Þriðjudagur 12.02.2013 - 14:13 - FB ummæli ()

Uppruni tegundanna

Sennilega átta ekki allir sig á alvarleika hrossakjötsmálsins sem tröllriðið hefur matvælamarkaðinum í Evrópu og skyndibitamenningunni. Ekki að hrossakjötið sé endilega verra kjöt undir tönn en nautakjöt og sem það er sagt vera, nema e.t.v. miklu eldra og seigara. Heldur ekki vegna bragðsins, heldur annars sem er miklu alvarlegra. Að ekki sé hægt að rekja uppruna kjötsins til framleiðsluhátta, slátrunar og vinnslunnar og strangt gæðaeftirlit á að ríkja með.

Mörg mál hafa komið upp á síðustu árum beggja vegna Atlantshafs, sem tengjast lífshættulegum matarsýkingum og eitrunum og sem rekja má beint til ólöglegrar slátrunar og slæmrar meðferðar á dýrum og kjöti. Jafnvel gamalt og illa fengið kjöt, uppfullt af hormónum, lyfjum ásamt öðrum úrgangi sem til fellur. Jafnvel sjálfdauðir stórgripir og gamlir dráttarhestar sem alist hafa upp við slæmar aðstæður. Hvort sem það er í Rúmeníu eða öðrum löndum sem öllu heilbrigðiseftirlit er mjög ábótavant miðað við það sem við þekkjum. Það er þannig með ólíkindum að einir stærstu matvælaframleiðendur í Evrópu skulu hafa látið líðast að óvissa sé með hvaðan stór hluti kjötsins sem þeir kaupa til sinnar framleiðslu sé fengið. Að jafnvel ekkert sé vitað um uppruna, tegund eða slátrun. Vil því í þessu sambandi vísa í gamla umfjöllun á blogginu um illa fengið kjöt og hættulegar matareitranir, sem gefið hafa skáldsagnahöfundum byr undir andagiftina í spennu- og hryllingsskáldsögum sínum, en sem jafnframt eru einu verstu martraðir mínar.

Saurgerillinn Escherichia coli (E. coli, af stofni O157:H7) lék aðalhlutverk í skáldsögunni Toxin eftir Robin Cook (1989) ásamt lækninum og ungri dóttur sem lést af völdum matareitrunar eftir að hafa neytt hamborgara á skyndibitastað. Sýkilinn er mjög vel þekktur í Bandaríkjunum og víðar og þrífst best í saurmenguðu nautgripakjöti sem og öðru kjöti og jafnvel grænmeti. Uppsprettan er þó fyrst og fremst rakin til sóðaskaps við slátrun, þar sem kjötið er upprunalega unnið, hversu gamalt kjötið er þegar það fer í kælingu og hversu hreint vatn er notað við skolun.

Hættulegur matareitrunarfaraldur af völdum E. coli geisaði í Evrópu fyrir aðeins tveimur árum og sem barst til 11 landa, síðast til Svíþjóðar. Hann var reyndar af öðrum stofni, svokölluðum O104:H4 sem átti upptök sín í Þýskalandi. Á nokkrum vikum var vitað yfir 2000 tilfelli veikra, þar af 520 sem ollu nýrnabilun og síðan dauða 30 einstaklinga. Á annað hundrað manns fékk varanlegar líffæraskemmdir. Ung börn og gamalt fólk fór verst út úr sýkingunum, jafnvel með bráða nýrnabilun eftir aðeins nokkra daga veikindi. Allt sem rakið var til eiturs sem sýkilinn gefur frá sér (toxin) og sem veldur hemolytic uremic syndrome (HUS). Uppruni sýkilsins var að lokum rakin til jarðbaunaræktar. Á þessum tíma varaði bandaríska landlæknisembættið ameríska ferðamenn við hættu vegna þessa „Super-Toxic“ sýkils, ef þeir hygðust ferðast til og frá Evrópu. Þegar öll Evrópa var í hálfgerðri sóttkví vegna matareitrunar af óvissum toga og rakin var til matvælaframleiðslu fyrir almenning.

Allt leiðir þetta auðvitað hugann að íslenskri matvælaframleiðslu og þeirri auðlegð sem fiskurinn okkar er og landbúnaðarafurðir. Hvað það er mikilvægt að halda í gæðin og upprunavottun matvæla frá Íslandi sem enginn mun efast um.

http://www.dv.is/frettir/2013/2/11/vissu-af-mengudu-kjoti-lengi/

http://www.bbc.co.uk/news/business-21413966

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/02/14/fundu_hrossalyf_i_kjoti/

http://www.guardian.co.uk/uk/2013/feb/11/tesco-spaghetti-bolognese-horsemeat

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn