Nú í tilefni sumardagsins fyrsta á morgun, birti ég hér kafla úr Eir frá árinu 1900 eftir Dr. J Jónassen, lækni um tíðateppu; Stúkurnar mega ekki standa á votengi skinnsokkalausar.
Kvilli sá, sem nefndur er „tíðateppa“, er hér á landi mjög svo algengur og leiðir margt ilt af sér. Ég þori óhætt að fullyrða, að mjög oft er því um að kenna, að stúlkurnar standa í votu á sumrin við heyvinnu. Ef læknirinn, sem stúlkan leitar ráða til, spyr hana um, hvort hún viti nokkra orsök til tíðateppunnar, er svarið lang-oftast: “ nei, ekki nema það skyldi vera því um að kenna, að ég stóð í sumar á votengi; þá tók fyrir alt blóð og hef síðan ekki orðið vör við það.“
Það er mjög þýðingamikið fyrir kvennmanninn, að þessi eðlilegi blóðmissir á reglubundnum tímum komist ekki í óreglu; reynslan sýnir, að með óreglunni fylgir sjúkleiki, sem smáýfist með köflum og stundum svo, að sjúklingurinn tekur aldrei á heilum sér. Af hverju skyldi nú þetta koma? Því verður ekki svarað sem nægir, sökum þess, að vér vitum harla lítið hvernig á því stendur, að kvennmaðurinn missir þetta blóð á reglubundnum tímum. Sumir eru nú farnir að hallast að þeirri skoðun, að eitthvert skaðlegt efni, jafnvel eiturefni, væri í tíðablóðinu og að þessu efni væri þá um að kenna lasleikinn, sem fylgdi tíðateppunni; hver skal segja, nema þessi skoðun hafi við góð rök að styðjast, og að mönnum takist að komast að sannleikanum.
Hér skal ekki farið út í að telja alt það upp, sm álitið er að geti orsakað þennan kvilla, heldur að eins enn þá einu sinni hvetja kvannfólkið til að bera miklu meiri umhyggju fyrir því, að forðast alt það, sem komið getur óreglu á þessa rás blóðsins og sérstaklega að standa ekki í votu á sumrin við heyvinnu, og umfram allt fara varlega um það leyti, sem þær eiga að hafa á klæðum. Ég býst við því, að mér verði svarað þessu: „hvernig getur stúlkan komist hjá því að standa í votu við heyskap?“ Svarið er, hún á að vera í tvennum sokkum og góðum skinnsokkum, sem ná upp undir hné og þar eð margar eru fátækar og hafa ekki ráð á að eignast skinnsokka, ætti húsbóndinn að leggja stúlkunni þá til, skoða það skyldu sína, ef hann lætur stúlkuna vinna verk fyrir sig á votengi; að öðrum kosti hefir hann það á samvizku, að hún fái aldrei fulla heilsu síðar meir.
Ég hefi stökum sinnum orðið þess var, að stúlkunum finst það einhver vanvirða að vera í skinnsokkum, en þetta er herfilegur misskilningur. Er ekki heilsan dýrmætust af öllu? Mikil heilsubót hlyti það að vera fyrir íslenzku kvennþjóðina, ef bændur létu aldrei kvennmenn fara á votengi nema í skinnsokkum og teldu það skyldu sína, að hlífa þeim við verkum, þegar illa stendur á fyrir þeim. Ég þykist reyndar sannfærður um, að allir góðir húsbændur mundu orðlaust gera þetta fyrir kvennfólkið, ef þær hefðu uppburði í sér að segja þeim eins og væri, en því er ver og miður, að fæstar gera það, og af hverju? Líklega af óskiljanlegri blyggðunartilfinningu; af þessu súpa þær svo kálið – vanheilsu.
(Áður birt á DV blogginu 23.4.2014)