Með nýju stjórnarfrumvarpi sem liggur frammi um breytingar á lögum um almannavarnir, sækist forsætisráðherra nú eftir rétti til aukinna valda og íhlutana á tímum náttúruhamfara í nafni almenningsheilla. Að hann geti hlutast til um mikilvæg málefni, opnað og lokað jafnvel öllu landinu og yfirtekið einkarekstur og byggingar. Jafnvel fjölmiðlana ef því er að skipta. Einkennilegast er að þetta skuli koma upp á sama tíma og meðlimir stjórnarflokkana horfa framhjá, nánast án umræðu, á mestu manngerðu náttúruhamfarir Íslands á seinni tímum og sem er yfirstandandi aðför að heilbrigðiskerfinu. Kerfi sem okkur er sagt vera allt of dýrt í dag og sem stefnt er að einkavæða á flestum stöðum bak við tjöldin. En fyrst skal rústa opinberru þjónustunni og þar með heilbrigðiskerfinu eins og við höfum þekkt það.
Lágmarks fjárveitingar til þjóðarsjúkrahússins okkar þar sem daglegur rekstur stendur endalaust í járnum, virðist hinsvegar stundum skýrast meira af furðulegum illvilja en framtíðarsýn, hvernig sem á málin er litið, og sem hefur langt í frá fengið svigrúm til að nútímavæðast. Frekar skal bora í gegnum fjöllin og hjálpa fjármálafyrirtækjum að græða meira á amenningi. Háskólasjúkrahús allra landsmanna sem getur ekki lengur tekið á móti alvarlega veikum og sjúkum eins og með þarf og þar sem reist hafa verið einskonar bráðaskýli innanhús á sjálfri bráðamóttökunni eins og um síðustu helgi, til að sinna sjúklingum sem með réttu ættu að liggja inni á sérhæfðum spítaladeildum við mannsæmandi aðstæður og þrifnað. Allskonar aðstæður sem daglega minna á náttúruhamfarir í mínum huga og sem eru gjörsamlega forsendulausar.
Hvert sem litið er, eru brestirnir miklir í þessu mannvirki okkar og sem eitt sinni var þjóðarstolt okkar Íslendinga, ásamt almennri heilbrigðisþjónustu sem við töldum eina þá bestu í heiminum og hefði forgang fram fyrir allt annað. Allstaðar nema ef vera skyldi í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar, sem reyndar er erlend eign að mestu og sumir kalla ekki heilbrigðisstofnun þótt hún vissulega vinni að lífvísindum í góðum tengslum við Landspítalann. Verst er þó hvernig farið er með almenna mannvitið á Íslandi í dag og þekkinguna í menntakerfinu okkar. Aldargömul uppbygging nú fótum troðin enda mikill atgerfisflótti skollinn á meðal íslenskra lækna a.m.k. og sem fá ekki borguð mannsæmandi laun fyrir eðlilegt vinnuframlag og álag. Reyndar áratuga þróun sem flestir stjórnmálaflokkar hafa litið framhjá og vandinn því miklu meiri en skyndivandi. Í raun langtímavandi sem læknastúdentar og unglæknar hafa nú loks tekið ákvörðun um að þeir muni ekki láta bjóða sér í framtíðinni. Verkfallsaðgerðirnar nú með vinnustöðnun nú í nokkra daga í senn, eru aðeins smjörþefurinn af því sem koma skal og sem verður viðvarandi ástand alla daga frá og með næsta vori og ef ríkisstjórnin aulast ekki til að skilja mikilvægi málsins.
Þrjóska stjórnvalda og láta nú ekki undan þrýstingi almennings virðist hins vegar skynseminni yfirsterkari, eins og svo sem í mörgum öðrum málum sl. mánuði. Biðin eftir að geta kosið aðra flokka en Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknaflokkinn er að verða óbærileg, löngu lífhættuleg og nú reyndar þegar blóði drifin. Í dag fá sjúklingar ekki lágmarksþjónustu og þurfa jafnvel að bíða hálfu dægrin og heilu næturnar á biðstofunum, jafnvel með sundurtætta útlimi eða lífshættulega sjúkdóma. Síðan er loks oft aðeins veitt neyðarþjónusta endar vantar pláss til endanlegrar uppvinnslu og greiningar. Tækin eru jafnvel ekki til og sérhæft starfsfólk farið af landi brott sem veit getur bestu ráðgjöfina og lækninguna. Staðreyndir dagsins, en aðeins þefurinn í dag af því sem koma skal. Þetta hefur svo sem allt verið í umræðunni áður.
Gjáin milli stjórnvalda og almennings hefur bara aldrei verið jafn ógnvænleg, en sem svokölluð skuldaleiðrétting var meðal annars ætlað að hylja. Sannkallað glópagull í almannavörnum í dag og ljótur leikur. Og að ríkisstjórnin skuli nú neita að taka í framrétta hjálparhönd lækna og sem fara aðeins fram á sanngjörn laun miðað við menntun og ábyrgð, á sama tíma og þeir ræða aukinn neyðarrétt stjórnvalda með tileigandi kostnaði til að grípið til á hamfaratímum, er með öllu óskiljanleg afstaða. Á svipuðum tíma og forsætisráðherra hefur líka sett hundruð milljóna í sitt gæluverkefni undir sínu heitinu Lýðheilsunefnd forsætisráðherra, til að marka stefnuna. Allt sem ber stjórnvöldum nú vitni um ótrúlega firringu, hroka og sjálflægni. Einhver gæti jafnvel sagt einræðistilburðir í anda Pútíns.
Hugsið ykkur líka, að á sama tíma og Kári Stefánsson, læknir (sem sumir segja að sé skynsamasti maður Íslands) tjáir sig hvernig bjarga megi íslensku heilbrigðiskerfi og um möguleikum þess að það geti í framtíðinni fundið mörg meina okkar í erfðavísunum, að við fæðumst einfaldlega misjöfn með mismikla möguleika til lengra lífs, að þá skuli möguleiki þess að lifa bara af venjuleg mein, slys og sýkingar, færast aftur um aldir. Blákaldar og nöturlegar staðreyndir nútímans þar sem almenningur kaus svo hræðilega vitlaust síðast og biðin eftir að geta kosið aftur er alltof löng. Hugsið ykkur á sama tíma og forsætisráðherra hefur líka látið hafa eftir sér að hnattræn hlýnun, sem sennilega eru stærstu náttúruhamfarir samtímans og muni hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir alla jarðarbúa, sjái hann sérstakt gróðatækifæri fyrir þjóð sína. Fyrir þjóð sína sem eyðir þegar mest allra þjóða af orku og sem hann vill að aukist enn frekar. Hræðileg mismunun allt saman og forgangsröðun, meðal manna og hjá þjóð meðal þjóða.
Allar stofnanir sem nöfnum tjáir að nefna og sem láta sig mannréttindi og aðbúnað sjúklinga skipta, verða nú að leggjast á eitt að afstýra nýrri Skálmöld einkavæðingar í heilbrigðismálum og sem allt stefnir í. Heimdallur mun þar væntanlega að lokum falla í glímunni við Loka. Vinnueftirlitið, heilbrigðiseftirlitið, mannréttindadómstóllinn og jafnvel Sameinuðu þjóðirnar verða að koma vitinu í ráðmenn og afstýra hættunni. Nýr landlæknir fær svipað hlutverk og sá fyrsti fyrir tæplega þremur öldum síðan með aðstoð danska kóngsins. Að koma vitinu í íslenska ráðmenn og bæta lýðheilsuna. Nú meira þó að verja fyrir niðurrifið. Stjórnarandstæðingar á Alþingi verða að vera mikið hvassari í sinni orðræðu, en sem sennilega skýrist hingað til af samviskubiti og vitneskjunni um að hafa ekki staðið sig sjálfir betur meðan þeir gátu og höfðu einhver völd. Framtíðin ræður hins vegar nú og almenn skynsemi. Öllum má fyrirgefa og batnandi manni er best að lifa. Hættið síðan líka að tala alltaf um nýjan framtíðarspítala sem lausn allra mála, tálsýn stjórnmálamannsins og klisjan hans dag. Horfum raunhæft á málin og hvar blasir við að þurfi byrja að bæta og byggja. Nýr Landspítali, eins og hann er skipulagður í dag, er algert klúður með tilliti til staðsetningar og byggingarstíls. Þegar allt útlit er síðan að mannauðinn vanti sem skapa á honum líf.