Mikið æði virðist hafa gripið landann sl. ár hvað varðar „hollustu“ á ofurinntöku á magnesíum og sem ítrekað kemur fram í umfjöllun samfélagsmiðlanna. Í fyrra mætti ég manni á gangi inn í apótek í verslunarmiðstöð hér í bæ sem var með fullt fangið af stórum brúsum. Mér lék forvitni á að vita hvað væri svona vinsælt í apótekunum í svona stórum umbúðum og var tjáð að það væri snefilefnið magnesíum. Hann hefði ekki við að keyra birgðirnar á milli staða, slík væri salan á duftinu.
Magnesíum er vissulega mikilvægt steinefni fyrir margra hluta sakir í hóflegum skömmtum og sem gjarnan finnst í venjulegu fæði. Steinefni að sumu leyti ræðst af jafnvægi við fjörtíufallt magn af kalsíum og sem stjórnast þannig af vissu leiti líka af D vítamíninu okkar. En eins og allt annað þarf allt að vera í jafnvægi og ofurinntaka af magnesíum getur verið stórhættulegur leikur. Normalgildi í blóði er um 1.7-2.2 mg/100 ml. en alls inniheldur líkaminn undir venjulegum kringumstæðum aðeins um 25 grömm, en þar af rúmlega helmingur bundið í beinum. Hinsvegar og til samanburðar inniheldur líkaminn uþb 1 kg. af kalki.
Ekki er vitað um eitrunartilfelli af völdum magnesíum sem eingöngu er fengið úr venjulegu fæði og venjulega uppfyllir vel daglega þörf okkar sem er að meðaltali um 300 mg á dag (RDS) ( sjá meðfylgjandi töflu bandarísku manneldisstofnunarinnar hér fyri neðan). Hundrað grömm af brauði inniheldur t.d. um 65 mg af magnesíum og 250 ml. af mjólk um 30mg. Skortur á magnesíum er því afskaplega sjaldgæfur og tengist helst vannæringu einhverja hluta vegna, til lengri tíma. Helst er um að ræða vegna alkóhólisma og afleiðinga skurðaðgerða á meltingarvegi.
Heilbrigður líkami losar sig nokkuð auðveldlega við smá umframmagn af magnesíum með þvaginu gegnum nýrun. Hins vegar er hægt að fá svæsinn niðurgang samfara neyslu magnesíum sem fæðubótarefnis eða í formi hægðalosandi lyfja, með þá miklu vökvatapi og um leið tapi á öðrum nauðsynlegum steinefnum og söltum. Fólki með skerta nýrnastarfsemi er sérstaklega ráðlagt að taka ekki inn umframmagn af magnesíum í formi fæðubótarefnis, með innhellingum eða sem hægðarlosandi lyf, þar sem magnesíum getur þá hlaðist upp í blóði og valdið öðrum alvarlegum eituráhrifum. Til að byrja með magnleysi, seinkunn taugaviðbragða og sljóleika, en síðar blóðþrýstingsfalli, öndunarerfiðleikum og lífshættulegum hjartsláttartruflunum.
Enn einu sinni hefur landinn farið á flug í vitleysunni og sem stundum mætti halda að runnið hafi á hálfgert gullæði, en þar sem ekkert gull finnst. Hann virðist sérstaklega ginkeyptur fyrir allskonar kúrum sem oftar en ekki eru ekki aðeins hálfgert kukl og vitleysa, heldur oft líka hættulegir og sem stríða gegn almennri skynsemi.
Age | Male | Female | Pregnancy | Lactation |
---|---|---|---|---|
Birth to 6 months | 30 mg* | 30 mg* | ||
7–12 months | 75 mg* | 75 mg* | ||
1–3 years | 80 mg | 80 mg | ||
4–8 years | 130 mg | 130 mg | ||
9–13 years | 240 mg | 240 mg | ||
14–18 years | 410 mg | 360 mg | 400 mg | 360 mg |
19–30 years | 400 mg | 310 mg | 350 mg | 310 mg |
31–50 years | 420 mg | 320 mg | 360 mg | 320 mg |
51+ years | 420 mg | 320 mg |
*Adequate Intake (AI)
http://www.med-health.net/Magnesium-Overdose.html
http://ods.od.nih.gov/factsheets/Magnesium-HealthProfessional/
http://www.uptodate.com/contents/causes-and-treatment-of-hypermagnesemia?source=see_link
(Áður birt á DV blogginu 14.1.2014)