Í fyrsta skiptið á ævinni, sit ég tæplega sextugur læknirinn heima í verkfalli og þarf þess utan að loka mig inni vegna gosmengunar og fýlu. Taldi reyndar fram undir það síðasta fulfrískann og að starfið mitt væri vel metið. Þörfin væri mikil að hjálpa öðrum. Ávalt boðið starfskrafta mína fram til opinberrar heilbrigðisþjónustu, enda menntaðut til þess og kann lítið annað. En hvað kostar þjónustan mín við þjóðfélagið og er hún kannski of dýru verði keypt?
Eftir 25 ára sérfræðingsstarf í heilsugæslu og nú yfir 30 ára starf jafnhliða á Bráðamóttöku Landspítalans, ásamt kennslu og vísindastörfum eftir doktorspróf, er ég með um 700 þúsund krónur í föst mánaðarlaun hjá ríkinu. Sem ábyrgur stjórnandi deildar minnar í vaktavinnu, á öllum tímum sólarhringsins. Þarf samt sennilega ekki að kvarta yfir laununum mínum miðað við marga aðra, auk þess sem ég hef alltaf haft tækifæri til að vinna meira og taka aukavaktir. Ungur og þrælduglegur kollegi minn sem vinnur mér stundum við hlið þessa daganna á Bráðamóttökunni, nær hins vegar ekki upp í helminginn af mínum föstu launum og sem birti nýlega launaseðil sinn opinberlega á samfélagsmiðlum því til staðfestingar svo allir sæu.
Um það snýst málið öðru framar í kjarabaráttu lækna í dag. Óboðlegum launum miðað við menntun og ábyrgð í starfi. Launamöguleikum allra lækna í dag og sem bætist við hörmungarástand sem þegar ríkir í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Í mönnun sérfræðinga á öllum sviðum læknisfræðinnar, skertum kennslumöguleikum heilbrigðisstétta, skorti á tækjabúnaði til rannsókna og aðgerða og lélegu húsnæði Landspítala. Í stuttu máli sagt, skerts aðgengis að lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem við töldum fyrir ekki svo löngu síðan vera sjálfsagða í vestrænu velferðarþjóðfélagi og þar sem er bullandi hagvöxtur eins og forsætis- og fjármálaráðherra gjarnan nefna sér til hóls.
Fleiri hundruð læknar hafa yfirgefið landið vegna þess að launin duga einfaldlega ekki til að brauðfæða fjölskylduna og borga af húsnæðis- og námslánum, jafnvel þótt makinn vinni einnig fulla vinnu. Meirihluti lækna sem enn eru starfandi heima á landinu góða, íhuga nú að ráða sig erlendis og ef ekki semst um viðeigandi laun fljótlega. Læknakandídatar sem útskrifast í vor ætla heldur ekki að ráða sig i vinnu að vori eins og venjan er. Hvað sem allri ættjarðaást líður og sem einfaldlega er ekki lengur í boði.
Íslenskt heilbrigðiskerfi er komið á hliðina. Einkavæðing þess sem stjórnvöld vinna nú hörðum höndum að, bak við tjöldin, leysir ekki vandann og allra síst fyrir þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Ef við getum ekki rekið opinbera heilbrigðisþjónustu fyrir alla, að þá erum við einfaldlega ekki þjóð sem verðskuldum að halda sjálfstæði okkar, þegnanna vegna. Góð ástæða til að væla yfir í dag, a.m.k. á verkfallsdegi Bráðamóttöku allra landsmanna og þegar (ekki) aðeins Bárðarbunga sendir okkur opinber samúðarskilaboð með Holufnyk.