Í dag heldur Vífilfell upp á 100 ára afmæli kókflöskunnar og hefur keypt moggann handa allri þjóðinni til að lesa í auglýsingaskyni. Sennilega hefur engin „fæða“ haft jafnmikil slæm áhrif á neysluvenjur nútímamannsins og einmitt þessi eini drykkur á sl. öld og sem vissulega er allra drykkur frægastur. Breytir þar engu um þótt „Contour“ CocaCola-flaskan kunni að vera sérstaklega vel hönnuð til markaðssetningar. Sykurneysla hefur aukist marghundraðfalt á þessum tíma, að miklu leyti í formi sykraðra gosdrykkja og sem í dag teljast mesti heilsuskaðvaldurinn í nútíma þjóðfélagi. Markaðsöflin eru engu að síður söm við sig og gosdrykkjaframleiðendur leita nú allra leiða til að rétta sinn hlut gegn áróðri sl. ára, gegn minnkaðri gosdrykkjaneyslu og skynseminni. Halda jafnvel upp á hundrað ára afmæli umbúðanna sem þjóðhátíð væri á Íslandi sem þar sem sykurskatturinn hefur enda þegar verið lækkaður.
Alls drekka samt Íslendingar um 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á ári hverju og innbyrða að meðaltali sem samsvar allt að 1 kílói af hreinum sykri á viku, töluvert meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Sumir minna magns, en aðrir miklu meira. Fjórðungur allrar sykurneyslu landans er reyndar í formi gosdrykkja hverskonar. Neyslan jafngildir þannig um 27% af allri sykurneyslu landans, en nýverið höfðu Danir áhyggjur af sinni 10% neyslu í formi sælgætis og þóttu mörgum nóg um. Fimmföld ofneysla á sykri á Íslandi, þar af rúmlega fjórðungur í formi sykraðra drykkja er auðvitað svakaleg ofneysla. Það hlýtur að vera á ábyrgð foreldra og forráðamanna að takmarka neyslu hreins sykurs meðal barna, og sem getur leitt til sykurs- og matarfíknar síðar ásamt öðrum afleiddum alvarlegum sjúkdómum. Þegar ungt fólk fær sjúkdóma gamla fólksins fyrir aldur fram.
Í hverjum 500 ml. Coca Cola gosdrykk er sykurmagn sem samsvarar 27 sykurmolum eða 54 grömmum af hreinum sykri. Ekki er óalgengt að sumir unglingar drekki allt að 2 lítra á dag, sem samsvarar neyslu á 216 grömmum af hreinum sykri. Burt séð frá öðrum óhollum og örvandi efnum eins og coffein, sem gos- og orkudrykkir kunna að innihalda og mikið hefur verið til umræðu að undanförnu. Sem er mikið meira magn en ráðlagt er að hámarki, dreift jafnt yfir allan sólarhringinn (36 grömm fyrir karla, 20 gr. fyrir konur og 12 gr. fyrir börn) samkvæmt ráðleggingum manneldisráða.
Risastórar neytendapakkningar, 2 lítra gosflöskur, jafnvel í kippum með góðum afslætti, leiða auðvitað til meiri neyslu. Ósanngjarnt er líka í þessari umræðu að sleppa alfarið að minnast á mikið sykurmagn í mörgum mjólkurafurðum okkar, sem innihalda allt að 15% sykurs. Það er annars merkilegt að markaðurinn skuli alltaf fá að ráða öllu, jafnvel þegar í óefni er komið. Nema þá ef sett eru ný lög og nýir skattar. Önnur lönd hafa reyndar þegar lagt á hærri sykurskatta og lög um hámarksstærðir á gosflöskum. Aðgerðir sem er viðleitni yfirvalda í hverju landi að mæta vandanum. Þannig hafa líka flest lönd nú sett viðvörunarmerki á tóbaksvörur og sem benda á að tóbakið getur drepið. Sama ætti að eiga við með sykurdrykki og sælgætið, og við sem neytendur ættum hreinlega að sniðganga þær verslanir sem vinna gegn heilsunni okkar alla daga og allt að því egna börnin að neyta sem mest af óhollustunni.
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/01/29/hviti-daudi/
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/08/27/hvita-efnid-sem-drepur/
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/08/26/sykurdrykkir-og-hegdunarvandamal-ungra-barna/
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/01/03/lifshaettuleg-egils-orka/