Þriðjudagur 18.11.2014 - 12:19 - FB ummæli ()

Lífshættuleg bið eftir nýjum kosningum.

image

Blóðrautt sólarlag við Vesturlandsveginn sl. laugardag

Í fyrra skrifaði ég pistil undir heitinu Lífshættulegur vandi Landspítala þar sem ég líkti spítalanum við fársjúkan einstakling sem þyrfti jafnvel á gjörgæsluplássi að halda. Sem hann svo fékk reyndar aldrei, aðeins eina vítamínsprautu. Eins hef ég skrifað óteljandi greinar um slaka stöðu heilsugæslunnar og slök kjör unglækna sérstaklega sem gerir þeim ókleyft að vinna hér á landi með fjölskyldur sínar. Gamlir jálkar með uppkomin börn geta það að vísu, þeir síðust sem þá verða eftir. Allir heimilislæknar á höfuðborgarsvæðinu eru nú í sinni annarri verkfallslotu, flestir lúnir og gamlir eins og ég og hugsa sitt ráð.

Í stað lágmarks stuðnings nú er bara skorið meira niður eins og fjáraukalög til Landspítalans bera með sér. Ósamið er í kjaradeilu lækna og samningsviljinn virðist enginn að hálfu stjórnvalda. Lágmarkskröfur lækna eru alveg skýrar og frá þeim verur ekki vikið. Heilbrigðiskerfið er þegar komið á hliðina, eða skulum við segja fjórar fætur og bíður þess að falla alveg á grúfu vegna aðgerðarleysis stjórnvalda sl. áratug eða svo. Mynd sem blasir við og sem margir hafa tjáð sig um, m.a. nú forstöðulæknar og ábyrgir stjórnendur. Eða efir hverju er verið að bíða?

Og af því fjármálaráðherra talar um ósanngjarna launakröfu lækna, reiknaði ég um árið hvað ég þyrfti að sjá marga slasaða, brotna og fárveika til að getað borgað kostnað af hálkuskemmd á bílnum mínum um árið. Svona rétt til að bera saman gildi veraldlegra gæða og menntunar. Þrjátíu og tvær vaktir á Slysa- og bráðamóttöku LSH, eða aukavinnu í 8 mánuði árið 2012. Erfiðar vaktir og sjá 1300 sjúklinga og bera ábyrgð á öðrum 1300. Fyrir hálkuskemmdina á bílnum mínum þurfti ég þannig að bera ábyrgð á yfir 2000 slösuðum og bráðveikum. Þar á meðal að rétta allskonar mannabrot, að vísu með aðstoð hjúkrunarfræðinganna góðu. En launakröfurnar nú snúast meira um grunnlaun unglækna sem eru nú um 330 þúsund krónur á mánuði. Ekki minna eða annarra með öllum aukavöktunum.

Óskastaða heilbrigðisyfirvalda er einkavæðing heilbrigðiskerfisins á sem flestum sviðum og sem unnið er að hörðum höndum bak við tjöldin. Skýrir svo sem margt í dag, en hvað með unglæknana sem eingöngu geta unnið hjá því opinbera? Ef við getum ekki rekið opinbera heilbrigðisþjónustu með jöfnu aðgengi fyrir alla fyrir sanngjörn laun, að þá erum við einfaldlega ekki þjóð sem verðskuldum að halda sjálfstæði okkar. Punktur. Hvað sem holufnyk úr Hádegismóum líður og sem á að vera almúganum til aðvörunar og að halda sig á mottunni. Dánartíðni á eftir að snaraukast ef fer sem horfir og væntanlega fjölgar dálkunum í blaðinu þar líka og sem hefur verið þeirra söluvinsælasta blaðaefni. Meðalaldur þjóðarinnar færist smá saman í þá tölu sem þekkist í austur-Evrópu. Lækkar kannski um ein 10 ár næstu áratugina og þegar nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vantar. Ég vil ekki minnast á ungbarnadauðann sem ráðamenn hafa hingað til státað sig af að vera einn sá lægsti í heiminum í ræðum á tillidögum.

i sveitinni á sunnudagnn

Í sveitinni á sunnudaginn

Um önnur velferðarmál og menntunarmöguleika á Íslandi vil ég heldur ekki ræða hér, né heldur blað allra landsmanna alla daga. Hitt veit ég að makrílveiðarnar hafa gefið 100 milljarða króna arð og sem er álíka upphæð og sjávarútvegsfyrirtæki hafa grætt á frá hruni og góð eiginfjárstaða þeirra ber glöggt vitni um. „Eiginfjárstaða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hefur náð miklum viðsnúningi….., en hún er nú jákvæð um 107 milljarða króna. Í lok hrunársins var hún hins vegar neikvæð um 80 milljarða króna“ (Viðskiptablaðið 6. nóvember 2014).  Peningana vantar enda ekki í sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, þeir fara bara því miður aðeins í vasana á sumum.

Við skulum enn og aftur rifja upp hvað forfeður okkar sögðu fyrir rúmlega öld síðan til að reyna að stappa stálinu í ráðamenn, þó ekki væri nema í heilbrigðisráðherrann. Í formála alþýðutímarits um heilbrigðismál, Eir var skrifað 1899 „…sá kostnaður, sem sjúkdómar og skammlífi hafa í för með sér fyrir einstaklinginn og þjóðina í heild sinni, er ekkert smáræði. Hann er svo mikill, að fæstir munu renna grun í hann, og nokkrar bendingar í þessa átt eru ekki ófróðlegar“

Biðin eftir að við getum nú kosið nýja ríkisstjórn er allt of löng og því eins gott að fara að tala skýrt mannamál svo stjórnmálamennirnir í ríkisstjórnarflokkunum skilji töluna. Mig segir svo hugur að annars muni þjóðin ekki kjósa flokkana þeirra aftur næstu öld eða svo, eða í svipaðan tíma og hefur tekið að byggja upp það heilbrigðiskerfi sem við loks fengum, en nú er verið að rústa. Þeirra minnisvarði þá í framtíðinni.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn