Mikið hefur verið rætt um offitu í vetur og allskonar kúra og föstur. Sitt sýnist hverjum og kúrarnir í besta falli sniðir að þörfum þeirra verst settu eins og kolvetnaskerti kúrinn fyrir þá sem eru með einkenni, efnaskiptavillu. Nýjar ráðleggingar norræna manneldisráða hafa verið birtar og ljóst að algjöra hugafarsbreytingu þarf nú hjá þjóðinni til að sporna geng því sem ég vil kalla hvíta dauðann í dag, faraldri og heilbrigðismartröð 21. aldarinnar í hinum vestræna heimi, tengt ofneyslu sykurs. Ekki berklum og vosbúð eins og átt var við með hvíta dauðanum snemma á síðustu öld.
Í dag eru því áherslur á skynsamlegra fæði og meiri hreyfingu, en ekki gegn köldum híbýlum og hörgulsjúkdómunum. Svo einfalt er það nú og sem mikið var rætt á nýyfirstöðnum Læknadögum, m.a. með mjög vel sóttu málþingi fyrir almenning. Á sama tíma og fagna ber því sem áunnist hefur í lýðheilsu sl. áratugi með lækkuðum kransæðadauða um 80% á 30 árum. Þakkað er lækkuðu kólesteróli hjá þjóðinni, minni neyslu á harðri fitu sérstaklega transmettaðri fitu og minni reykingum. Reyndar eru nú aftur blikur á lofti hvað varðar fituneyslu landans sem hefur snaraukist sl. eitt ár (m.a. smjör og rjómi). Og betur má ef duga skal, gegn offitufaraldrinum nú og þeirri miklu aukningu sem verið hefur í sykurneyslunni og efnaskiptavillunum.
Stórauka þarf neyslu á grófum kolvetnum og trefjum í almennu mataræði og þar sem kolvetnin eiga að vera 45-60% af fæðusamsetnunginni á móti próteinum og fitu. Þar sem gæði kolvetna og fitu skiptir mestu máli. Gróft korn, baunir, hnetur og fræ hverskonar. Sumpart til að hægja á losun ávaxtasykurs, frúktósunnar beint út í blóðið. Það gerum við best með því að borða ávextina og grænmetið eða mixa, í stað þess að pressa safann úr og fleyja trefjunum. Trefjar sem auk þess gefa okkur betri magafyllingu og veita okkur vernd við ýmsum sjúkdómum eins og krabbameini í ristli. Þó er enn mikilvægara að losna sem mest við tilbúnu sykurdrykkina af markaðinum, sérstaklega gos- og orkudrykkina.
Miklar áhyggjur ber að hafa af ofþyngd barna og unglinga, sem að mestu leiti tengist aukinni neyslu sykraðra drykkja í dag, auk þess sem drykkjan leiðir til meiri neyslu sælgætis og aukabita með, yfir daginn og langt fram á kvöld. „Næringarefni“ sem var sjaldséð hér áður fyrr eitt og sér og gegnir engu mikilvægu hlutverki í fæðu mannsins ef það fer beint út í blóðið. Ólíkt því sem annars góður grófur kolvetnarikur matur gerir og sem er mikilvægur í fæðusamsetningunni og sem orkugjafi.
Alls drekka samt Íslendingar um 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á ári hverju og innbyrða að meðaltali sem samsvar allt að 1 kílói af hreinum sykri á viku, töluvert meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Sumir minna magns, en aðrir miklu meira. Fjórðungur allrar sykurneyslu landans er reyndar í formi gosdrykkja hverskonar. Neyslan jafngildir þannig um 27% af allri sykurneyslu landans. Fimmföld ofneysla á sykri á Íslandi, þar af rúmlega fjórðungur í formi sykraðra drykkja er auðvitað svakaleg ofneysla. Það hlýtur að vera á ábyrgð foreldra og forráðamanna að takmarka neyslu hreins sykurs meðal barna, og sem getur leitt til sykurs- og matarfíknar síðar ásamt öðrum afleiddum alvarlegum sjúkdómum. Þegar ungt fólk fær sjúkdóma gamla fólksins.
Í hverjum 500 ml. Coca Cola gosdrykk er sykurmagn sem samsvarar 27 sykurmolum eða 54 grömmum af hreinum sykri. Ekki er óalgengt að sumir unglingar drekki allt að 2 lítra á dag, sem samsvarar neyslu á 216 grömmum af hreinum sykri. Burt séð frá öðrum óhollum og örvandi efnum eins og coffein, sem gos- og orkudrykkir kunna að innihalda og mikið hefur verið til umræðu að undanförnu. Sem er mikið meira magn en ráðlagt er að hámarki, dreift jafnt yfir allan sólarhringinn (36 grömm fyrir karla, 20 gr. fyrir konur og 12 gr. fyrir börn) samkvæmt ráðleggingum manneldisráða.
Í Bandaríkjunum stefnir helmingur þjóðarinnar í að verða of þungur og fjórðungur allt of feitur (Þyngdarstuðull > 30) á næstu árum. Tuttugu og fimm prósent 65 ára og eldri eru þegar komnir með annars konar sykursýki, sem er hár blóðsykur (diabetes mellitus) alla daga og þegar frumur líkamans eru orðnar ónæmari fyrir áhrifum insúlíns, til að taka upp sykurinn og brenna hann eða umbreyta í fitu. Að lokum gefur brisið sig líka og vöntun verður á magni insúlíni til að grípa inn í og minnka magn blóðsykurs hverju sinni (sykursýki typa 2). Og Bandaríkjamenn eru aðeins nokkrum fetum á undan okkur hvað þessa ómenningu snertir. Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru um 60% fullorðinna þegar of þungir og um þriðjungur barna. Við sjáum auk þess aðeins í toppinn á ísjakanum í dag, enda tífalt fleiri taldir vera með byrjunarstig sykursýki en sem þegar eru greindir. Áunnin sykursýki sem áður var kölluð fullorðinssykursýki gamla fólksins, en sem er farin að herja á börnin okkar í dag
Sjúkdómar sem tengjast mest sykursýki og offitu teljast þegar í dag til alvarlegustu sjúkdóma samtímans. Má þar nefna flesta hjarta- og æðasjúkdómana, nýrnabilun, heilablóðföll, blindu og lífshættulegar sýkingar. Einn sykraður gosdrykkur á dag eykur hættu á að fá hjartaáfall um 20% samkvæmt rannsókn sem birtist Circulation, tímariti bandarísku hjartasamtakanna, AHA fyrir rúmlega ári síðan og náði til yfir 40.000 karla sem fylgt var eftir í yfir 20 ár. Áhættan mælist eftir að tekið hafði verið tillit til annarra þekktra áhættuþátta svo sem þyngdar, kólesteróls, reykinga og greindrar sykursýki. Ein lítil dós af sykruðum gosdrykk (36 gr.) er þannig talin getað hækkað blóðsykur það snögglega að það hafi áhrif á meingerð kransæðasjúkdómsins sérstaklega og sem annars myndi þróast hægar. Algengustu hjartaáföllin eru bráð kransæðastífla, hjartadrep og hjartabilun.
Ungur nemur, gamall temur og það gera börnin sem fyrir þeim er haft, segir í gömlum málsháttum. Hvernig við veljum hráefni til matargerðar og að við nennum að elda matinn skiptir miklu máli. Og jafnvel þótt börn séu ekki of þung í dag, að þá kann mikil sykurneysla að leiða til óhóflegrar þyngdaraukningar síðar. Sykurneysla dregur auk þess úr löngun í holla fæðu en eykur matarlyst í salt fæði og skyndibita. Eins er það staðreynd, að sýrustig flestra gosdrykkja er fyrir neðan allt, allt nema helst blásýrunnar og étur glerung tanna auðveldlega. Sykurinn fóðrar síðan tannsýklana ágætlega og er ein skýring á miklum tannskemmdum meðal barna í dag.
Risastórar neytendapakkningar, 2 lítra gosflöskur, jafnvel í kippum með góðum afslætti, leiða auðvitað til meiri neyslu. Ósanngjarnt er líka í þessari umræðu að sleppa alfarið að minnast á mikið sykurmagn í mörgum mjólkurafurðum okkar, sem innihalda allt að 15% sykurs. Það er annars merkilegt að markaðurinn skuli alltaf fá að ráða öllu, jafnvel þegar í óefni er komið. Nema þá ef sett eru ný lög og nýir skattar. Önnur lönd hafa reyndar þegar lagt á hærri sykurskatta og lög um hámarksstærðir á gosflöskum. Aðgerðir sem er viðleitni yfirvalda í hverju landi að mæta vandanum. Þannig hafa líka flest lönd nú sett viðvörunarmerki á tóbaksvörur og sem benda á að tóbakið getur drepið. Sama ætti að eiga við með sykurdrykki og jafnvel sælgætið, en þar sem við neytendur þurfum að vera miklu duglegri að láta í okkur heyra og hreinlega sniðganga verslanir sem vinna gegn heilsunni okkar og allt að því egna börnin að neyta sem mest af „smitefni“ hvíta dauðans.
Er ekki tími til kominn að íslensk yfirvöld bregðist almennilega við þeim alvarlega heilbrigðisvanda og sem mikil ofneysla sykurs er þegar orðin í þjóðfélaginu og að öllu óbreyttu á mikið eftir að versna? Almenningur á Íslandi í dag ræður ekki einn við þennan vanda. Almenn matarfíkn, sem er annað vandamál og nátengt, verður auk þess miklu viðráðanlegra ef sykurinn fær ekki stöðugt að kynda undir. Það er ekki nóg að fara í ræktina og hamast í einn til tvo tíma á dag og láta síðan sem ekkert sé. Leysa þarf vandann þar sem hann á rætur, í neysluvenjum okkar og barnanna.
( Áður birt a DV blogginu 28.1.2014)