Þriðjudagur 11.11.2014 - 14:49 - FB ummæli ()

Forsendubrestur og meinloka 21. aldarinnar- nýr Landspítali í gamla miðbænum.

image

Herlev-hospital þar sem ég var í heimsókn um helgina, margverðlaunaður 30 ára gamall spítali í norðurhluta Kaupmannahafnar og áformuð viðbygging bráðamóttöku og rannsókna sem á að vera tilbúin 2018.

Mikið er rætt um skuldaleiðréttingu vegna íbúðalána heimilanna í dag og sem var vegna forsendubrests. Leiðrétting að hluta sem er að koma til framkvæmda með miklum fjárútgjöldum ríkissjóðs og skattaálagningum í framtíðinni. Minna er rætt um forsendubrestinn nú hjá sjálfri ríkisstjórninni vegna kolvitlausra byggingaáforma á mikilvægasta húsi allra landsmanna og sem vel má nú fyrirbyggja í tíma. Á tímum þegar ekki einu sinni eru til peningar til að viðhalda og reka opinbera heilbrigðiskerfið sómasamlega og sem þegar er farið að halla ískyggilega á hliðina.

Bygging nýs Landspítala á Landspítalalóðinni er í burðaliðnum. Aðdragandann þekkja reyndar flestir. Meiri umræða hefur reyndar verið sl. ár um nauðsyn endurbóta á gömlu byggingunum sem þar standa og sem eru fyrir löngu farnar að leka og mygla innan við múrklæðningarnar. Síðustu daga reyndar einnig um innrás faraómaura, óvelkomins landnema í píramída sjúkrahúsmenningarinnar sem ásamt betur þekktum samfélagsmósum og öðrum sýklalyfjaónæmum óværum, eru afleiðingar þess að við höfum sofið lengi á verðinum. Látið endurbætur og þjónustu hraka, í stað þess að bæta og byggja upp og alltaf var unnið samviskusamlega að, eins og efnin leyfðu, fram til síðustu aldarmóta. Einnig horft fram hjá vaxandi þrengslum á spítalagöngunum og hraðaútskriftum á sjúkradeildum, ásamt óhóflegum skyndilausnum og lyfjaaustri á bráðamóttökum hverskonar til að fleyta málum eitthvað áfram. Aðgerðir sem oft hafa bara aukið á annan heilbrigðisvanda þjóðfélagsins síðar, eins og t.d. mikið sýklalyfjaónæmi hjá algengasta sýkingarvaldi barna, lungna- og eyrnabólgubakteríunni, pneumókokkum.

Í nýjasta hefti Læknablaðsins er  hins vegar rakin saga eins af hápunktum heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi með byggingu Sjúkrahús Reykjavíkur (Borgarspítalans), 1968. Enn í dag má sjá og skynja andann sem ríkti á fyrstu árum spítalans í gamla anddyrinu. Marmarastyttur sem minna á sögu læknisfræðinnar til áminningar fyrir gesti og gangandi. Meðal annars af sjálfum Hippókrates og grískum goðum lækninga og heilbrigðis. Bygging sem var tákn framsýnarinnar og sem var miklu nýtískulegri og rýmri en gamli góði Landspítalinn. Stærsta átak sem gert gert hafði verið í heilbrigðisþjónustunni í tæplega hálfa öld. Borgarspítalinn eins og hann var lengst af nefndur, enda rekinn af borginni, bætti mikið aðgengið fyrir sjúka og slasaða og sem er gert vel skil í stuttu máli í greininni. Áður en hagræðingaróvætturinn sem stundum hefur verið kallaður, hélt innreið sína.

Sameining sjúkrahúsanna i Reykjavík, var þannig krafa heilbrigðisyfirvalda í lok síðustu aldar og þar sem draumurinn um gamla stóra Landspítalann var síðan uppvakinn. Með enduruppbyggingu og þéttingu svæðisins, lágreistum byggingum og löngum göngum um Þingholtin og Vatnsmýrina. Og þar sem stefnt verður síðan að, að láta Borgarspítalann besta sem mest hverfa af borgaryfirborðinu sem sjúkrastofnun. Að minnsta kosti var slíkur atgangurinn í að eyðileggja St. Jósefsspítala að innan fyrir nokkrum árum af sama tilefni og þannig að ekki yrði aftur snúið, Hafnfirðingum til sárra vonbrigða í dag.

Sannarlega má segja að um mikið afturhvarf til fortíðar sé að ræða með áformunum nú um 100 milljarða króna kostnað við ný- og viðbyggingarnar á gömlu Landspítalalóðinni, í stað miklu hagkvæmara og nýtískulegra sjúkrahúsi á rúmgóðum stað, eins og Borgarspítalinn var hugsaður á sínum tíma. Litið yfir möguleikann á stækkun Borgarspítalans á meðan enn var nóg landrými í Fossvogsdalnum og þannig hálfgert skipulagsklúður. Bygginga og viðhaldkostnaður nú á Landspítalalóðinni er miklu óhagkvæmari en ný hagkvæm hábygging með nánast alla starfsemina undir sama þaki og sem flestar þjóðir kappkosta í nútímanlegum sjúkrahúsrekstri. Á tækniöld og til að geta haldið sem best utan um þá sjúkrahúsþjónustu sem krafist er í dag. Nákvæmlega eins og  nýleg skoðanakönnun meðal lækna á Íslandi sýnir svo vel, meðal þeirra sem gleggst þekkja til.

Sagan síðar, dæmir auðvitað okkar verk í dag og framtíðarsýnina í heilbrigðismálunum á hverjum tíma. Hugsanlega nú sem dæmi um eina mestu þröngsýni Íslandssögunnar og þegar dýrmætum lánspeningum komandi kynslóða, er varið illa til nýbygginga samkvæmt miðaldarhugsun um gömlu háborgina Reykjavík og sem borgaryfirvöld styðja með ráðum og dáðum. Nýr Landspítali má ekki verða enn ein skyndilausnin í þverpólitísku samsæri í dag, með gömlum loforðum fyrrum ráðherra úr flestum flokkum á bakinu. Bráðabirgðalausnirnar hafa verið allt of margar á tímaskeiði sparnaðar og niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu sl. áratugi. Löngu er kominn tími á varanlegri lausnir í því sem mestu máli skiptir og sem getur verið í raun svo miklu ódýrari kostur til lengri tíma litið en fyrirliggjandi tillögur gera ráð fyrir. Enn ein stórmistökin í byrjun 21. aldarinnar og sem við höfum alls ekki efni á.

Enn er tækifæri til að snúa óhellaþróuninni við. Að byggja nýjan framtíðarspítala sem mætir þörfum sjúklinga, starfsfólks og skipulagsmála landsmanna allra, annars staðar og betur, m.a. með tilliti til aðgengis af landi og úr lofti. Ekki afkróaðan og lágreistan í þrönga gamla miðbænum. Meinloku ef til vill aldarinnar, en þar sem lækna á alvarlegustu meinin okkar í framtíðinni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn