Laugardagur 28.12.2013 - 16:26 - FB ummæli ()

Ertu eins og epli eða pera?

epliEplin geta verið skemmd. Þau geta líka verið forboðin og villt á jólunum. Þeir sem þeim líkjast verða umfram aðra að hugsa sinn gang til að geta dregið úr alvarlegum afleiðingum efnaskiptavillu og áhættum á lífsstílssjúkdómum. Umfram allt að hætta að reykja, hreyfa sig meira, forðast hvíta sykurinn og dýratólgina. Allt til að fá að dveljast lengur í draumnum um aldingarðinn Eden.

Ertu eins og epli eða pera? Svarið getur sagt mikið til um þína áhættu gagnvart hjarta- og æðasjúkdómum í framtíðinni, heilkennum sem tengt er umræðunni um “metabolic syndrome„ (efnaskipta-villu) og sem einnig hefur verið kallað „syndrome X“. Líkur á að hafa þetta slæma heilkenni eru meiri ef útlitið einkennist af mestri fitusöfnun ofan mittis, en síður ef fitudreifingin er neðar, peruútlitsins svokallaðs. Óhollustan er nefnilega ekki bara spurningin um offitu, heldur hvernig hún dreifist og heildarþyngdina, þar sem Íslendingar nálgast að vera Evrópumeistarar.

Þótt þú sért með eplaútlit og aukið ummál kviðar (karlar 102 cm, konur 88 cm) þurfa fleiri villur að vera til staðar til að þú uppfyllir  skilgreininguna á að hafa efnaskiptavilluna margfrægu. Til þess þarf hækkun að vera á a.m.k. tveimur öðrum neðantöldum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma, og sem tengjast reyndar lika umræðunni um lílífstílssjúkdómana almennt og þegar við höfum í öðrum skilningi villst af leið:

Hækkaður blóðþrýstingur (>140/>85), hækkuð þríglýceríð blóðfita (>1.7 mmol/L), lækkað HDL (góða kólesterólið) karlar (<1.03 mmol/L), konur (<1.29 mmol/L) og hækkaður fastandi blóðsykur (>6.1 mmol/L). Og þó að þú sért villtur í efnaskiptunum ertu sannarlega ekki einn á báti, því samkvæmt tölfræðinni er allt að fjórðungur fullorðinna í hinum vestræna heimi villtur. Því stærra sem eplið er og eldra, því hættulegri er hins vegar villan.

Stór safnrannsókn (metaanalysa) var gerð fyrir 2 árum til að meta áhættu á alvarlegum sjúkdómum tengt efnaskiptavillunni og sem náði til 87 fyrri rannsókna um efnaskiptavillu víðsvegar í heiminum, alls til um 1 milljón karla og kvenna. Niðurstöðurnar voru birtar í  Journal of the American College of Cardiology (JACC). Þær sýndu svo ekki var „um að villast“, að áhættan á að fá hjarta- og æðsjúkdóm rúmlega tvöfaldaðist miðað við þá sem ekki hafa a.m.k. þrjá af ofangreindu áhættuþáttunum til staðar, burt séð frá öllum öðrum alvarlegum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma eins og t.d. reykingum og háu slæmu kólesteróli (LDL).

Þannig jókst áhættan á að fá einhvern hjarta- og æðasjúkdóm 2.35 fallt ef þú ert með efnaskiptavilluna svokölluðu, bara að fá kransæðastíflu um 1.99, að deyja úr hjarta- og æðasjúkdómum um 2.40, og að fá heilablóðfall um 2.27, allt óháð öðrum slæmum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Tölur sem skipta okkur miklu máli í umræðunni í dag um offitu og sykursýki. Heilbrigðisgrýlur 21 aldarinnar, sem breyttur lífstíll, meiri hreyfing og gott mataræði eitt getur lagað.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn