Laugardagur 02.11.2013 - 21:29 - FB ummæli ()

Lífsstíllinn, ekki kúrinn

lifstillinn“ Í dag ná almennt aðeins um 10% offitusjúklinga að léttast. Flestir, um 90%, ná ekki að léttast þrátt fyrir oft óteljandi kúra. Og það sem verra er, halda áfram að fitna.“

Það er eins og að bera í bakkafullan lækinn að fara ræða offituvandann enn einu sinni. Ég má þó til vegna umræðunnar um þessi mál og sem mér finnst oft á villigötum. Bæði forðast sumir að ræða hinn raunverulega lýðheilsuvanda sem við stöndum frammi fyrir og einblína á málið meira út frá útlitinu, enda fegurðardýrkun á mannslíkamanum allsráðandi. Öfgarnar á milli eins og svo oft áður. Í raun næst ekki árangur gegn offitunni fyrr en við látum af útlitsdýrkun, sleppum öllu tali um átök og kúra og förum að líta á málin út frá rökhyggju heilsunnar.

Sextíu og fimm sjúkdómar hafa verið tengdir offitu eingöngu, t.d. sykursýki, efnaskiptabrenglanir, hjarta- og lungnasjúkdómar, gigtarsjúkdómar, ótímabærir hrörnunarsjúkdómar, krabbamein og geðsjúkdómar. Alvarleg vísbending um hina nýju heilbrigðisógn sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð. Offitufaraldur sem engan veginn hefur náð hámarki og sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur eina mestu heilbrigðisógn 21. aldarinnar í hinum vestræna heimi. Heimsfaraldur sem stefnir heilbrigðiskerfum flestra þjóða að verða ofviða vegna kostnaðar, a.m.k. eins og við þekkjum það best á Íslandi í dag.

Flestir vita hvað gerist ef vitlaust eldsneyti er sett á vélar. Eins er með næringuna okkar, í of miklu magni miðað við brennslu og hreyfingu. Ofneysla af hvítum sykri, ásamt fínum kolvetnum og fitu, er aðal ástæða offituvandans í dag. Fáir gera sér hins vegar grein fyrir hvaða hlutverki vöðvarnir þjóna sem líffæri til að stjórna brunanum og svengdarstjórn gegnum heilann. Góðir vöðvar sem eru þjálfaðir með stórum og litlum skerfum alla daga. Þannig miklu meira en til að bara koma okkur á milli staða. Allt til að hámarka orkunýtingu og hreyfigetu, án óþarfa þyngdarbyrði og helst með eldsneyti sem hentar vel til lengdar. Eins og önnur sjálfbær kerfi sem stöðugt leita leiðréttinga á sjálfu sér, en nú með hjálp heilans. Með göngu og sundi skynjum við síðan umhverfið mikið betur og úr hverju við erum sköpuð. Allt sem gefur þá hugarró sem þarf til að sjá samhengið í hlutunum, með eigin augum.

Í dag ná almennt aðeins um 10% offitusjúklinga að léttast. Þar af aðeins helmingur með einhverskonar lífsstílsbreytingu, en hinir með hjálp lyfja og skurðaðgerða (m.a. garnastyttingar). Flestir, um 90%, ná ekki að léttast þrátt fyrir oft óteljandi kúra. Og það sem verra er, halda þess í stað áfram að fitna. Sjúkdómur sem á þó eingöngu rætur að rekja til lífstílsvenja okkar sjálfra, röngu mataræði og lítilli hreyfingu. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, fylgjum við fast á hæla Bandaríkjamanna hvað hraða þróun í ofþyngd og offitu varðar, enda teljast Íslendingar nú meðal feitustu þjóða heims. Þriðjungur Bandaríkjamanna er t.d. haldinn offitu (þyngdarstuðull, BMI > 30%) og 17% barna. Hér á landi er um 20% fullorðinna á Íslandi offeitir og þriðjungur barna yfir kjörþyngd. Á sl. þremur áratugum hefur offeitum í Bandaríkjunum fjölgað um 100%, og þeim sem eru með þyngdarstullðinn >40 um 400%.

Ofþyngd er reyndar annað en offita, en sem í mörgum tilfellum er aðeins forstig offitunnar. Ofþungir geta þannig verið við hestaheilsu, en því miður fæstir og nærast líka vitlaust. Vitað er að görnin framleiðir hormóninn leptin sem getur aukið á matarlyst, stundum í of miklu gagni. Vöðvarnir, sem færri vita, koma líka mikilvægum skilaboðum til heilans um það gagnstæða eins og áður sagði, ef þeir eru þjálfaðir. Ofþyngd bendir auk þess stundum til almennrar efnaskiptavillu, einkum meðal þeirra sem eru með slæma fitudreifingu um sig miðja, meira í útliti þá eins og epli en pera.

En hvað er þá svona flókið að ná árangri? Margir fara þá leið að prófa nýju kúrana, allt eftir því hverjir eru mest í tísku í það og það skiptið. Sumir kúrarnir eru sjálfsagt betri en aðrir, en fæstir halda til lengdar, enda bara kúrar. Kolvetnaskerti kúrinn í dag getur þannig sjálfsagt hentað offeitum tímabundið til að grennast aðeins og jafnvel til að bæta efnaskiptin örlítið. Sá kúr breytir þó ekki þeirri staðreynd að við verðum að fá góð kolvetni sem uppistöðu í okkar næringu og sem helsta orkugjafa, ekki síst börnin. Mikil fitu- og próteininntaka er hins vegar mög óholl til lengdar, fyrir æðakerfið og nýrun auk þess að geta verið áhættuþáttur fyrir krabbamein, t.d. í ristli. Með góðum kolvetnum eins og t.d. grófu korni fáum við auk þess nauðsynleg bætiefni, vítamín (B og E vítamínin) og trefjar. Öll viljum við að lokum fjölbreyttan mat, þar sem lögmálið um smærri skammta á að fá að ríkja, frekar en boð og bönn.

Algengasta efnaskiptavillan tengt offitunni er skert sykurþol og sykursýki, þegar insúlínið vantar miðað við þyngd og síðar í alvarlegast formi sykursýkinnar, vantar alveg og briskirtilinn hefur gefist upp (diabetes mellitus typa 1) og sem getur reyndar líka verið meðfæddur sjúkdómur. Sykursýkisfaraldurinn er í það minnsta þegar er farinn að skella á þjóðinni af fullum þunga. Allt að fjórðungur 65 ára og eldri stefna í að endi með fullorðinssykursýkina (diabetes mellitus typa 2). Milli 5-10% þungaðra kvenna í dag eru haldnar meðgöngusykursýki, hættulegt ástand sem gefur sterka vísbendingu um framhaldið síðar. Eins og það sem er alvarlegast, valdið fósturskemmdum og eykur líkur á ofþyngd fósturs og sykursýki meðal nýfæddra barna. Arfleif móður án gena til komandi kynslóðar.

Allt önnur sykursýki, sjúkleg fíkn í hvítan sykur, er reyndar oftast rót og grunnur offitunnar í byrjun og síðan hinnar eiginlegu sykursýki. Óhófleg neysla á hvítum sykri sem Íslendingar neyta meira af en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Sumir segja hættulegt fíkniefni sem finnst í mesta magninu í sykruðum drykkjum og sem taldir eru innihalda um 20% af allri sykurneyslu landans. Kenningar eru einnig um að sykurinn plati heilann og auki alla aðra matarfíkn. Skerðing á óhóflegri sykurneyslu lands sem er fimmföld miðað við ráðleggingar manneldisráða, ætti auðvitað að vera forgangsmál og fyrsta skrefið hjá okkur öllum. Ekki síst hjá börnum og miklu frekar en gróf skerðing á góðum kolvetnum sem á að vera þeirra aðal orkugjafi. Umræðan í dag er því sérstaklega hættuleg unga fólkinu.

Offeitir ættu að leita eftir hjálp og stuðningi heilbrigðisstarfsfólks í byrjun til að léttast, því enginn er eins, og samverkandi sálrænir erfiðleikar oft miklir. Nú er boðið upp á hreyfiseðilinn í heilsugæslunni fyrir þá sem eru verst settir. Eins þarf oft að bæta líkamlega líðan og einkenni fylgisjúkdómanna í byrjun. Verkefnið er síðan langtímaverkefni eins og með alla króníska sjúkdóma. En um leið og farið er að ganga aðeins betur og hugarfarið skýrara, verður framhaldið auðveldara. Lífsstílinn okkar og stuttu skrefnin sem virkar best fyrir heilann og sálina.

(Stutt útgáfa af greininni var birt í helgarblaði DV, 1.11. sl, Lífsstílinn okkar, ekki kúrinn)

http://www.ruv.is/frett/hreyfa-sig-jafn-mikid-og-folk-um-attraett

http://www.medscape.com/viewarticle/814202

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn