Mánudagur 18.11.2013 - 20:46 - FB ummæli ()

Spegill, spegill herm þú mér…

spegillLæknar mega ekki auglýsa sig og sína starfsemi samkvæmt íslenskum læknalögum nema í 2-3 hóflegum auglýsingum þegar þeir hefja rekstur. Þannig er verið að sporna gegn óþarfa markaðshyggju á lækningum og samkeppni um inngrip sem ekki þykja hæfa læknaeiðnum og reglum um góða starfshætti lækna. Á landi þar sem allir eiga að njóta sem jafnast aðgengis að heilbrigðisþjónustunni, óháð fjárhag. Og auðvitað mega læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk aldrei gera meira ógagn en gagn, fyrir einstaklinginn sem þeir þjóna sem og þjóðfélagið allt.

Umræða um allskonar einkarekstur og að þeir efnameiri eigi að geta keypt þjónustu fram fyrir aðra hefur einnig verið hávær í seinni tíð. Umræða sem náði þó hámælum í góðærinu svokallaða með hugmyndum manna um arðvænlegar lækningamiðstöðvar fyrir útlendinga hér á landi. Allt sem svo sem væri í lagi ef grunnþjónustan yrði tryggð á sama tíma og helst bætt, en sem aldrei hefur verið meiri óvissa um en einmitt nú, nokkrum árum eftir fjármálahrunið og þar sem einnig blasir nú við hrun í sjálfu heilbrigðiskerfinu. En mitt í öllu peningaleysinu nú hefur umræða um fegrunarlækingar hverskonar aldrei verið meira áberandi. Jafnvel formaður fagfélagsins auglýsir starfsemina sem aldrei fyrr með endurteknum kynningum í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum, undir yfirskini almennt bættrar heilsu landans. Þar sem samt auglýsingar markaðshyggjurnar virka sem galdarspegill nútímans.

Að laða fram gylliboð um að breyta megi flestum til að þeir falli inn ímyndaða fegurð og staðalmynd, er umhugsunarvert. Ekki síst á þeim tímum sem við nú lifum og þegar flestir berjast í bökkum og reyndar sjálft heilbrigðiskerfið. Margir eiga ekki fyrir lífsnauðsynlegum lyfjum og biðlistar í lífsnauðsynlegar aðgerðir lengjast stöðugt. Á sama tíma heldur vefsíða „blaðs allra landsmanna“ uppi síðu fyrir fegrunarlækningar eins og greint er frá nú í helgarblaði DV. Dulbúin auglýsing sem fyrst og fremst lokkar og kitlar hégómagirnd unga fólksins og reyndar sumra þeirra eldri líka.

Ísetning óþarfa íhluta í líkamann er þó alvarlegast í þessu máli öllu saman að mínu mati og ekki bara einkamál hvers og eins, heldur alls heilbrigðiskerfisins. Miklu meiri hætta er á lífshættulegum sýkingum nú á tímum vaxandi sýklalyfjaónæmis en áður var og vegna þeirrar staðreyndar að í íhluti sækja bakteríufléttur. Íhlutirnir eru auk þess misvandaðir og stundum beinlínis gallaðir eða falsaðir eins og dæmin sanna hjá yfir 400 íslenskum konum, og sem vegið getur allt að 5% líkamsþyngdar þeirra.

Almennt hafa t.d. brjóstaimplönt af öllum gerðum verið að leka í 20% tilfella á innan við 10 árum, með ófyrirsjáanlegum langtímaafleiðingum og sílikontæringu á eitlum og beinum. PIP púðarnir voru hinsvegar bara verri. Fleiri þúsundir ungra kvenna þurfa þannig hugsanlega að leita í vaxandi mæli til heilbrigðiskerfisins á komandi árum með óskýrð einkenni afleiðingar íhluta í brjóstum og þar sem nýyrðin hafa skapast, svo sem „óskýrðir brjóstverkir vegna brjóstapúða“ og „sílikon snjókoma í holhönd“ (vegna leka) og sem auk þess gera allt krabbameinseftirlit erfiðara en áður var.

Í upphafi skyldi endinn skoða. Sálarangist kvenna með leka púða og verki vegna óþarfa fyrri aðgerða, verður ekki læknuð með endurteknum fegrunaraðgerðum. Frekar með sálfræðihjáp og lýtalækningum og sem upphaflega var markmið greinarinnar. Að hjálpa þeim sem þjást vegna áskapaðra líkamsgalla, afleiðing slysa eða fyrri alvarlegra meina.

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/11/25/personuvernd-og-islensku-brjostabobbingarnir-ihlutun-og-ihlutir-seinni-hluti/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/03/01/nytt-og-flokid-heilbrigdisvandamal-medal-thusunda-kvenna-a-islandi/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/02/27/vonsviknar-konur-og-brostnir-brjoststrengir/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2010/02/26/brjostastaekkun-a-stod2/

(áður birt á DV blogginu 16. nóvember 2013)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn