Fimmtudagur 04.06.2015 - 12:28 - FB ummæli ()

Já, svínslegt heilbrigði Baktus bróðir

BarnkyssersvinSvo vill til að ég á sæti í Sóttvarnaráði ríkisins. Sem betur fer hefur starfsemi ráðsins verið fyrst og fremst ráðgefandi fyrir stjórnvöld og Sóttvarnarlækni sem snýr að smitnæmum sjúkdómum. Varnir þannig m.a. gegn alvarlegum veiru- og bakteríusjúkdómunum, með alm. eftirliti, bólusetningum og öðrum meðferðum. Líka hvernig verja megi landið betur fyrir gömlum farsóttum, eins og t.d. mislingum og hettusótt og nú hugsanlegum nýjum lendnemum farsóttakveikja sem berast geta með matvælum í menn og dýr.

Sýklalyfjaónæmi helstu sýkingavalda mannsins er meðal mestu ógna mannkyns að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og sem ég hef oft skrifað um áður. Ónæmi sem tengist of mikilli og ómarkvissri sýklalyfjanotkun okkar mannanna, og sem er reyndar enn meiri í landbúnaðinum víða erlendis. Sýklalyf hafa þannig verið notuð til að auðvelda hverskonar ræktun og m.a. til að auka kjötmassa og vaxtarhraða dýra. Megnið af sýklalyfjunum og sýklalyfjaþolnum bakteríum og gerlum endar að lokum í jarðveginum og jafnvel vatnsbólum manna og dýra. Til hafa orðið nýir stökkbreyttir stofnar af sýklalyfjaþolnum bakteríustofnum sem þrífast ágætlega í dýrum, en sem geta verið stórhættulegir mönnum. M.a. nýir sýklalyfjaþolnir stofnar af E.coli, Salmonellu og Campylobacter sem við hér á landi höfum að mestu leiti verið laus við og sem ber að þakka lítilli sýklalyfjanotkun í landbúnaði og miklu aðgengi að hreinu vatni og landi. Sýklalyfjaþolnar bakteríur geta hins vegar borist auðveldlega til landsins með frosnu kjöti og grænmeti og sem m.a. hefur verið skolað með sóttmenguðu erlendu vatni. Vottun fyrir uppruna og meðhöndlun matvörunnar sem við neytum er því afar þýðingarmikil fyrir neytandann. Karl. G. Kristinson og Franklín Georgsson gera mjög góða grein fyrir þessum málum hér á landi í nýjasta hefti Læknablaðsins sem kom út í gær, „Innflutt fersk matvæli og sýkingaráhætta fyrir menn.“

Á aðeins 3 árum 1989-91 yfirtóku svokallaðir penicillín ónæmir pneumókokkar (lungnabólgubakterían) nefkoksflóru stórs hluta íslenskra barna vegna hagstæðra ytri skilyrða. Stofn sem var upphaflega kenndur við Spán og líklega hefur borist með ferðafólki sem þangað sótti. Stofninn fékk heitið Spænsk-íslenski 6B stofninn og þótti merkilegur á heimsvísu. Aðallega hvað hann var sterkur landnemi hér á landi, jafnframt að vera helsi sýkingarvaldur barna og sem olli flestum erfiðum eyrnabólgum og lungnabólgum meðal þeirra. Hvað hann breiddist fljótt út um alla flóruna okkar og náði bólfestu í allt að helmingi heilbrigðra barna. Svipað getur gerst með annan skyldan kokk og landnema sem er að reyna að hasla sér völl hér á landi eins, Samfélagsmósann svokallaða (Ca-MRSA). Um er að ræða klasakokk (Staph. aureus) sem þrífst í nefinu á okkur flestum og sem veldur flestum algustu sárasýkingunu. Samfélagsmósinn svokallaði er að því leitinu aðeins ólíkur venjulegum klasakokk að hann er algerlega ónæmur fyrir algengum sýklalyfjum eins og penicillínlyfjum og sem annars höfðu virkað vel áður. Aukinn innflutningur á samfélagsmósum, m.a. með frosnu kjöti, getur mögulega gjörbreytt flóru landans hvað þessa kokka áhrærir, svipað og gerðist með frændur hans pneumókokkana og gert þá allar sárasýkingar mikið erfiðari viðfangs. Sum staðar erlendis eru samfélagsmósarnir þegar orsök upp undir helming klasakokkasýkinga, ekki síst hjá íþróttafólki og sem veldur miklum vandræðum.

Danskt svínakjöt (í svínunum sjálfum a.m.k.) er þegar í dag mög sóttmengað af samfélagsmósum vegna mikillar sýklalyfjanotkunar þar í landi um árabil og hafa Norðmenn t.d. nú sett höft á innflutning á dansku svínakjöti. Rannsókn sem var gerð fyrir nokkrum árum sýndi t.d. að danskir svínabændur voru að þriðjungi smitaðir af samfélagsmósunum í nefi. Lítið dæmi sem sýnir glöggt hugsanleg tengsl flóru manna og dýra og sem ég hef gert oft áður grein fyrir í fyrri pistlum,  m.a. „Tollfrjáls innflutningur á sýklalyfjaþolnum samfélagsmósum„.

Aðstæður okkar á Íslandi geta þannig fljótt breyst af ytri aðstæðum, en sem við ráðum samt töluvert um. Bæði hvað varðar hvað við flytjum inn til landsins og svo hvernig við notum sýklalyfin, m.a í landbúnaði. Eins hvernig við verjum okkar búfjárstofna við erlendu smiti dýrasjúkdóma sem borist geta með hrávöru erlendis frá. Íslendingar hafa hingað til átt þann kost að hafa aðgang að bestu og hreinustu matvörum í heimi og sem kom ágætlega fram í fræðsluþætti BBC í fyrrakvöld, „World´s best diet“ og þar sem við skipuðum reyndar fyrsta sætið. Ástæðuna vitum við öll og um gæði lambakjötsins, skyrsins, fisksins og tómatana svo nokkuð sé nefnt. Í dag verðum við hins vegar að standa vaktina og herða eftirlit með sífelt auknum innflutningi allskonar hrávöru erlendis frá og sem borið geta með sér allskonar smitefni. Matvörur sem jafnvel er rætt um að gera tollfrjálsa til að bæta samkeppnisstöðu innflytjenda á íslenskum markaði. Hugsanlegir smitberar meðal ferðafólks fá hins vegar ákveðna meðhöndlun hjá okkur á Bráðamóttöku LSH. Til að verja sjálfa spítalana og tengsl hafa verið nýlega við erlenda sjúkrastofnanir vegna smithættu m.a. í nefi á enn alvarlegri alvarlegri mósum en samfélagsmósarnir eru, svokölluðum spítalamósum (MRSA). Þeir geta valdið alvarlegum spítalasýkingum í skurðsárum sem eru þá ónæmir fyrir flestum sýklalyfjum sem völ er á. Samfélagsmósarnir þótt minna alvarlegir séu, eru hins vegar miklu lúmskari og geta dreifst um allt landið með hráu erlendu kjöti og síðan meðal heilbrigðra einstaklinga. Ef þeir á annað borð fá tækifæri til að taka sér hér bólfestu.

Mörg mál hafa komið upp á síðustu árum beggja vegna Atlantshafs, sem tengjast lífshættulegum matarsýkingum og eitrunum og sem rekja má beint til ólöglegrar slátrunar og slæmrar meðferðar á dýrum og síðar kjötinu. Jafnvel gamalt og illa fengið kjöt, uppfullt af hormónum, lyfjum ásamt öðrum úrgangi sem til fellur. Jafnvel sjálfdauðir stórgripir og gamlir dráttarhestar sem alast hafa upp við slæmar aðstæður og sem síðan er selt er til virtra stórframleiðanda svo sem til FINDUS sem nautakjöt um árið. Eins hestar sem notaðir hafa verið til framleiðslu bóluefna um árabil í Frakklandi, en enda svo stórsteikur á diskum Breta. Traustið á kjötframleiðendum og eftirlitsstofnunum í meginlandinu er því ekki mjög mikið í dag. Það er með ólíkindum að stærstu matvælaframleiðendur Evrópu skulu hafa látið líðast að óvissa sé með hvaðan stór hluti kjötsins sem þeir kaupa til sinnar framleiðslu sé fengið. Að ekkert sé jafnvel vitað um raunverulegan uppruna, tegund eða sláturaðferð dýranna.

Það er ekki bara spurning um hvaða sýklar geta borist með innfluttum matvælum í okkur og dýrin, heldur meira um tækifærið sem þeir fá til að blandast flórunni okkar hægt og bítandi og valdið sýklalyfjaþolnum matareitrunum og sárasýkingum síðar. Eins hvaða eiturefni og lyf berst í okkur með erlendu kjöti, ávöxtum og grænmeti sem lítið er vitað um upprunanna á. Sem þar fyrir utan ber kannski ekki nema helming af uppgefnum næringargildum vegna ólífrænnar ræktunar, rotvarna og aðferða sérsniðina fyrir útflutning til lands eins og okkar Baktus bróðir.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn