Mánudagur 14.07.2014 - 19:22 - FB ummæli ()

Öskur í heilbrigðiskerfinu!

screemNú hefur verið ákveðið að sameina starfsemi 11 heilbrigðisstofnana á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi í þrjár stórar verkeiningar, en sem mælst hefur illa fyrir hjá þeim sem vel þekkja til. Sameining læknavaktar t.d. á Búðardal og Hólmavík er fáránleg hugmynd, þar sem einni og sami læknirinn þarf að geta sinnt vitjunum innan úr Ísafjarðadjúpi og upp í Bröttubrekku. Samnýting mannafla og vakta á ólíkum stöðum eru einmitt helstu rök stjórnvalda fyrir sameiningu stofnana og að því sem kallað er hagræðingu í rekstri. Í landi þar sem minna er varið til heilbrigðismála en hjá nágranaþjóðunum og spara á enn meira.

Á höfuðborgarsvæðinu þar sem heilsugæslan öll hefur verið beint undir einum hatti Heilbrigðisráðuneytisins sl. áratug (HH) (reyndar stendur HH fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins), hefur þjónustan að ýmsu leiti verið mun óaðgengilegri en úti á landi og þar sem hún hefur fengið að vera sjálfstæðari í minni einingum. Sú bitra reynsla ætti að vera eitthvað til að læra af. Þar sem markmið var upphaflega að hagræða í rekstri og efla stjórnun, en sem hefur síðan grafið henni gröf. Ef Akureyringar gráta vegna þess að þar vantar nú 6 lækna eins og nýlega var í fréttum, að þá mega höfuðborgarbúar öskra eftir hjálpinni. Þar vantar nú yfir 60 heimilislækna og mikill atgerfisflótti brostinn á meðal þeirra sem enn eru starfandi. Nú er svo komið að sumar heilsugæslustöðvar eru vart mannaðar læknum lengur.

Ekki er lengur boðið upp á næturvaktir heimilislækna á nóttunni á höfuðborgarsvæðinu og vaktin í Kjósinni og Þingvallasveit er í uppnámi þar sem til stendur að leggja niður vaktþjónustuna í Mosfellsbæ á kvöldin og um helgar nú í haust, en sú stöð heyrir einmitt undir hatt HH. Niðurskurður hefur ríkt ár eftir ár í heilsugæslunni og laun skert. Biðraðir eru víða út á götur við skyndimóttökur og bráðamóttöku Landspítala-Háskólasjúkrahús. Nýjar byggingar og voldugar stjórnsýslustofnanir í henni Reykjavík segja þannig ekki alla söguna og þegar innviðina vantar og samvinnu við sjálfa grasrótina sem vinna eiga verkin.

Umræða um yfirfulla bráðamóttöku háskólasjúkrahússins og margfalt álag á læknamóttökur á kvöldin og um helgar, hefur vakið upp áleitnar spurningar um gæði og skipulag heilbrigðisþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu og sem stjórnvöld hafa átt erfitt með að svara fyrir. Stærsti hluti erindanna ættu að sjálfsögðu að eiga heima í heilsugæslunni á daginn og skilvirkari heilbrigðisþjónustu eins og klínískar leiðbeiningar gera ráð fyrir. Eins til mikils sparnaðar fyrir ríkið, til lengri tíma litið. Umræða um þessi alvöru lýðheilsutengd mál eru miklu meira áberandi í flestum fjölmiðlum erlendis en hér heima sem velta sér mest upp úr tískukúrum og er það sennilega ein skýringin á því að heilbrigðisyfirvöld leika lausum hala eftir geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna og sem auk þess helst vilja einkavæða nú allt.

En hverjir eru raunhæfir mælikvarðar í dag á því að við höfum verið á vitlausri vegferð og forgangsraðað rangt í heilbrigðiskerfinu? Aðrir mælikvarðar en langlífi og sem tekur mannsaldur að breyta. Mælikvarðar sem sýna leikbrot á klínískum alþjóðlegum leiðbeiningum og sem endurspegla miklu betur vandann en þær heilsuhagtölur sem við miðum gjarnan allt við á hátíðisdögum. Leikbrot sem sýna ekki aðeins vitlausar áherslur í stjórnun, heldur vísbendingar um alvarlegar langtímaafleiðingar og mælast munu í verri lýðheilsuhagtölum í framtíðinni.

NOKKRAR STAÐREYNDIR:

1) Mikil notkun sýklalyfja á Íslandi, einkum meðal barna og sem búið er að skapa sérstöðu í sýklalyfjaónæmi helsta sýkingarvalds þeirra, pneumókokkanna, og stór hluti þeirra ónæmur fyrir algengustu sýklalyfjunum. Þar sem flestum erindum veikra barna er sinnt á bráðamóttökum í stað heildstæðrar heilsugæslu eins og alþjóðlegar klínískar ráðleggingar gera ráð fyrir og farið er strangt eftir í nágranalöndunum. Sýklalyfjaónæmi er stöðugt að verða heilbrigðiskerfinu dýrara og erfiðar gengur að ráða niðurlögum alvarlegra sýkinga. Þróun sem m.a. Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO)er búin að vera lengi við, eða í meira en tvo áratugi og ástæðurnar vel rannsakaðar hér á landi, án þess að gripið hafi verið til viðeigandi úrbóta í skipulagi þjónustunnar.

2) Mikil notkun svefnlyfja eða yfir 8 milljón svefnskammtar á ári. Þegar þjóðin er látin sofa í stað þess að halda vöku sinni og árvekni. Miklu meiri notkun en á hinum Norðurlöndunum og lyfjaendurnýjanir gerðar hálf vélrænar í stað augliti til auglits við lækni eða sálfræðing.

3) Mikil vöntun á geðhjálp og sálfræðiþjónustu. Mikil notkun kvíða- og þunglyndislyfja og meiri en á hinum Norðurlöndunum er að hluta orsökuð þar sem vöntun er á þessari hjálp. Þunglyndi sem að lokum er algengasta orsök örorku í landinu.

4) Mikið álag á bráðþjónustuna, eða allt að áttfalt miðað við hjá nágranaþjóðunum. Þangað sem við sækjum skyndilausnir í stað varanlegri lausna og eftirfylgd með einkennum eins og heilsugæslan á að bjóða upp á. Glundroðastig skapast endurtekið á sjálfri Slysa- og bráðamóttöku háskólasjúkrahússins vegna ofálagsins. Næturvakt heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu var hins vegar lögð niður fyrir um 3 árum og fólki bent á að koma bara beint á háskólasjúkrahúsið.

Ábendingar til að því er virðist blindra og stefnulausra stjórnvalda, eru miklu fleiri en þessar fjórar, sem hafa lengi verið mjög sýnilegar og bent hefur verið endurtekið á, m.a. með bréfi til heilbrigðisráðherra og heilbrigðisnefndar Alþingis fyrir 5 árum. Álags- og hættueinkenni í grunni heilbrigðisþjónustunnar sem heilbrigðisyfirvöld ættu fyrir löngu að vera búin að bregðast við og þegar sjá mátti í hvað stefndi. Enn ekki ein stuna á þeim bænum, hvað þá að bréfum væri svarað. Undirritaður sem á að heita klínískur dósent við HH hefur heldur ekki fengið svo mikið sem einn fund með stjórnendum um málefni heilsugæslunnar, þau 4 ár sem hann hefur verið skipaður.

Ég hef fyrir löngu talið þörf á sérstakri rannsóknanefnd til að skilgreina vandamál íslenska heilbrigðiskerfisins og sem ég hef oft skrifað um. Vanda sem á rætur að rekja til lélegrar yfirstjórnar heilbrigðismála hér á landi um árabil og geðþóttaákvarðana stjórnmálamanna. Aðallega þó til að meta hvar mest þörf er á úrbótum strax í dag til að koma í veg fyrir meiri skaða en orðið hefur og sem mun taka áratugi að laga. Lýðheilsan er í veði og margra milljarða sparnaður á ári fæst auk þess með bættri heilsu landans. Vel skipulagða nærþjónustu þeirra sem vinna verkin.

Viðtal um efnið í Þættinum Reykjavík síðdegis 15.7.2014  http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP28349

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn