Laugardagur 18.04.2015 - 13:49 - FB ummæli ()

Týnda borgin Ani og Íslendingurinn ég

anikirkja

Kirkjubygging í Ani, borg 1001 kirkju og Dómkirkjan fjær (júli 2014)

Sl. sumar fórum við í íslenska ferðahópnum Fjöll og firnindi í ferðalag til Tyrklands með það að aðalmarkmiði að ganga á hið fornfræga fjall Ararat  í austurhluta Tyrklands, rétt við landamæri Írans og ekki langt frá landamærum Armeníu. Við dvöldumst í hæðaraðlögun í nokkra daga í landamærabænum Dogubayazit og nýttum tímann vel. Fórum m.a. í dagsferðir um héruðin í Agri (sem nafnið agriculture er dregið af). Fyrr í ferðinni höfðum við dvalið við vatnið Van og heimsótt m.a. hina stórmerkilegu eyju Akdamar og sem sagt hefur verið áður frá. Lengsta dagsferðin nú í þessum kafla ferðarinnar var norður til héraðsins Igdir sem er næst Armeníu og þar sem við heimsóttum hina fornu heimsborg Ani, eða „borg hinna 1001 kirkja“ eins og hún hefur oft verið nefnd rétt við landamærin. Höfuðborg Bagratuni konungsveldisins fyrir um 1000 árum (961-1045) og sem enn í dag er eitt helsta menningarstolt Armensku þjóðarinnar, þótt utan landamæranna sé. Þar stóðu áður stærstu og merkustu steinbyggingar heims og sem enn má sjá leyfarnar af. Nafnið Ani þýðir einmitt að „hafa umhyggju fyrir“ eða „Ég, sem sé um mína“.

 Keyrslan norður tók um 4 klukkustundir. Á leiðinn komum við við í fornfrægri saltnámu og sem mynnti helst á Rauðhólana okkar, en sem hægt var að keyra inn í. Náttúruauðlind heimamanna í norðurhluta Agri-héraðs, þar sem aðallega var stundaður landbúnaður með geitum- og nautabúpeningi. Uppi á hásléttunum sem við síðar keyrðum yfir, mátti hins vegar sjá hirðingjabúskap, stórar nautagripahjarðir og víða litlar tjaldbúðir. Litlar steinahrúgur voru út um alla hásléttuna og mynduðu sumstaðar litla hóla. Afleiðing þess sem bændur og hirðingjar höfðu hirt gegnum aldirnar og hreinsað hagana af grjóti til að auðvelda heyslátt snemmsumars og þegar jarðvegurinn var enn rakur eftir veturinn. Nú þegar liðið var á sumarið var gróðurinn þurr og gulur undir brennheitri sumarsólinni.
Bagratuni_Armenia_1000-en

Gamla Armenía árið 1000

Aksturslag leiðsögumanna á tyrknesku þjóð- og sveitarvegunum var kapítuli út af fyrir sig, og þótti okkur stundum nóg um. Lítil sem engin umferð var og greitt keyrt, á hvorri akgrein sem var og best hentaði hverju sinni eftir beyjunum. Aksturslagið var tilefni nánast einu mótmæla okkar Íslendinganna í allri ferðinni þar sem við mátum umferðaöryggið og líf okkar greinilega meira en þeir gerðu. Töldum reyndar að leiðarlokum, að bílferðirnar hefðu verið áhættusömustu tímabilin í allri ferðinni. Miklu varasamari en gangan sjálf á Ararat og hugsanleg nálægð við mannræningja í fjöllunum. Aksturslag sem staðarmenn töldu svo sjálfsagt, á illa útbúnum bílum og þar sem jafnvel mátti mæta hestavögnum á hraðbrautinni.

kirkjan á klettinum

Kirkjan á klettinum í gilinu í Ani

Við vorum flest orðin hálf lúin þegar komið var á leiðarenda til Ani. Áður heimsborgar og höfuðborgar Armeníu fyrir 1100 árum og sem mátti sannarlega muna fífil sinn fegri. Borg sem nefnd hefur verið nokkrum nöfnum gegnum aldirnar og tvívegis lögð í rúst, ef svo má segja, og sem gleymdist alfarið á miðöldum. Rétt fyrir aldarmótin 1900 uppgötvaðist hún hins vegar aftur. Hafði þá verið undir yfirráðum Tyrkja í nokkrar aldir, en þeir vildu ekkert af henni eða kristinni menningu hafa að segja. Nú blasti hún við okkur, borg magnaðrar dulúðar og tímaleysis. Vegna ríkidæmis Ani og valda í upphafi fyrir meira en 1000 árum, hafði þessi borg verið helsta verslunarleiðin á svæðinu. Hún var helsta tengin Suður-Rússlands gegnum gömlu Armeníu og austurheims (Persneska heimsveldisins), sem og heims múslima í Arabíu og þannig merkasti áfangastaður „silkivegs“ þessa heimshluta. Borg 40 hliða og 1001 kirkju sem nú voru rústir einar.

saman í Ani

Við Inga mín í Ani

Rústir bygginga, aðallega kirkjubygginga af öllum stærðum og hluti borgarvirkisins stendur samt víða uppi á þurri hásléttunni, afgirt djúpum giljum og þar sem vatnsmeiri ár hafa væntanlega runnið forðum. Dómkirkjan er meðal heillegustu rústanna og sem var byggð á svipuðum tíma og landnám Íslands átti sér stað fyrir rúmum 1000 árum. Fyrsta innrás Tyrkja á Ani átti sér hins vegar stað þegar árið 1064, eftir 25 daga umsátur og hörmulegar lýsingar eru til af drápi yfir 50.000 íbúa sem bjuggu þar á þeim tíma. Árásirnar áttu eftir að verða fleiri gegnum aldirnar, m.a. af hendi Mongóla, en lengst af var borgin undir yfirráðum Tyrkja og undir það síðasta hluti af Ottoman stórveldinu.

Svæðið allt er þannig að mestu í eyði í dag, lítil sveitaþorp í næsta nágrenni með geitabúskap og ein vegleg þjónustumiðstöð tyrkneskra yfirvalda, einskonar gamla Valhöll okkar tíma. Það var því mjög furðuleg tilfinning fyrir okkur Íslendingana að vafra um rústirnar þarna í u.þ.b 2 klukkustundir í upp undir 40° hita. Sumar höfðu verið reistar afskekkt á bergeyjum í djúpu giljunum. Borg sem hafði áður hýst yfir 100.000 manns þegar mest var.  Lýsingar eru til frá borginni á einum mestu hryðjuverkum mannkynssögunnar þar sem meira en helmingur íbúa var drepinn í yfirgangi Tyrkja gegn Armenum og kristnum íbúum. A.m.k. tvívegis gerðu Tyrkir árás á borgina og reyndu að eyðileggja hana sem mest. Síðast árið 1915. Táknrænar minjar þar sem Tyrkir vilja í dag afsaka hefndarþorstann sinn gagnvart kristinni menningu og nýlega hefur verið í fréttum. Sjálfstæðisbaráttu Kúrda sem nú búa á svæðinu og sömu trúar, berjast þeir þó enn gegn af fullri hörku, Kúrdíska lýðveldinu Ararat. Allt annað mál eru nýjar blóðsúthellingar og eyðilegging liðmanna Ríkis íslams á ennþá eldri menningaverðmætum í næsta nágrenni við Ani, m.a. á fornminjasöfnum í Mosul í mið-vesturhluta Íraks og í hinni ævafornu borg Nimrud og nær daglega er í fréttum. Sagan virðist þannig sífellt vera að endurtaka sig í mismunandi myndum.

Meðfylgjandi myndir segja þó e.t.v. meira en mörg orð, hvernig tíminn virðist stundum standa í stað, a.m.k. í  hinni gleymdu heimsborg Ani.

heyskapur

Heyskapur í Igdir við landamæri Armeníu (júlí 2014)

geitur

Geitahjörð í Igdir ( júlí 2014)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn