Mánudagur 21.01.2013 - 14:55 - FB ummæli ()

Blóðsugulækningar í endurnýjun lífdaga

Miðað við ástandið í heilbrigðisþjónusunni í dag og stöðugar fréttir berast af, er ekki úr vegi að líta aðeins um öxl og ímynda sér hvað framtíðin getur borið í skauti sínu.

Fyrir rúmlega 20 árum síðan þegar ég starfaði sem læknir á Slysa- og bráðamóttökunni á gamla og góða Borgarspítalanum sem þá hét, fékk ég afar minnisstætt hlutverk og sem fólst í því að taka þátt í blóðsugulækningum (hirudotherapy). Ég tók m.a. á móti lækningablóðsugunum Hirudo medicinalis beint úr flugi þegar þær komu til landsins, en Magnús Páll Albertsson, handarskurðlæknir, hafði pantað þær erlendis frá og sem nota átti til að reyna að bjarga blóðflæði í ný-ágræddum fingri á ungri stúlku sem hætta var á að drep væri að komast í. Stúlkan hafði lent með fingurna í flökunarvél og sem klippti af einn putta auk þess að skaða aðra illa. Hún hafði síðan farið í tvær aðgerðir sem þóttust takast eftir atvikum vel. Allir voru þá vel minnugir annarrar stóraðgerðar 1981 sem tókst með ágætum þegar Rögnvaldur Þorleifsson, handarskurðlæknir, græddi hendi á stúlku sem hún hafði farið með í afhausingavél í fiskvinnslu og sem tók höndina nærri alla af.

Blóðsugumeðferðir eiga sér ævaforna sögu, en sem voru oftast notaðar í öðrum tilgangi en gert er í dag. Menn höfðu þá mikla trú á að blóðsugur (leechs) gætu sogið óhreint blóð úr líkamanum, en ekki hefur verið sýnt fram á gagnsemi slíkrar meðferðar í hjálækningum. Í ljós hefur hins vegar komið önnur gagnleg meðferð sem fellst í að tæma gamalt blóð og niðurbrotsefni úr vef sem ekki nær að endurnýjast með eðlilegum hætti og blóðrásin er sködduð. Vissum eiginleikum sem felast auk þess í að slímið/munnvatnið sem kemur úr munni blóðsuganna við bitið, hefur deyfandi og sýkladrepandi áhrif auk blóðþynnandi áhrifa sem eykur síðan blóðflæðið í vefnum allt þar í kring. Ýmiss önnur efni í munnvatni blóðasuganna eru til skoðunar svo sem að hugsanlega auki þau á gróanda og nýæðamyndun. Blóðsugulækningar eiga sér því svo sannanlega nýja endurkomu í nútímanum, með rætur sem ná þó allt til meðferðar á Kleópötru hinni fögru á tímum faróanna í Egyptalandi, Hippókratesar og lækna Rómaveldis og lýst hefur verið í fornsögunum.

Í dag er blóðsugumeðferð (hirudotherapy) viðurkennd meðferð í lýta- og handarskurðlækningum og samþykktu bandarísk heilbrigðisyfirvöld (FDA) sölu á blóðsugum í lækningaskyni árið 2004, eins og þegar um aðrar viðurkenndar lækningavörur eða lyf er að ræða. Ekki er þó átt við villtar blóðsugur úr náttúrunni sem geta borið með sér smitefni, heldur sem hreinræktaðar eru á viðurkenndum heimilum og í þeim tilgangi einum að hver blóðsuga sjúgi aðeins blóð úr einni manneskju í hvert skipti. Eins að þeim sé fargað eftir notkun fyrir fullt og allt og gert er með annan spítalatengdan úrgang.

Þegar Slysadeildin átti 25 ára afmæli 1993, birtist viðtal við Magnús Pál ásamt fleirum læknum í Morgunblaðinu, en hann var þá tiltölulega nýkominn til starfa á deildina frá Svíþjóð. Kafla úr afmælisgreininni langar mig að birta hér fyrir neðan af því tilefni.

Magnús var með ákveðna „nýjung“ í farteskinu sem skipti sköpum um að aðgerðin sú sem hér um ræðir fór eins vel og hægt var að vonast til. „Nýjungin“ er höfð í gæsalöppum vegna þess að hér er ekki beint um nýjung að ræða í þess orðs fyllstu merkingu. Aðferðin var þekkt í læknavísindum miðalda, en áherslurnar nú eru ekki alveg þær sömu. „Það sýnir sig oft að það er ekki rétt að slíta sig alveg frá rótunum,“ segir Magnús og lýsir því síðan hvernig læknavísindi nútímans taka í þjónustu sína blóðsugur þegar vissar aðstæður eru fyrir hendi. Hér er ekki átt við þessar sem sofa í líkkistum á daginn og vippa sér svo í gervi leðurblaka er rökkva tekur, heldur hin óásjálegu lindýr sem eru jafnan flestum til ama, en á miðöldum var það talin allra meina bót að taka blóð með blóðsugu. Má heita að þau vísindi hafi verið með ólíkindum er fólk hrundi niður úr drepsóttum, en það er önnur saga. En þegar bjarga þarf fingri við þessar kringumstæður koma sérstakar ræktaðar blóðsugur í góðar þarfir og Magnús lýsir nú hvernig: „Blóðstreymi getur verið mismunandi þegar svona slys ber að höndum, en í þessu tilviki var blóð- streymi inn í fingurinn gott, en streymið út úr honum aftur á móti lélegt. Það endar með því að allt stíflast á tengingum og þá er í óefni komið. Þá notum við blóðsugur til að opna fyrir blóð úr fingrinum. Sugurnar sjúga sig þá fastar við fingurgóminn. Það tekur þær hálfa til eina klukkustund að athafna sig og þá sleppa þær, eða eru látnar sleppa. Þær hafa þá náð að opna fyrir blóðstreymi og skilja eftir efni í sárinu sem kemur í veg fyrir að blóðið storkni. Þar með rennur blóð inn og blóð út þótt ekki sé það endilega hin rétta leið út. Eftir nokkra daga er líkaminn sjálfur búinn að búa til nýtt fráflæði. Það er rétt að taka fram, að þetta eru smitfríar blóðsugur, sérræktaðar erlendis og þeim er ekki sturtað ofan í klósettið að notkun lokinni, heldur eru þær brenndar“.

Mitt hlutverk í þessum lækningum fyrir tveimur áratugum var síðan m.a. að beita blóðsugunum á fingurna þegar ég var á vaktinni. Ég man að þær voru hálf latar fyrstu dagana eftir flugferðina til landsins og þurfti að egna þær aðeins með sykurvökva sem settur var á fingurgóm „fórnarlambsins“. Allt var þetta auðvitað framkvæmt eftir nákvæmum fyrirmælum Magnúsar. Eftir að þær bitu slepptu þær ógjarnan takinu fyrr en þær voru búnar að „fylla sig“ af blóði sem gat verið upp undir 5 ml. á nokkrum klukkustundum. Þær 5-10 földuðu stærð sína þannig með blóðfyllingunni. Þegar þær voru þannig orðnar saddar slepptu þær takinu og síðan var þeim fargað í saltvatnsblöndu. Fingrinum reiddi síðan vel af.

Fyrir rúmi ári síðan var greint frá lýtalækningaaðgerð í Svíþjóð þar sem hundur hafði bitið stóran hluta af andliti konu og erfiðleikum var bundið að græða og sauma húðina á aftur í flókinni skurðaðgerð. Aðgerðin tók um 14 klukkustundir og síðan vor 358 blóðsugur látnar sjá um restina næstu dagana á eftir með góðum árangri. Þegar megið vandamálið var ekki lengur að sauma húð og slagæðarnar til að flytja súrefnisríkt blóð í vefina, heldur að ná súrefnissnauðu blóði úr húðflipunum, auk niðurbrotsefna sem söfnuðust upp. Til að viðhalda aðgengi ágræddra húðparta að súrefnisríku blóði auk hugsanlegra græðandi og sótthreinsandi eiginleika blóðsuganna sjálfra. Háþrýstingssúrefnismeðferð í háþrýstiklefa er síðan önnur meðferð sem hefur sýnt sig getað hjálpað á allt annan hátt. Þegar slagæðablóðrásin er léleg og þar sem flýta þarf fyrir gróanda í viðkvæmum vef og sem ég geri e.t.v. betur grein fyrir síðar.

Þannig er hægt að nota blóðsugur í lækningum í dag, ekki síst þegar erfiðlega gengur að tryggja eðlilegt og gott blóðflæði í sjúkum húðvef, tengt aðgerðum og sýkingum. Ef til vill ekkert síður þegar lækna og hjúkrunarfræðinga fer síðan að vanta og stjórnmálamenn og heilbrigðisyfirvöld fara að treysta æ meir á hjálækningar hverskonar, eins og á öldum áður.

 

http://theweek.com/article/index/219643/are-leeches-the-new-plastic-surgeons

http://www.ehow.com/how-does_4928713_medical-leeches-used-plastic-surgery.html

http://www.dailymail.co.uk/news/article-2039865/Swedish-surgeons-reattach-womans-face-using-358-leeches-horrific-dog-attack.html

http://www.facebook.com/pages/Toronto-Leech-Therapy/185637741551192

Adams, R.; Zakrzewski, P. (2001). „Therapeutic Use of Leeches: From the „Annelids“ or Medicine“. University of Toronto Medical Journal 79 (1): 65–67.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn