Alltaf er að koma skýrar í ljós hvað fæðan og umhverfisáhrifin skipta okkur miklu máli á flestum sviðum, ekki síst fyrir erfðaefnið. Ekki aðeins til að okkur sjálfum líði betur og lifum lengur, heldur einnig að börnin okkar fæðist heilbrigðari og haldist hraustari.
Mikið hefur verið skrifað um mikilvægi D-vítamíns ekki síst fyrir konur, svo og mikilvægi hollrar fæðu almennt hér á blogginu. M.a. áhrif ýmissa afoxandi efna úr jurtaríkinu á litningana okkar og sem er ein helsta vörn okkar gegn hrörnunarsjúkdómum og krabbameinum. Eins áhrif D-vítamíns sem hormóns á flesta starfsemi líkamans, ekki bara beinin, heldur einnig vöðva, taugavef, ónæmiskerfið og almenna vellíðan. Fyrir nokkrum dögum voru síðast þroskaraskanir með ofvirkni og athyglisbresti (ADHD) til umræðu og sem talið er há allt að 10% barna. M.a. vegna umhverfisþátta og samspili við erfðir. En hvað með aðrar þroskatruflanir barna?
Lengi hefur verið vitað um verndandi áhrif fólinsýru gegn fæðingargöllum í miðtaugakefi (neural tube defect). En nú síðast í gær berast síðan fréttir af stórri norskri rannsókn sem sýnir verndandi áhrif folinsýru 4 vikum fyrir getnað og síðan á fyrstu 8 vikum meðgöngu gegn meðfæddri einhverfu (autism disorder). Einhverfa sem er vegna röskunar í taugaþroska, en er í raun samansafn hegðunareinkenna og sem birtast á mismunandi tímum eftir fæðingu. Rétt er að benda hér í þessu sambandi á góða grein Dr. Eðvalds Sæmundsen í Fréttablaðinu sl. vor. Talið er að hátt í þúsund íslenskra barna eigi við þroskatruflanir að stríða hverju sinni og sem flokkast undir einhverfurófsraskanir, eða rúmlega 1% allra barna.
Norska rannsóknin sem birtist í gær í JAMA, fylgdi eftir 85,000 norskum börnum, fæddum 2002 til 2008, ásamt upplýsingum um fólinsýruinntöku mæðranna á meðgöngunni. Ávinningur af reglubundinni fólinsýruinntöku gegn einhverfu (autism disorder) mældist í niðurstöðunum upp undir 40%, eða 64 börn með einhverfu hjá 61042 mæðrum sem tóku inn fólinsýru í ráðlögðum dagskömmtum, gegn 50 börnum af 24134 mærðum sem ekki tóku fólinsýruna. Ekki var hins vegar sjáanlegur ávinningur fólinsýruinntöku geng vægari formum einhverfu og einhverfuróli (Asperger’s syndrome og pervasive developmental disorder-not otherwise specified (PDD-NOS). Mælanlegur ávinnur á fólinsýruinntöku fannst heldur ekki eftir 22 viku meðgöngu. Frekari rannsóknir þarf til, til að staðfesta niðurstöðurnar m.a. með framvirkum rannsóknum. Engu að síður verður nú væntanlega mælt með inntöku á fólinsýru fyrr en áður, og sem samsvarar þá um 400 míkrógrömmum á dag, ekki síst ef kona hugar að barneignum.
Folinsýa (einnig kallað fólat) er eitt af B vítamínunum (B9) og sem er talið sérstaklega nauðsynlegt við uppbyggingu erfðaefnis okkar, DNA, og til viðgerðar á því síðar. Þannig er fólinsýran talin mjög mikilvæg í nýmyndun alls fóstursvefs, ekki síst taugavefs sem þroskst fyrst. Vítamínið finnst ríkulega í ýmsu grænmeti og vissum ávöxtum, m.a. í linsubaunum, svörtum baunum, hnetum, spínati, brokkólí og appelsínusafa. Víða erlendis t.d. í Bandaríkjunum er tilbúin fæða oft vítamínbætt með fólinsýru ásamt fleirum lífsnauðsynlegum vítamínum til að tryggja lágmarksinntöku fyrir sem flesta. Aðrir algengir áhættuþættir fyrir einhverfu eru annars taldir vera fyrirburafæðing, léttburafæðing, sumar sýkingar móður á meðgöngu sem og áhrif ýmissa lyfja og eiturefna.
Eins hefur verið sýnt fram á að einhverfa getur verið arfbundinn, eða í um a.m.k. 15% tilfella (áður talin skýra flest einhverfutilfelli) og að áhættan er alltaf talin aukin fyrir hjón að eignast barn með einhverfu ef þau eiga barn fyrir með sjúkdóminn. Í rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar sl. haust og sem vakti heimsathygli kom síðan í ljós að í 97 prósent tilfella af fjölbreytni í tíðni stökkbreytinga mætti rekja til aldurs föður, en ekki móður eins og áður hefði verið talið. Því eldri sem faðirinn er við getnað, því meiri líkur eru á að stökkbreyting verði.
„Phytochemicals“ eru önnur náttúruefni en vítamín úr jurtaríkinu og sem ekki eru skilgreind sem næringarefni sem slík. Fyrir utan afoxandi eiginleika hafa þau líka hvert um sig sinn sérstaka eiginleika til að vernda og byggja upp frumurnar okkar. Náttúrulegt ferli sem sýnir best uppruna okkar og hvar okkur er ætlað að lifa, ekkert ósvipað og kom fram í umræðunni um blessaða D-vítamínið, en þegar sólina sárlega vantar og við verðum að bæta okkur hana upp með örðu móti, lýsi eða vítamínhylkjum. Íslensku tómatarnir eru t.d. hlaðnir þessum æskilegu „ljós“efnum og sem ættu heldur aldrei að vanta á diskana okkar. Eins mætti þar telja ýmsar aðrar jurtir, grænmeti og ávexti, ekki síst tumeric eða curcumin öðru nafni, chilli pipar, engiferrót, hvítlauk, sojabaunir, jafnvel kál, vínber, hunang, grænt te og fl. auks brokkolí sem jafnframt inniheldur einmitt ríkulega fólinsýru.
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/05/27/verum-betur-a-verdi-i-faeduvalinu/