknabladid819hpv.pdf

http://www.krabb.is/Assets/leitarstod/pdf/2012.09.10.leitarstarf2011.pdf

http://www.fda.gov/newsevents/newsroom/pressannouncements/ucm187003.htm

http://www.ruv.is/siddegisutvarpid/kynlifshegdun-og-krabbamein

http://www.nature.com/nature/journal/v488/n7413_supp/full/488S10a.html

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/10/22/okeypis_fyrir_12_ara_en_dyrt_fyrir_adra/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn