Þriðjudagur 24.03.2015 - 22:25 - FB ummæli ()

Hinn illlæknanlegi þjóðarkroppur (Eir XII)

image

Blóðrautt sólarlag yfir höfuðborginni sl. haust.

Of finnst mér umræðan um heilbrigðismál spóla í sama farinu, ár eftir ár. Reglubundið nær umræðan t.d. um offitu, hreyfingaleysið og ofneyslu sykurs og gosdrykkju sér á flug, en lognast út af jafnóðum. Markaðslögmálin og peningavaldið hefur alltaf betur. Lýðsjúkdómar eru þeir sjúkdómar kallaðir sem valda algengustu heilsumeinum einstaklinganna í þjóðfélaginu á hverjum tíma og þar sem lífstílssjúkdómarnir í dag eiga stærsta partinn. Ólíkt hörgul- og smitsjúkdómunum sem algengastir voru á öldum áður. En í stað þess að takast nú á við lífstílssjúkdómana í grunninn og þar sem ræturnar liggja, eru skyndilausnir og kúrar oftast látnir nægja en sem ruglar bara fólk enn meira í ríminu. Umræðan í vetur hefur þannig einmitt litast mikið af töfralausnunum sem þar að auki geta verið skaðlegar í sumum tilvikum. Hagur verslunar og þjónustu er ávalt sett í forgang fram yfir lýðheilsumarkmiðin af stjórnvöldum svo sem lækkun sykurskatts og þar sem jafnvel apótekin fá að maka krókinn sinn.

Læknar eiga hins vegar yfirleitt góð samskipti við sjúklingana sína og ná yfirleitt að sannfæra þá um skynsamlegustu lausnirnar hverju sinni. Stundum varðandi alvarlega sjúkdóma eins og krabbamein, sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma og geðsjúkdóma, en miklu oftar varðandi daglega líðan og starfsgetu. Óhefðbundnar lausnir þynna hins vegar boðskap læknanna út og eyðileggur jafnvel möguleika á lækningu en sem byggist á bestu vísindalegri þekkingu hverju sinni. Nýlegur málflutningur andstæðinga bólusetninga er þannig gott dæmi um hvað villuboðskapur sumra og sem byggjast ekki á vísindum, heldur hjátrú og hindurvitni, getur í raun skemmt mikið ef ekki er veitt kröftug mótstaða vísindasamfélagsins. En í fámennum hópi lækna þar sem orðið er erfitt að standa gegn öllum markaðslögmálunum, falsspámennskunni og jafnvel fjölmiðlum.

Ég furðað mig lika á því hvað stjórnmálamenn taka lítið mark á læknum sem ráðleggja eftir bestu vitneskju um heilbrigðismálin. Þannig er ekki sama sagt um þjóðarlíkamann og þeirra eigin þegar hann veikist, sem þeir bera engu að síður mikla ábyrgð á. Þannig er t.d. lítið mark tekið á áherslum lækna hvar þjónustuna helst vantar, eins og í heilsugæslunni og í öldrunar- og vistunarmálum. Fjármálakerfið fékk óvænt ákveðna skammtímalækningu um árið, en önnur stjórnsýsla ekki og sem er víða langsjúk og umræðan í þjóðfélaginu öllu ber vel með sér. Flestir fjölmiðlar skipa sig auk þess í fylkingarbrjósti pólitískra sérhagsmunafla eða eigenda sinna. Segja má að aðeins með tjáningu almennings beint á internetinu, nálgist þjóðarsálin að geta sjálf látið í sér heyra, en því miður stundum líka með öfgakenndri umræðu og sem hvetur til múgæsingar eða sefjunar. Þar sem rödd lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks gjarnan vantar sem og ábyrgra stjórnmálamanna sem varða eiga auðvitað veginn og setja fjölmiðlum a.m.k. lágmarks skorður í vitleysunni.

Alþýðutímaritið Eir, tímarit um heilbrigðismál var gefið í Reykjavík um aldarmótin 1900. Guðmundur Björnsson, síðar landlæknir taldi engum efa bundið að þörf væri á slíku riti þá eins og hann skrifaði í inngangi ritsins 1899  „..skortir mjög þekkingu á þeim skilyrðum sem líkaminn þarf að búa við til þess að lífsstörf hans færi fram á eðlilegan hátt …Þekkingin væri nefnilega vegurinn, eini vegurinn, til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma og lengja líf sitt og sinna, ef rétt er með hana farið. ..Það væri langt um auðveldara að koma í veg fyrir marga sjúkdóma, en lækna þá og þeir eru búnir að festa rætur í líkamanum. Læknisfræðin hefir að vísu farið mjög fram á síðustu tímum, en það eru engu að síður ýmsir sjúkdómar, sem illa tekst að lækna eða alls ekki… Sá kostnaður, sem sjúkdómar og skammlífi hafa í för með sér fyrir einstaklinginn og þjóðina í heild sinni, er ekkert smáræði. Hann er svo mikill, að fæstir munu renna grun í hann, og nokkrar bendingar í þessa átt eru ekki ófróðlegar

Segja má að við könnumst líka vel við efnisvalið í alþýðutímaritinu fyrstu tvö árin sem tímaritið var gefið úr og sem var undnafari íslenska Læknablaðsins og sem ég hef stundum fjallað um í fyrri „Eir pistlum“ mínum: Læknaskólinn og Landspítalinn, Hvernig skal varast að taugaveiki sýki aðra, Um áfenga drykki í vörubúðum, Hafið gætur á hundunum, Blóðvatnslækning við barnaveiki, Neysluvatnið, Lúsin, Skinnið og skinnhirðing og Um samband sjúkdóma við kynferði manna aldur og skyldleika. Umræða um lífsstílssjúkdómana svokölluðu var hins vegar varla til og auðvitað voru hlutirnir öðruvísi orðaðir í þá daga. En hver er staða alþýðulækninga í dag í heildarmyndinni?

Aðeins um 2.5% (um 4 milljarðar króna) af heildarútgjöldum til heilbrigðismála (um 140 milljarðar) er varið til grunnheilsugæslu í víðasta skilningi og þar af innan við 0.3% (um 0.5 milljarða króna) til forvarna beint tengt almennri fræðslu. Hvortveggja sem samt með öflugri uppbyggingu gæti skilað hundraðfaldri ávöxtun í þjóðartekjum talið með fækkun glataðra mannára og lægri heilbrigðiskostnaði þ.á.m. sjúkrahúss- og sérfræðikostnaði hverskonar og Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS gerði nýlega svo góða grein fyrir í blaðinu sínu. Eitt er víst að hátæknilækningarnar og ný lyf er ekki það sem mestu máli skiptir nú til að bæta heilsu þjóðarinnar. Heildræn sýn almennings og ábyrgð á eigin heilsu hefur heldur ekki verið mikið minni alla sl. öld og sem allir dellu- og dægurkúrarnir nú bera best vitni um. Og á sama tíma og heilsugæslan sjálf er fjársvelt og undirmönnuð af læknum, flæðir víða hressilega yfir í vakt- og bráðaþjónustunni okkar og sem oft er í fréttum. Í landi þar sem mest virðist kappkostað af yfirvöldum að hækka aðeins varnarstíflurnar í heilbrigðiskerfinu.

 

Tenglar:

http://www.visir.is/fjarmunir-verda-ad-fylgja-verkefnum/article/2015703249973

http://sibs.is/allar-greinar/item/175-%C3%BAr-hverju-deyjum-vi%C3%B0

http://sibs.is/allar-greinar/item/112-heildr%C3%A6n-heilsa-%C3%A1-t%C3%A6kni%C3%B6ld

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn