Mánudagur 11.02.2013 - 12:12 - FB ummæli ()

Óábyrg stjórn heilbrigðismála á Íslandi

Mikil umræða fer nú fram um að heilbrigðiskerfið sé að molna, líka hjá stjórnmálamönnunum og er það nýtt. Mikilvæg umræða sem hefur kraumað í töluverðan tíma, en verið haldið niðri af stjórnvöldum og sem ég hef m.a reynt að gera grein fyrir hér á blogginu mínu og víðar. Sameining spítalana í nafni hagræðingar upp úr aldamótunum og sameining heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu stuttu síðar ber þar hæst, en einnig ábendingar um léleg kjör og lélega mannauðsstjórnun. Allt frá sameiningu spítalana hefur okkur læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki verið stillt upp við vegg í nafni hagræðingar og sparnaðar, á kostnað faglegs metnaðar og gæða. Sl. áratug hefur unglæknum þannig stöðugt fækkað m.a. á gólfi slysadeildar og reyndari og gamlir læknar verið látnir draga vagninn af vaxandi þunga. Um síðustu helgi t.d. var enginn unglæknir í vinnu á göngudeild slysadeildar. Aðeins 4 jálkar, þar sem ég var yngstur. Á deild sem áður státaði sig af að vera besta kennslustofnun landsins fyrir unglækna og sem þurfa að geta bjargað sér einir við erfiðar aðstæður síðar, m.a úti á landi. Deild sem enginn unglæknir vildi missa af, reynslunnar vegna. Flestir stefna nú hins vegar á útlönd, svo fljótt sem verða má, og mikill atgerfisflótti er brostinn á meðal ungra sérfræðilækna. Heilsugæslan getur ekki lengur unnið eftir alþjóðlegum viðmiðum, mikill skortur er á heimilislæknum og vaktþjónustan á höfuðborgarsvæðinu margföld miðað við það sem þekkist í nágranalöndunum. Af þessu tilefni og væntanlegri umræðu á Alþingi vil ég aðeins rifja upp söguna með nokkrum gömlum innslögum, ekki til gamans heldur af nauðsyn. Stjórnmálamennirnir mega nefnilega hafa skömm fyrir hvernig þeir hafa staðið sig hingað til.

„Löngu er tímabært að landsmenn og ekki síst höfuðborgarbúar spyrji sig hvaða læknaþjónustu þeir vilja í framtíðinni og hvort þeir séu tilbúnir að hlúa að þeirri þjónustu sem þegar hefur verið byggð upp? Áður hef ég gert grein fyrir sameiginlegri ábyrgð heilbrigðisstétta, ekki síst á viðkvæmum tímum, og að þær þurfi að standa saman og styðja hvor aðra í stað þess að líta á ástandið sem sérstakt sóknartækifæri fyrir sig og sína. Stjórnvöld verða að tryggja unglæknum bestu kjör sem völ er á í stað þess að ganga endalaust á velvild þeirra og tryggja þannig að þeir vilji starfa hérlendis. Málið sem almenningur verður að gera sér grein fyrir er hvernig heilbrigðisþjónustu við ætlumst til að fá þegar mest á reynir. Grunnheilsugæslu og bráðaþjónustu þar á meðal. Stjórnvöld hljóta nú að þurfa að spyrja sig hvort læknisþjónustan eigi að vera áfram partur af velferðarþjónustunni hér á landi.“ http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2010/04/01/ungur-nemur-gamall-temur/   http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/02/14/verdleikar-laeknismenntunar-a-islandi/

„Ég er heimilislæknir og starfa líka sem sérfræðingur á Slysa- og bráðamóttöku LSH, 4-5 vaktir í mánuði á kvöldin og um helgar. Ég er með 16 ára sérnám í læknisfræði að baki og tæplega 30 ára starfsreynslu á Slysa- og bráðamóttökunni. Laun mín fyrir 8 tíma helgar- og kvöldvakt með orlofi fyrir skatta eru rúmlega 50.000 kr. Á 8 tíma vakt ber ég ábyrgð á deildinni og þarf að sjá um 40 sjúklinga sjálfur og bera ábyrgð á öðrum eins fjölda sem aðrir yngri læknar sjá. Beinbrotið fólk, skorið og lemstrað. Stundum stórslasað eða alvarlega veikt. Unga sem aldna úr þjóðfélaginu öllu. Sumir fara aldrei heim aftur. Erfiðar vaktir og ég gæti í raun ómögulega bætt á mig fleirum.“ http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/09/15/litla-beyglan-min-og-yfir-2000-slasadir-eda-bradveikir/

“ Hingað til hefur lítið verið hlustað á óskir fagfólks. Heilsugæslustöðvarnar tvær í Hafnarfirði voru færðar nauðugar undir stjórnunarvænginn í Reykjavík fyrir 5 árum síðan. Starfsfólkið mótmælti kröftuglega þá og harmaði að gengið skyldi á nærþjónustuna, sjálfstæði og frumkvöðlastarf stöðvanna. Nokkrum árum áður hafði málefni heilsugæslustöðvanna færst úr hendi sveitastjórnanna til ríkisins að ósk sveitafélaganna sjálfra þar sem þeim óx kostnaðurinn í augum “ http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2010/09/22/reykjavikurborg-vill-taka-heilsugaesluna-yfir/

„Heilbrigðisþjónustuna hefur tekið langan tíma að byggja upp á Íslandi, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu með sjálfan Landspítalann í fararbroddi og þangað sem flestra leiðir liggja einhvern tímann á ævinni. Fátt er okkur mikilvægara í mestri neyð lífsins en gott sjúkrahús með góðri bráðaþjónustu, en líka góðri heilsugæslu og dvalarstofnunum fyrir aldraða um allt land auk nauðsynlegrar sérgreinalæknisþjónustu. Um þessi atriði eru allir landsmenn sammála, en bara ekki skipulagi þjónustunnar og forgangsröðun verkefna sem fyrir liggja.“

„Það grátlega er þó, að frá sameiningu hefur maður aðallega séð yfirbygginguna í rekstri spítalans stækka, jafnhliða miklum niðurskurði á starfliðinu á gólfinu og auknu vinnuálagi þeirra sem eftir eru. Þjónustu sem er komin að þolmörkum þess ásættanlega. Þrátt fyrir marga samninga við Háskólann og nafni spítalans sem var breytt í Háskólasjúkrahús Landspítali. Jafnvel löngu fyrir hrun og þar sem góðærið kom aldrei. Þar sem brostinn er nú á mikill atgerfisflótti, enda býðst hæfasta starfsfólkinu margfalt betri kjör í öðrum löndum. Starfsfólk sem er á sínum besta starfsaldri og með mestu þekkinguna, jafnvel 6-12 ára sérnám að baki en því miður líka andvirði íbúðar í skuldahala í námslánum og húseignalausir. Þar sem tómt mál er að tala um að eignast hús, þaðan af síður að reisa nýtt.“ http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/05/05/nyr-landspitali-eins-og-slaemur-draumur-i-dos/

„Á flestum sviðum læknisfræðinnar höfum við Íslendingar talið okkur standa fremstir meðal þjóða á undanförnum áratugum, læknismenntunin hefur verið góð, boðið er upp á hátæknilækningar á flestum sviðum og töluvert um vísindarannsóknir sem eykur hróður okkar erlendis. Löngum höfum við líka státað okkur af minnsta ungbarnadauða í heimi og boðið útlendingum að skoða glæsilegar heilbrigðisstofnanir og nýbyggðar heilsugæslustöðvar, en sem nú standa sumar hálf auðar. Síðast en þó síst, á síðustu og verstu tímum, höfum við mikinn metnað að byggja nýtt og öflugt hátæknisjúkrahús. En eins og gott hús verður ekki smíðað án góðra smiða, verða góðar heilsugæslustöðvar og góð sjúkrahús ekki starfrækt án vel menntaðs starfsfólks.“ http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/07/25/stada-laeknisthjonustunnar-a-islandi/

„Álagið hefur stundum verið skilgreint innanhús (Slysa- og bráðamóttökunni) sem „rautt“ sem er hættuástand í starfseminni eða jafnvel „svart“ sem er glundroðastigið, og ætti helst ekki að geta orðið nema þegar alvarlegar hamfarir verða. Og þótt, sem betur fer, ekki sé hægt að rekja (mörg) dauðsföll beint til niðurskurðarins og bráðveikir fá enn fyrst hjálp, sér auðvitað hver sem vill, að afleiðingarnar geta oft orðið skelfilegar fyrir þá sem þurfa á skilvirkri og góðri heilbrigðisþjónustu að halda og að óbeint megi örugglega rekja ótímabær dauðsföll til niðurskurðarins. Þar sem oft er skautað hratt á mjög hálum ís“.  http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/07/10/bradaastand-i-sjalfri-heilbrigdisthjonustunni/

„Bráðaþjónustuvandinn nú er þannig, því miður, miklu meiri heldur en bara yfirflæðið gefur til kynna með uppsögnum hjúkrunarfræðinganna. Uppsagnir sem eru fyrst og fremst tilkomnar vegna allt of mikils vinnuálags til lengri tíma og lélegra kjara miðað við ábyrgð. Stærsti vandinn er kerfislægur og á sér djúpar rætur. Nokkuð sem heilbrigðisyfirvöld hafa ekki viljað horfast í augun við eða hlustað á, í áratugi. Hvað sem núverandi velferðarráðherra og fyrrverandi heilbrigðisráðherra segja um málið og sem vitna sífellt til yfirstjórnenda, undirmanna sinna á háskólasjúkrahúsinu og sem bera erfiða ábyrgð á daglegum rekstri. Í stað þess að kynna sér vandann í grasrótinni og sjá og finna, hvar hin raunveruleg þolmörk liggja hjá þjóðinni.“ http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/12/06/bradathjonustuvandinn-er-kerfislaegur/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn