Hugsunin um framtíðina er oftast ráðandi, en fortíðin er samt það sem mestu máli skiptir þegar árangurinn er metinn í lífinu. Þó síður þegar mikilvæg og krefjandi verkefni standa fyrir dyrum sem manni hefur verið trúað fyrir. Ekki síst þegar við teljum okkur hafa lært af mistökum lífsins og viljum láta hendur standa fram úr ermum.
Lífið líður hins vegar furðu fljótt og oft erum við rugluð vegna þess eins að við vitum ekki hvert ferðinni er heitið. Að reyna halda sig við fortíðina eða stökkva inn í framtíðina, þegar auðvitað nútíðin skiptir mestu máli. Hvað við ætlum að gera í dag.
Skáldin semja oft sín bestu verk þegar þeim tekst að blanda þessu öllu saman. Spennan felst í því óorðna, en hörmungar og fegurðin í því liðna. Líka í því sem við köllum íslenska menningu í dag. Þroskar okkur og ætti að gera okkur betur hæf nú en oftast áður að greina rétt frá röngu. Ekkert síður í stjórnmálunum en einkalífinu og þar sem við þurfum að fara að láta verkin tala.
Sennilega telst ég heppinn maður að geta staðið á þeim tímamótum að geta horft um öxl og litið fram á veginn, nokkurn veginn í sömu andránni. Sveitina mína í gamla daga og Ísland í dag sem hefur svo sannarlega tekið á sig nýja mynd. Þar sem möguleikar á menntun og vinnu ná langt út fyrir landssteinanna.
Nýjustu kannanir sýna að um fjórðungur fullorðinna hefur verulegar áhyggjur af fjárhagsafkomu sinni, enda svipað hlutfall tæknilega gjaldþrota. Gaman hefði verið að sjá þetta hlutfall meðal yngra fólks þar sem hlutfallið er væntanlega miklu hærra. Það hriktir í velferðarþjóðfélaginu og heilbrigðiskerfið er að hruni komið, hvort heldur er litið til heilsugæslunnar eða sjúkrahússkerfisins. Tugþúsund Íslendinga hefur kosið að flýja landið. Framtíðin á næstu áratugum er mjög óviss á flestum sviðum.
Skoðum betur samleið okkar Íslendinga með vinaþjóðum í bandalagi Evrópuþjóða á jafnréttisgrundvelli. Þróun sem hefur átt sér svo langar rætur og að mörgu leiti í sameiginlegum menningararfi. Gegn kúgun og hörmungum og þeim sem standa nú fastast á sínu, eiga mest og ráðið hafa með fyrirgreiðslupólitík. Tökum þátt í þessari eftirleitan í stað þess að einangra þjóðina meira með ónýtan gjaldmiðil. Takmarkinu verður a.m.k betur náð með sterkari og framsýnni fylkingu allra jafnaðarmanna, en undir fána öreiga Íslands sem erfa eiga landið.