Þriðjudagur 13.08.2013 - 14:33 - FB ummæli ()

Heilbrigðisþjónusta sem einfaldlega er ekki í boði á sjálfu höfuðborgarsvæðinu

Fréttaflutningur af brýnum heilbrigðismálum er oft einhliða og fréttamiðlar þá sofandi yfir vandamálunum. Vandamál sem hafa verið lengi við lýði í grunnheilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og t.d. Slysa- og bráðamóttaka LSH er að kikna undan álagi.

Viðtal var við Þorberg Egilsson hjá Lyfju í sjónvarpsfréttatíma RÚV í gærkvöldi vegna lokana allra apóteka á nóttunni en sem sinntu vaktþjónustu á árum áður og sem var þá bundið lyfsöluleyfinu en sem síðar var gefið frjálst. Ekkert apótekanna taldur sig nú hafa skyldu til að hafa opið á nóttunni enda þá lítil sala á lyfjum, í apótekum sem gengur engu að síður vel að reka um helgar. Hann sagði að samkvæmt samningi við Læknavaktina frá árinu 1999, að þá skaffi Læknavaktin (vitjunarþjónustan) nauðsynleg lyf á nóttunni (lyf sem Lyfja skaffaði til bráðabirgða í svokallað læknabox). Þannig gæti vaktlæknir skaffað nauðsynlegustu lyf til næsta dags og skrifað út á lyfseðla í framhaldinu þegar um lyfseðlaskyld lyf var um að ræða (t.d. sýklalyf).

Rétt er hins vega að benda á, að frá vormánuðum 2011 hefur ekki verið um neinn slíkan samning að ræða og í raun ekki neinn samningur við stjórnvöld um vitjanaþjónustu eða læknishjálp á nóttunni í Reykjavík og nágrenni, eða frá því fyrir miðnætti og til kl. 8 að morgni. Samningsvilji var einfaldlega ekki fyrir hendi og sjúklingum og aðstandendum þeirra bent á símþjónustu Læknavaktarinnar (viðtal við hjúkrunarfræðing) eða að leita beint eftir þjónustunni á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Höfuðborgarsvæðið er því eina svæðið á landinu sem býður ekki upp á vitjunarþjónustu og aðgang að nauðsynlegum lyfjum á nóttunni. Vil ég að þessu tilefni endurbirta 2 1/2 árs gamlan pistil um efnið og þegar sýnt var í hvað stefndi, það verður ekki bæði sleppt og haldið.

„Í yfir 80 ár hafa Reykvíkingar eins og aðrir getað treyst á heimavitjun læknis þegar mikið liggur við vegna veikinda. Nú bregður hins vegar svo við að ákveðið hefur verið að leggja þessa þjónustu niður á nóttunni, frá og með næstu mánaðarmótum. Ekki er lengur vilji stjórnvalda að semja við Læknavaktina ehf. um þessa þjónustu og sem sinnt hefur móttöku- og vitjanaþjónustu heimilislækna á kvöldin og um helgar í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði sl. áratugi. Þjónustan verður þannig skörinni lægri á mest öllu höfuðborgarsvæðinu miðað við landsbyggðina sem áfram tryggir aðgengi að grunnþjónustu heimilislækna eins og annarri öryggisþjónustu allan sólarhringinn.

Mikill sparnaður hefur verið fyrir ríkið á undanförnum árum af samningi sínum við Læknavaktina sem sinnir hátt í hundrað þúsundum erindum sjúklinga sem leitað hafa eftir læknisþjónustu á kvöldin, á nóttunni og um helgar og sem leyst hefur getað úr vandamálunum án tilvísunar á hátæknisjúkrahús í lang flestum tilvikum. Samsvarandi fyrirkomulagi og er úti á landi, hefði annars hver heilsugæslustöð í Reykjavík og nágrenni þurft að sinna sinni eigin vakt með ærnum tilkostnaði allan sólarhringinn. Því var mikil hagræðing að semja um vaktþjónustuna við heimilislæknana sjálfa.

Maður spyr sig auðvitað í dag um sameiginlega ábyrgð stjórnsýslunnar og hvort kerfin tali virkilega ekki saman, heilbrigðisyfirvöld og bæjaryfirvöld í Reykjavík og nágranasveitafélögunum. Ekki síður lögregluyfirvöld sem hingað til hafa treyst á góða samvinnu við heilbrigðiskerfið. Það getur nefnilega haft afdrifaríkar afleiðingar að klippa á hlekk í öryggiskeðjunni og verst þegar lögreglan sjálf á þar hlut að máli.

Nýlegt og afdrífaríkt dæmi er fyrir rúmlega ári síðan þegar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sniðgekk eldri verklagsreglur og samninga við heimilislækna um læknisvottorð, blóðprufutökur og hæfnismats vegna gruns um áfengis- og fíkniefnaneyslu við akstur eða í öðrum sakamálum og kaus þess í staðinn að semja við einkafyrirtæki úti í bæ. Þjónustu sem heimilislæknar Læknavaktarinnar ehf. í opinberri þjónustu höfðu sinnt vel um áraraðir eins og allir aðrir heimilis- og héraðslæknar í sveitum landsins. Einn liður í öryggiskeðjunni og m.a. grundvöllur að geta haldið úti vaktbíl með bílstjóra á nóttunni í Reykjavík, ekki síst um helgar.

Vaktþjónustan verður með öllu aflögð á nóttunni frá og með næstu mánaðarmótum og sjúklingum þá bent á að leita beint á Slysa- og bráðamóttöku Landsspítla eftir hjálp. Þjónustu sem halda hefði mátt saman þar sem hún á heima og semja um eins og aðra þjónustu Læknavaktarinnar hingað til. Það er pínlegt þegar heilbrigðisyfirvöld sjá ekki heildarmyndina og að grunnheilsugæsla á við allan sólarhringinn, ekki bara 2/3 hluta hans. Símsvörun hjúkrunarfræðings á nóttunni leysir ekki vandann.

Má maður biðja um örlítið meira innsæi og visku. Það verður nefnilega ekki bæði sleppt og haldið, nokkuð sem stjórnvöld sem bera ábyrgð á velferðar- og öryggismálum verða að átta sig á. Þar sem kerfin eiga ekki eingöngu að tala saman, heldur líka að vinna saman og hlúa að öryggi íbúanna á öllum sviðum. Á meðan er vaktlækninum sleppt heim á kvöldin til að sofa vært yfir nóttina í henni Reykjavík.“

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/04/25/ekki-baedi-sleppt-og-haldid/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/01/18/log-og-reglur/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/07/10/bradaastand-i-sjalfri-heilbrigdisthjonustunni/ 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn