Laugardagur 22.11.2014 - 09:46 - FB ummæli ()

Slæmir draumar á Íslandi

geðlyfin

Úr skýrslu Landlæknisembættisins, nóv. 2014

Fyrirfram hefði mátt búast við að eitthvað hefði dregið úr geð- og svefnlyfjanotkun Íslendinga síðustu ár eftir alla umræðuna sem verið hefur um lyfjamál og upplýsinga um meiri geðlyfjanotkun en á hinum Norðurlöndunum um árabil. Staðreyndin er að notkunin hefur aukist stöðugt sl. áratug um 70% eins og fram kemur í frétt frá Landlæknisembættinu. Þriðji hver Íslendingur notar geð- og taugalyf á ári hverju og sem sýnir etv. betur en nokkuð annað mikilvægi þess að geðtruflunum og geðsjúkdómum sé vel sinnt og betur en með lyfjum eingöngu. En í heilbrigðiskerfi sem er nú sjálft að niðurlotum komið.

Í lyfjaflokknum geðlyf eingöngu vega þyngst þunglyndislyf, svefnlyf og lyf við athyglisbresti. Áður hef ég nokkuð rætt  þunglyndislyfin og lyf við athyglisbrest sem sannarlega eiga oftast rétt á sér. Annað gildir hins vegar um svefnlyfin og þar sem endurnýjunin er oft orðin hálf sjálfvirk eða rafræn, án samskipta augliti til auglits við lækni eða annað heilbrigðisstarfsfólk. Skýringarinnar er að leita í ofálagi á heilsugæsluna sem reynir sitt besta að mæta kröfum skjólstæðinga sinna, m.a. með lyfjaendurnýjunum eftir símaviðtöl við hjúkrunarfræðinga og ritara. Þar sem tímaframboð er orðið takmarkað hjá læknum og ekkert hjá sálfræðingum eða félagsráðgjöfum sem veitt geta mikla hjálp án lyfja. Engu að síður hefur verið unnið að miklum endurbótum í rafrænni samskráningu lyfja sl. misseri þannig að bráðlega geta allir læknar séð að minnsta kosti hvað aðrir læknar í flóknu kerfi hafa ávísað af lyfjum í apótekin.

Danir hafa haft miklar áhyggjur af geðlyfjanotkun sinni. Tólfti hver Dani notar þunglyndislyf, en hingað til hefur verið áætlað að aðeins 10-20% einstaklinga eigi við tímabundið þunglyndi að stríða, einhvern tímann á lífsleiðinni. Tíu prósent þjóðar á hverjum tíma eins og lyfjanotkun Dana bendir til, leiðir auðvitað hugann að ofnotkun þessara lyfja og skorts á öðrum úrræðum, svo sem sálfræðihjálp og viðtölum við lækna. Eins þar sem notkun þunglyndislyfja hefur aukist um helming meðal unga fólksins og sem er enn meira áhyggjuefni. Ekki bætir það ástandið hér á landi að klukkan okkar er næstum tveimur tímum of fljót miðað við sólargang og sem bætist þá við seinkaða lífeðlisfræðilega dægurvillu unglinga um aðra tvo tíma.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd að ofan sem fengin er að láni úr skýrslu Landlæknisembættisins, eru svefnlyf umtalsverður partur af geðlyfjanotkuninni. Svefnlyf sem aðeins er ætlað að nota til styttri tíma eftir áföll sérstaklega og sem valda slævingu líka daginn eftir. Notkun þessara lyfja er miklu meiri en á hinum Norðurlöndunum og allt að fjórfalt meiri en í Danmörku.

Yfir 8 milljón kvöldskömmtum af svefnlyfjum er ávísað út á ári hér á landi, og sem leiðir hugan að því hvort landinn sé þá ekki almennt sljórri. Alvarlegra er þó með aksturinn, en umtalsverð slysahætta getur skapast í umferðinni á daginn af notkun svefnlyfja kvöldið áður. Svefn- og verkjalyf eru enda almennt talin meiri áhættuvaldur að valda umferðaslysum en t.d. áfengið eitt og sér í Bretlandi og Bandaríkjunum. Norðmenn mæla í dag alltaf svefnlyfjamagn í blóði jafnhliða áfengismælingu í sínu umferðareftirliti. Hvað þá með áfallaraskaða þjóð sem þjáist af miklum kvíða og svefntruflunum flesta daga? Í fársjúku heilbrigðiskerfi sem treystir bara í æ ríkara mæli á rafrænu samskiptin og lyfin (lyfseðlana).

http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item25254/Avisunum-a-tauga–og-gedlyf-a-Islandi-hefur-fjolgad-fra-2003-til-2013

http://ruv.is/mannlif/ekki-toff-ad-sofa-litid

http://www.ruv.is/frett/segir-of-audvelt-ad-fa-svefnlyf

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn