Oft blöskrar mig í daglegri vinnu, öll vitleysan sem tröllríður getur endurtekið yfir þjóðina, miklu meira hér á landi að því er virðist en í nágranalöndunum. Þegar sjúklingarnir mínir virðast teymdir í blindni af markaðsöflunum og jafnvel látnir borga offjár fyrir gagnslausar, en stundum líka hættulegar meðferðir. Það virðist þá að trúin ein eigi að geta flutt fjöllin, en sem kostar okkur síðan heilsuna. Einhver gefur t.d. út kokkabók með kolvetnaskertu fæði sem hentað getur fáum, en sem alþjóð meðtekur sem trúarjátninguna fyrir alla. Eins stundum rándýrar inntökumeðferðir með nánast gagnslausum fæðubótarefnum, og þar sem menn deila stöðugt um áhrifamátt lyfleysunnar.
Verst af öllu er þegar skjólstæðingur segjast hafa lesið „góðar“ greinar í blöðunum um nýjar óhefðbundnar meðferðir eða kúra, sem lækna eiga hið ómögulega og afeitrað líkamann. Greinar sem eru í raun faldar auglýsingar og kostaðar af þeim sem mestra hagsmuna hafa að gæta og samþykktar af ritstjórum sérblaða til að auka lestur. Oft finnur maður sig vanmáttugan sem lækni gegn öllum þessum öflum, og meiri og meiri tími læknis (og sjúklings) fer í að leiðrétta alla vitleysuna og að fá fólk nú til að trúa á vísindin og bestu þekkinguna í læknisfræðinni hverju sinni. En vissulega er margt gott sem kemur beint frá náttúrunni og telst til óhefðbundinnar meðferðar eða náttúrulækninga, en sem því miður allt of margir mistúlka eða beinlínis rangtúlka til þess eins að græða á.
Alvarlegast er þegar áróðurinn fer beinlínis að vera heilsuspillandi og jafnvel lífshættulegur. Þannig hitti ég nýlega mann sem hafði náð að léttast um 15 kíló á hálfu ári og sem hann þakkaði hinum fræga lágkolvetnakúr. Uppistaðan í fæðunni voru prótein og fita. Engar góðar íslenskar kartöflur eða önnur góð kolvetni, en þó smá grænmeti. Hann var orðin svo ánægður með árangurinn að hann hætti alveg að taka kólesteróllækkandi lyfin sín, enda hafði hann svo sem ekki verið svo hár í kólesterólinu áður. Ég bað hann endilega að koma í blóðmælingu og reyndist þá miklu hærri í kólesterólinu en hann hafði nokkru sinni verið áður. Miklu hærri en fyrir kúrinn „góða“. Aðeins 1/6 hluti blóðfitunnar reyndist auk þess góða kólesterólið, hvernig átt annað vera eftir öll eggin, beikonið og pulsurnar. Ég bað hann eftir smá fyrirlestur, að byrja strax að taka lyfin sín aftur og borða nú eins og maður, góð kolvetni í bland með hóflegri fitu og próteinum. Hreyfa sig meira og borða aðeins minna, auk þess að sleppa öllu gosi.
Allir kúrar, hversu góðir og skynsamlegir þeir kunna að hljóma í upphafi, eru auk þess dæmdir til að mistakast ef ekki fylgir grundvallar viðhorfsbreyting á sjálfum lífsstílnum. Mest varðandi hófsemi og nægjusemi í því sem við höfum um aldir talið hollt og gott, ásamt nægri hreyfingu.