Heilbrigðiskerfið er orðið veikburða á allt of mörgum sviðum og þróunin í kjaraviðræðum við lækna sl. vikur slæm. Varla er að verða mannað í vissum sérgreinum læknisfræðinnar og við treystum hvað mest á í alvarlegustu veikindum okkar. Krabbameinslæknar og meltingarlyflæknar orðnir fáir, skurðlæknum fer ört fækkandi og gjörgæslulæknar íhuga flestir uppsagnir. Heilsugæslan mjög veikburða, ekki síst á höfuðborgasvæðinu, sumar heilsugæslustöðvar vart mannaðar læknum lengur og unglæknar flestir að hverfa af landinu. Framtíð landsins og læknanámið að lamast. Myndin í raun svo dökk að ég sleppi að birta hana með að þessu sinni.
Boðaðar verða væntanlega hertar verkfallsaðgerðir fram undir vor, en forsætisráðherra og fjármálaráðherrann láta eins og þeim komi vandinn ekki við. Enginn vilji virðist vera að leiðrétta ófullnægjandi kjör lækna (grunnmánaðarlaun unglæknis 340.000 kr.), þrátt fyrir yfirgnæfandi vilja þjóðarinnar til þess samkvæmt skoðanakönnunum. Stjórnvöld virðast búa sig undir einkavæðingu heilbrigðsikerfisins og því spurning hvort hafi komið á undan, hænan eða eggið. Tilgangurinn sé með þessu öllu saman ískaldur ásetningur. Beinhörð blóðug rústabjörgun blasir hins vegar við almenningi fyrst um sinn.
Með hverjum deginum verður vandinn nú alvarlegri og fleiri sjúklingar deyja að óþörfu vegna ófullnægjandi læknismeðferðar. Staðreyndir sem ekki verður horft framhjá í dag, og eru bara stundum í fréttum. Engu að síður á að hefja byggingaframkvæmdir upp á 100 milljarða króna á Landspítalalóð og sem leysir auðvitað ekki vandann sem um ræðir í dag eða á morgun. Jafnvel forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar eru ekki tilbúnir að liðka fyrir kjaradeilu lækna með þjóðarsátt og þar með áframhaldandi nauðsynlegri opinberri heilbrigðisþjónustu. Fagna frekar öllum byggingaframkvæmdunum og stórgóðum hagvexti Íslendinga.
Þjóðin virðist ónýt að sinna sínum nauðsynlegustu málum og nútímalegt heilbrigðiskerfi verður aldrei rekið án lækna. Ekkert frekar en hjá öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við varðandi heilbrigði og félagslegt öryggi, sem við viljum flest búa við. Því er ég a.m.k. sjálfur farinn að undirbúa mig fyrir það versta og búinn að segja upp stöðu minni í heilsugæslunni. Ég vona að allir undirbúi sig sem best, hver á sinn hátt og sem það geta, enda stefnir í mikla þjóðarvá. Þjóðarinnar var valið, en sem nú er bölið.