Fimmtudagur 09.01.2014 - 09:24 - FB ummæli ()

Klukkan góða í Prag

Auðvitað ætti að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund til leiðréttingar við sólstöðuna eins og nú er rætt um á Alþingi og til að dagsbirtan haldist í takt við svefn- og lífsklukkuna okkar. Jafnvel þótt við náum ekki að nýta síðdegissólina eins vel og við gjarna viljum á góðum sólardegi, eftir vinnu á hinu stutta sumri á Íslandi. Við gætum að vísu þá byrjað vinnudaginn fyrr og sem væri miklu eðlilegri ráðstöfun. Það kann að minnsta kosti ekki góðri lukku að stýra að plata móður náttúru og stela af sólinn tæpum tveimur klukkustundum á dag. Ekki síst á veturna þegar ekki veitir af smá birtu sem fyrst á morgnana.

Bent hefur verið á að svefnklukka unglinga sé þegar 2 klukkustundum of fljót (seinkuð líffræðileg dægursveifla) miðað við svefnklukku fullorðinna. Sem kemur fram í því að unglingar vilja oft frekar vaka langt fram á kvöldin og sofa lengur fram eftir á morgnana. Þegar sú skekkja bætist við skekkju á klukkunni sjálfri í dag á Íslandi um eina og hálfa klukkustund, að þá nálgast svefnklukka unglinga hér á landi að vera nær 3-4 tímum of fljót miðað við sólarganginn. Skekkjan samsvarar að við sem erum orðin fullorðin, þyrftum að vakna alltaf upp um klukkan fjögur á nóttunni. Þetta getur auðvitað skipt börn og unglinga miklu máli, ekki síst þegar árvekni og athyglinnar er mest þörf við nám í skólanum á morgnana. Fyrir börn og unglinga væri því best að seinka klukkunni um heila tvo tíma. Og hverjir ættu að njóta meiri forgangs og hverjum þarf að tryggja besta svefninn á nýju og bjartara Íslandi. Til að viðmiðin í lífinu geti orðið réttari og að okkur takist betur að ganga í takt við sjálfan nútímann sem öllu máli skiptir. Á landi þar sem margir fara fram úr sér, enda klukkan einum og hálfum tíma of fljót!

Vitað er að  notkun svefnlyfja fullorðinna er alltof mikil í þjóðfélaginu. Notkun þeirra er nærri fjórfalt meiri hér á landi en í Danmörku samkvæmt nýlegum í fréttum og samsvarar að nærri tíundi hver Íslendingur á eldri aldursskeiðum noti svefnlyf. Auk þess sem notkunin eykst stöðugt ár frá ári, á sama tíma og hún dregst saman á hinum Norðurlöndunum. Gæti hluti af skýringunni verið að við tökum ekki nógu mikið mark á lífsklukkunni okkar varðandi svefninn. Ekkert frekar en á mörgum öðrum sviðum tengt heilsunni og endalaust er til umræðu? Sem í mörgum tilvikum við notum síðan lyf til að slá á eða gegn…og þegar við síðan göngum oft eins og undir álögum.

Í Prag er fræg klukka, Prague astronomical clock, sem smíðuð var í upphafi 15 aldar og sem gengur enn. Stórmerkilegt tækniundur á sínum tíma og er í raun enn. Auk þess að sýna sól- og tunglstöður, ár, mánuði og daga, var hún hönnuð til að minna alþýðuna á örlög sín og mismunandi lífsskeið. Lífsklukkuna í stærra samhengi. Þegar drepsóttir voru algengar og enginn vissi hver yrði næsta fórnarlambið. Kirkjan hafði vit á að minna menn reglulega á þessar staðareyndir lífsins, ekki síst yngra fólkið. Að hvenær sem er gætu menn og konur orðið að standa skil á gerðum sínum, frammi fyrir hinum æðsta dómstól. Klukkan fræga minnti á þessa staðreynd m.a. með ímynd dauðans í líkneski beinagrindar sem gekk fram á klukkustundar fresti og sem sést í á myndinni hér að ofan. Sem sló í klukkuna á heila tímanum og allir nærstaddir hugsuðu sitt. Enda klukkan alltaf rétt. Til að allir gangi meira í takt við eigin lífsklukku, allt þar til hún stoppar.

Ég hef stundum velt fyrir mér hvort svipuð klukka væri ekki hentug fyrir okkur Íslendinga. Til dæmis í stað gömlu klukkunnar á dómkirkjuturninum við Austurvöll sem greinilega hefur ekki verið nógu sýnileg hingað til. Kannski á sjálft Alþingishúsið hinum megin við götuna svo fleiri sjái vel á hana, og til að þeir sem þar vinna, taki meira mark á henni.

(Áður birt á DV blogginu 9.1.2014)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn