Mánudagur 27.10.2014 - 19:26 - FB ummæli ()

Beyglan á bílnum mínum og 2000 slasaðir

prius-veturÍ tilefni af árangurlausum samningaviðræðum við ríkið um kjör lækna sem komnir eru í verkfall, svo og þeirrar staðreyndar að ég verð að standa vaktina mína á Slysadeildinni í kvöld, endurbirti ég hér rúmlega 3 ára gamla bloggfærslu um stöðuna sem ríkt hefur lengi í launamálum lækna. Beinharður samanburður hvað hlutirnir kosta í dag, eftir því hvers eðlis þeir eru.

Ég er heimilislæknir og starfa líka sem sérfræðingur á Slysa- og bráðamóttöku LSH, 4-5 vaktir í mánuði á kvöldin og um helgar. Ég er með 16 ára sérnám í læknisfræði að baki og tæplega 30 ára starfsreynslu á Slysa- og bráðamóttökunni. Laun mín fyrir 8 tíma helgar- og kvöldvakt með orlofi fyrir skatta eru rúmlega 50.000 kr. Á 8 tíma vakt ber ég ábyrgð á deildinni og þarf að sjá um 40 sjúklinga sjálfur og bera ábyrgð á öðrum eins fjölda sem aðrir yngri læknar sjá. Beinbrotið fólk, skorið og lemstrað. Stundum stórslasað eða alvarlega veikt. Unga sem aldna úr þjóðfélaginu öllu. Sumir fara aldrei heim aftur. Erfiðar vaktir og ég gæti í raun ómögulega bætt á mig fleirum. Á veturna, sérstaklega þegar hálkan er mikil eins og fyrir 4 vikum þegar gerði mikla ísrigningu í höfuðborginni, var mikið að gera og margir duttu og brotnuðu eða lentu í árekstri, m.a. klaufinn ég.

Ég er líka stoltur Príuseigandi og hef átt bílinn minn í 6 ár. Afskaplega góður bíll sem er eins og hugur manns og sem hefur fengið topp viðhaldsþjónustu og eftirlit alla tíð hjá umboðinu. Sinni heilsugæslu ef svo má að ori komast. En svo lenti ég í þessu óhappi, rann í smá brekku á kantstein á rúmlega gönguhraða og fékk þungt högg á og undir framstuðarann. Það kom gat á stuðarann og bitinn undir skekktist þannig að vélarlokið skekktist lítillega og það kom sprunga í annað framljósið. Ég gat samt vel keyrt bílinn og varð ekki var við neitt óeðlilegt í akstri, en auðvitað þurfti að laga skemmdirnar við fyrsta tækifæri. Ekkert akútmál og pantaði tíma í dagþjónustu umboðsins. Hálfum mánuði síðar fékk ég tíma á verkstæðinu og þar var hann lagður inn til meðferðar í rúma viku. Eftir viðgerðina var bíllinn eins og áður, eins og nýr, en viðgerðin hljóðaði upp á rúmlega 800.000 kr.

Ég fór í gamni að reikna hvað ég þyrfti að sjá marga slasaða, brotna og fárveika til að getað borgað kostnaðinn. Þrjátíu og tvær vaktir eða vinnu í 8 mánuði. Erfiðar vaktir og sjá 1300 sjúklinga og bera ábyrgð á öðrum 1300. Fyrir hálkuskemmdina á bílnum mínum þarf ég þannig að bera ábyrgð á yfir 2000 slösuðum og bráðveikum. Þar á meðal að rétta allskonar mannabrot, að vísu með aðstoð hjúkrunarfræðinganna góðu. Ég þarf auðvitað að vinna tvöfalt upp í heildarupphæðina þar sem sem helmingur af laununum mínum fer í skatta og opinber gjöld.

Sem betur fer var bílinn minn samt í kaskó og því þurfti ég aðeins að borga sjálfsábyrgðina, 80.000 kr. Það er gott að vera fyrirhyggjusamur, jafnvel þótt bíllinn minn sé að verða 7 ára. Um daginn braut ég hins vegar klósettsetuna mína heima og hún var ekki í kaskó. Ný seta kostaði 50.000 í Bykó og til að hafa efni á henni þurfti ég að vinna aðra heila helgi á Slysa- og bráðamóttöku LSH.

Hvort skyldi vera verðmætara á Íslandi, efnið eða andinn, veraldlegu gæðin eða mannauðurinn? Hvert sem svarið er, er ég stoltur af læknisstarfi mínu, en skammast mín mikið fyrir beygluna forðum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn