Ný vísindagrein sem vakið hefur heimsathygli, birtist í fyrradag í rafrænni útgáfu JAMA, læknavísindatímariti bandarísku læknasamtakanna, um áhættu svokallaðra SSRI þunglyndislyfja gagnvart hættulegum aukaverkunum sem geta komið upp í og eftir stórar skurðaðgerðir. Sérstaklega blæðingaáhættu, en líka öðrum hættulegum uppákomum svo sem hjartsláttartruflunum og samsvarar aukningin allt að 20% í fjölda tilvika. Aukningin samsvarar rúmlega 10% hækkaðrar tíðni á alvarlegum blæðingum einum og sér, eftir að leiðrétt hefur verið fyrir öðrum áhættum sem fylgja þunglyndi svo sem offitu og tengdum sjúkdómum sem og lungnasjúkdómum.
Vitað er að SSRI lyfin geta haft áhrif á blóðfögur og skert storkun blóðs, en einnig var vitað um hugsanleg áhrif SSRI lyfja varðandi að koma af stað lífshættulegum hjartsláttartruflunum. Minni rannsóknir hafa þó aldrei getað metið áhættuna vel hingað til.
Greint er frá rannsókninni nú í JAMA á Medscape vefnum og rætt m.a. við ritstjóra tímaritsins. Um verulega stóra afturvirka rannsókn var að ræða sem náði til 375 stærstu sjúkrahúsa í Bandaríkjunum á árunum 2006-2008 og til rúmlega hálfs milljón sjúklinga sem þar höfðu farið í aðgerðir. Sérstaklega mældist áhættan meiri við hjartaaðgerðir og stærri bæklunaraðgerðir.
Talið er að að meira en 10% fullorðinna Íslendinga taki SSRI lyf inn við kvíða og þunglyndi á hverjum tíma svo niðurstöðurnar koma okkur vissulega mikið við. Eins er þá núna um staðfesta aukaverkun að ræða sem skiptir enn meira máli vegna hugsanlegrar ofnotkunar á þessum annars þýðingarmiklu lyfjum fyrir þá sem eiga við alvarlegan kvíða eða slæmt þunglyndi að stríða og sem gagnast lyfjameðferðin vel undir eðlilegum kringumstæðum. Algengustu lyfirn hér á landi eru Sertral, Zoloft, Cipramil, Cipralex, Fluexitin, Effexor, Venlafaxin, Cymbalta og önnur sambærileg sér- og samheitalyf.
Rannsakendurnir, Auerbach og félagar, og ritstjórar JAMA telja fulla ástæðu til að vera vel á verði gagnvart SSRI þunglyndislyfjum og aukaverkunum ef sjúklingar þurfi geðheilsunnar vegna að vera á slíkum lyfjum fyrir stórar aðgerðir. Ekki hins vegar endilega að hætta meðferðinni, enda komi margt annað til, ekki síst betri almenn andleg líðan í flestum tilvikum fyrir og eftir aðgerð. Varhugavert getur líka verið að hætta snögglega á þessum lyfjum. Í sumum tilfellum væri þó vert að endurmeta vel ástæður SSRI þunglyndislyfjameðferðar fyrir stórar skurðaðgerðir.
http://archinte.jamanetwork.com/article.aspx?articleid=1682366
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/04/12/vakna-thu-nu-thjod-min/