Í Fréttablaðinu í fyrradag 24.3, undir heilsufréttunum í auglýsinga- og kynningablaðinu Fólk/Heilsa, er viðtal við Sigríði Sveinsdóttur, háls, nef og eyrnalækni á Læknastöðinni í Mjódd, „Vökvi í eyrum getur seinkað máltöku„. Um auglýsingu virtist vera að ræða, þar sem læknirinn hvetur ungbarnaforeldra að huga betur að heyrn og málþroska barna sinna og sem bæta mætti í mörgum tilvikum með hljóðhimnurörum og vökvi reynist viðvarandi í miðeyrunum. Vökvi sem samt allt að 30-60% barna er með til skemmri eða lengri tíma yfir veturinn. Að börnin geti þá komið í aðgerð til hennar í svæfingu og fengið plaströr í hljóðhimnurnar til að bæta heyrnina og málþroskann.
Jafnfram kemur fram í „fréttinni“ að þegar séu gerðar yfir 4000 slíkar aðgerðir á ári hverju og þar sem skilaboðin eru þá væntanlega að börn nálgist normið ef þau fái rör, janfnvel að meirihluti barna þurfi á slíkum rörum að halda. Flest börn fá rörin á öðru og þriðja aldursári svo yfir 4000 rör árlega (í annað eða bæði eyrun) nálgast fjöldann í heilum árgangi barna ár hvert. Ekki er minnst á þá staðreynd að hugsanlega sé um miklar oflækningar að ræða og sem ég hef fjallað oft um áður tengt eyrnabólgum barna. Kostnaðurinn er væntanlega um hálfur milljarður króna á ári sem Sjúkratryggingar borga að mestu eða álíka upphæð og einn áttundi heildarútgjöldum til rekstrar heilsugæslunnar í landinu.
Undirritaður skoðaði hljóðhimnurörísetningar barna á árunum 1996 – 2003 á Íslandi og sem var hluti doktorsritgerðar um notkun sýklalyfja meðal barna og þróunar sýklalyfjaónæmis helstu sýkingarvalda. Í ljós kom að ástæða rörísetninga virtist í flestum tilvikum vera endurteknar eyrnabólgur, frekar en áhyggjur af heyrn barnanna, en þar sem rörin síðan virtust litlu breyta varðandi sýklalyfjaávísanir síðar og sem jafnvel jukust eftir tilkomu röranna. Þriðjungur allra barna er auðvitað svakalega há tala, í skurðaðgerðum talið, svæfingum og fylgikvillum, ekki síst þegar flestar rannsóknir sýna að rörísetning hefur almennt ekki áhrif á málþroska barna til lengri tíma litið. Miðað við uppgefnar tölur Sjúkratrygginga á aðgerðunum, hefur tíðnin haldist svipuð sl. tvo áratugi. Í fyrra (2014) var fjöldinn um 4.300 sem tryggir okkur örugglega áfram efsta sætið meðal vestrænna þjóða. Með öllu er ástæðulaust að hvetja til enn fleiri slíkra aðgerða. Sennilega væri nær hjá Sigríði kollega mínum að hvetja til meiri árvekni og fækka óþarfa rörsetningum hjá börnum.
Vissulega gagnast sumum börnum rörísetning vel, ekki síst þeim sem eru stöðugt óvær og grunur er um viðvarandi heyrnaskerðingu (10-20dB) í meira en 9 mánuði samfellt tengt seinkuðum málþroska og í sumum tilvikum hjá börnum með margendurteknar erfiðar miðeyrnabólgur. Þannig fá aðeins um 5% barna hljóðhimnurör í norðurhluta Bandaríkjanna (Boston svæðinu) og víða í norður Evrópu, aðallega vegna gruns um heyrnarskerðingu, þó hlutfallið sé víða hærra á hinum Norðurlöndunum (milli 10-20%). Og þótt röraísetning sé frekar hættulítil skurðaðgerð, þá fylgja aðgerðinni hættur, líkt og öllum öðrum skurðaðgerðum í svæfingu. Fylgikvillar af rörunum eru heldur ekki óalgengir, sýkingar og viðvarandi útferð úr eyrum (aðskotahlutur, implant, í eyrum). Ekki má heldur gleyma langtímaafleiðingum eftir rörísetningar á unga aldri sem er viðvarnadi kölkun á hljóðhimnunni (kalkskellur) til fullorðinsára og sem veldur um 2-4 dB viðvarandi heyrnartapi að meðaltali út alla ævina. Hjá sumum minna, öðrum meira.
Hljóðhimnuröraísetning er vissulega þarft og gott meðferðarúrræði hjá sumum börnum. Mikilvægast er þó að forsendur og ábendingar fyrir slíkri aðgerð séu skýrar. Að öðrum kosti er um oflækningar að ræða. Auglýsingin nú í fjölmiðlum um nauðsyn hljóðhimnurörísetningar í ungbörn með aðeins seinkaðan málþroska og hvatning til ungbarnaforeldra að auka árvekni tengt vægum eyrnabólgum sem fylgir flestum ungbörnum tímabundið, er með öllu óþörf eins og fyrirliggjandi tíðnitölur um aðgerðir á Íslandi sýna. Kynningin eykur á kvíða foreldra barna sem eru aðeins sein til máls, oftast vegna vægra þroskafrávika og sem hlýtur þá að teljast ljótur leikur. Hljóðhimnurörísetningar hjá íslenskum börnum er ofnotað úrræði í dag í læknisfræðilegu tilliti og kynningin í auglýsingablaðinu Fólk vafasöm er varðar læknalög og sem banna auglýsingar í aðsóknarhvetjandi markmiði. Ekkert ólíkt umræðunni í fyrra tengt öðrum implöntum, ígræðslu brjóstaimplanta ungra kvenna hjá lýtalæknum.
(Blaðamaður kynningarblaðsins, Sólveig hafði samband við mig símleiðis eftir ritun pistilsins í morgun og vildi árétta að fréttin/viðtalið væri frá blaðamanninum sjálfum komin upphafl. og breytti ég titlinum mínum í samræmi við það)
http://vefblod.visir.is/index.php?s=8947&p=190453
http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2013/10/5/ad-skreyta-sig-med-geislavirkum-fjodrum/
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2015/01/27/hvad-erum-vid-eiginlega-ad-hugsa-vardandi-bornin/