Mánudagur 03.06.2013 - 14:48 - FB ummæli ()

Krabbamein fræga fólksins, en líka okkar hinna

Það virðist skipta sköpum í allri fjölmiðlaumræðu og hvað varðar árvekni almennings um heilsuna í kjölfarið, að fræga fólkið komi fram og segi frá sinni reynslu tengt lífshættulegum sjúkdómum, ekki síst krabbameinum. Þekking sem samt oft hefur lengið lengi fyrir, en fengið litla athygli fjölmiðlanna. Þannig var eins og þjóðin vaknaði af djúpum svefni þegar fréttist að Angelina Jolie hafði farið í brjóstnám vegna þess að hún var arfberi BRCA1 gensins sem eykur mikið líkur á brjóstakrabbameini. Nú hefur Michael Douglas líka komið fram og greint frá krabbameini í tungurót tengt HPV sýkingu eftir munnmök. Krabbamein sem má fyrirbyggja að miklu leiti með bólusetningu í dag. Á sama tíma og aðeins grunnskólastúlkur fá bólusetninguna ókeypis ókeypis hér á landi í dag, vöktu 365 miðlar hins vegar upp spurningu um tvöfalt heilbrigðiskerfi í síðustu viku vegna skerts aðgangs ungbarna við hlaupabólu-bólusetningu! Bólusetningu sem orkað getur tvímælis í stöðunni í dag, og sem ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um að innliða í ungbarnaeftirlitinu.

Í tilefni af mottumarsinum 2013, benti ég sem oftar á mikilvægi HPV (Human Pappiloma Virus) bólusetningar kvenna til að verjast leghálskrabbameini, en sem einnig gagnast þá körlum óbeint. Ekki síst er varðar áhættuna á af fá HPV orsakað krabbamein í munni og hálsi, en líka hjá samkynhneigðum körlum með bólusetningu og varðar áhættuna á að fá krabbamein í endaþarm sem veiran getur einnig valdið. Krabbameinum sem tengjast langvinnum veirusýkingum í slímhúðum unga fólksins fyrst og fremst og með breyttri kynhegðun í nútíma samfélagi hjá báðum kynjum. Í Danmörku kemst maður þannig ekki hjá því að sjá allar auglýsingarnar í fjölmiðlunum um gildi HPV bólusetninga og sem Danir bjóða ungum konum ókeypis til 26 ára aldurs. Markmið þeirra er enda að ná til sem flestra á sem skemmstum tíma.

Nýgengi leghálskrabbameina kvenna á Norðurlöndunum sem oftast tengist HPV veirusýkingu upphaflega, er um 9 konur af hverjum 100.000. Tíðnin hefur farið lækkandi með góðri krabbameinsleit og sem mun væntanlega lækka mikið þegar árangur af bólusetningum ungra stúlkna í dag gegn HPV veirunni fer að skila sér. Forstigsbreytingarnar finnast hins vegar miklu oftar og hátt í 300 konur fara í  keiluskurð á hverju ári hér á landi í dag vegna þeirra, auk þess sem margfalt fleirum er fylgt náið eftir. Um 20 einstaklingar greinast síðan á ári með HPV orsakað/tengt krabbamein í munnholi og koki, fleiri karlar en konur. Áætlað hefur verið að eftir nokkur ár (2020) greinist fleiri karlar með krabbamein í munni og koki í Bandaríkjunum en konur með leghálskrabbamein sem orsakað er af HPV veirunni.

Samspil HPV veirunnar við ýmsa aðra áhættuþætti krabbameina svo sem reykinga, áfengis og jafnvel getnaðarvarnarpillunnar er talin geta skýrt um 7% allra krabbameina í dag. Áætlað er að yfir 40% yngri kvenna séu smitaðar af HPV veirunni í leghálsi á hverjum tíma og án þess að nokkur einkenni séu til staðar (svo sem kynfæravörtur). Um 7% fullorðinna eru taldir líka með smit í munnholi. Þar sem karlinn getur síðan ýmist verið smitberi eða fórnarlamb sýkingarinnar.

Ráðgjöf um kynheilbrigði þarf að fara fram um leið og notkun getnaðarvarna er rædd við unga fólkið. Bjóða þyrfti helst öllum stúlkum til 26 ára aldurs ókeypis bólusetningu gegn HPV eins og Danir eru farnir að gera. Og spurningin er síðan hvað við ætlum að gera í málefnum ungra drengja í dag, en sem verða karlmenn á morgun? Heilbrigðisyfirvöld m.a. Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu, mæla með HPV bólusetningu (Gardasil) fyrir drengi og sem verja þá, þá um leið gegn kynfæravörtum. Ástralir ætla í ár að bjóða þessar bólusetningar ókeypis fyrir drengina. Ákvörðun til að bæði kynin njóti góðs af sem fyrst. Íslendingar ættu ekki að þurfa að vera eftirbátur annarra þjóða í þessu mikilvæga heilbrigðismáli unga fólksins í dag, kvenna, jafnt sem karla.

http://www.guardian.co.uk/society/2013/jun/03/hpv-cancer-links-michael-douglas-webchat

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/01/08/hpv-veiran-og-krabbamein-unga-folksins/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/03/04/bolusetning-gegn-algengum-krabbameinum/

http://www.vaccinemodkraeft.dk/

http://www.ssi.dk/Vaccination/Boernevaccination/Sporgsmal%20og%20svar/Om%20HPV-vaccination.aspx

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn