Fimmtudagur 21.08.2014 - 17:49 - FB ummæli ()

Hættusvæðið nú, Öskjuvegurinn og blómið einstaka

Fyrir rúmlega áratug gekk ég ásamt konu minni, dóttur, vinum og nokkrum útlendingum svokallaðan Öskjuveg með Ferðafélagi Akureyrar, undir farastjórn Ingvars Teitssonar, læknis. Rúmlega vikuferð frá Herðubreiðarlindum, suðvestur í Bræðrafell, upp í Öskju og um árfarvegi Jökulsár á Fjöllum austan við og að lokum norður og niður í Svartárkot, innsta bæ Bárðardals. Gist var í Þorsteinsskála, Bræðrafelli, Dreka, Dyngjufelli og Botnum. Ein af mörgum gönguferðum um ævina og sem allar hafa verið svo gefandi, þótt ólíkar séu. Oft andlegur efniviður í málverk hugans og sem breytt getur nútíð og þátíð í nýja vídd. Skynjun sem er oft er erfitt að túlka vegna fátæktar í orðræðunni, en sem nú er tilefni til upprifjunar vegna yfirvofandi ógnar í Bárðarbungu og svæðinu öllu norðan við. Við hamfaraflóð sem breitt getur ásjónu svæðisins komandi ár eða varanlega við hraunflóð. Dæmigert fyrir land sem enn er í mótun og viðkvæmt á flestan hátt og ekkert er gefið eftir, nema ef væri möguleiki á ljúfum endurminningum. Ferðasaga sem áður var skrifuð í tilefni af forsetaframboði Ara Trausta fyrir tveimur árum, um mikilvægi góðrar leiðsagnar fyrir land og þjóð.

Líkt og í lífinu, getur augnablik á göngu í hrjóstugu íslensku landslagi verið óútreiknanlegt, ekki síst norðan jökla. Öll víðáttan kallar á sterkar tilfinningar. Fjöllin og jökultindarnir í fjaska og sjóðheitur sumarvindinn sem þú finnur reyndar best inni á beru hálendinu, sem og eins ísköldu rigningunni sem þvær þér um vangann.  Jökulár, svartir sandar og illvígt apalhraun yfir að fara. Bak við svarta gljáandi klöpp eða litskrúðugt bergið er alltaf eitthvað nýtt að sjá, framandi, en samt svo kunnuglegt sem þekkir aðeins landið. Í ferðahópi með útlendingum sem við viljum getað deilt landinu okkar með, því eingin þjóð er eyland.

Á tveimur fyrstu dagleiðunum var gengið í þetta sinn frá Herðubreiðarlindum og yfir í hina öskugráu Öskju. Þar sem síðan var hægt að baða sig í heitu og djúpbláu gígvatninu í Víti. Degi síðar var gengið eftir kolsvörtum líflausum jökulsandi austan Öskju, eins og hann hefur alltfaf verið og áður en nokkurt líf varð til. Allt þar til komið er að hundruðára gömlum jökuluppsprettum frá m.a. Bárabungu, 50 kílómetrum sunnar, sem nú er lindarvatn og ölkeldur og vatnið tærara en nokkuð annað. Í Hvannalindum þar sem fagurgrænar hvannir ná að vaxa eins og lítil pálmatré í íslenskri eyðimörk, en þar sem sumarið varir aðeins í nokkrar vikur. Og rétt áður en vatnið seytlar upp úr svörtum sandinum, má sjá stakt blóm. Hvaðan það í ósköpunum kemur, eitt lítið hvítt blóm með græna vanga, er hulin ráðgáta nema þú þekkir landið þitt og lífsviljann sem að baki býr. Uppsprettur síðan allt niður í þingeysku dalina sem smá saman verða grænni og grösugri eftir sem neðar dregur og líf í öllum myndum verður augljósara.

Lömb og hross í haga og birkigrænir lundir. Ganga sem endar í stígum og þar sem að lokum má sjá sveitabæi. Gangan okkar er á enda eftir sjö frábæra sumardaga. Ganga sem gaf okkur sýnishorn á því hvernig jörð og líf verður til, og allt þar á milli. Nákvæmlega þetta sérstaka samband sem er svo dæmigert fyrir íslenska nátttúru. Vegna þess hvað við Íslendingar eru heppnir þrátt fyrir allt. En um leið áminning um viðkvæmt samband, ekki síst á tímum náttúruhamfara, og lífsneista lítillar þjóðar sem aldrei má fórna fyrir skammtímagróða.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn