Miðvikudagur 17.06.2015 - 09:26 - FB ummæli ()

Spítalaheilbrigðið og fólkið

betri staður

Ég er læknir og hef starfað sem slíkur á höfuðborgarsvæðinu, lengst af í Hafnarfirði, sl. þrjá áratugi, en bý í Mosfellsbæ. Ég lít á allt höfuðborgarsvæðið sem mitt atvinnusvæði. Mér er mjög annt um heilbrigði og hef sinnt sjúklingunum mínum á heimilum, heilsugæslustöðvum og á heilbrigðisstofnunum (aðallega Bráðamótöku LSH í Fossvogi) gegnum árin, auk þess að sinna gæðaþróunar- og rannsóknarvinnu í lýðheilsufræðum og skrifum því tengdu. Sjúklingurinn í myndlíkingu getur hins vegar alveg eins verið kerfið sjálft sem þú vinnur í. Alvarlegir veikleikar hafa a.m.k. verið í skipulagi heilbrigðismála þjóðarinnar um árabil og stjórnsýslan í raun sjúk á mörgum sviðum. Bæta þarf hins vegar heilbrigði landans og sárlega vantar heilbrigðisþjónustu sem byggir á staðreyndum daglegs lífs. Á gólfinu ef svo má líka segja og þar sem reynt er að sinna sjúklingum á jafnréttisgrundvelli. Endalausar baráttur hef ég hins vegar átt við vindmillur kerfisins og sem virðast úr takt við raunveruleikann. Eins og við sjáum nú vel í undirbúningi byggingu Nýs Landspítala við Hringbraut. Fyrirhugað bruðl með almannafé á rangri byggingu á vitlausum stað.

Öll gæðaþróun í heilbrigðisþjónustunni hefur átt erfitt uppdráttar og nú er farið að hrynja undan áratuga uppbyggingu. Þar má nefna hrun undan sjálfri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og sem ég yfirgaf fyrir tæpu ári eftir 25 ára starf, enda alls ekki skipsstjórinn á því fleygi og vildi ekki verða síðastur frá borði. Taldi mig einfaldlega ekki getað lengur unnið að úrlausnum skjólstæðinga minna eins og alþjóðlegir staðlar og vestræn nútímaleg viðmið gera ráð fyrir. Langvarandi yfirálag er hins vegar á bráðaþjónustur og skyndivöktum hverskonar og þar sem ég tel mig koma að meira gagni. Landspítalinn hefur sl. áratug verið í fjársvelti og ekki veriði hirt um nauðsynlega endurnýjun og tækjakost. Lokaðar hafa verið vel starfandi sjúkrahúseiningar eins og á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, vöntun er samt á sjúkrarýmum fyrir aldraða og viðvarandi ólag á öldrunarþjónustunni. Heilbrigðisyfirvöld eru fyrst núna að viðurkenna með dræmingi að við erum fallin niður um flokka í gæðum þjónustunnar miðað við nágranalöndin, og jafnvel þótt sumir stjórnmálmenn vilji enn miða gæði heilbrigðiskerfisins eingöngu út frá fæðingardánartíðni og meðaldánaraldri þjóðarinnar í ræðum á hátíðisdögum og sem tekur lengri tíma að breyta. Stefnt er hins vegar að aukinni einkavæðingu á flestum sviðum og sem leysir aðeins vanda þeirra sem mestan eiga auðinn. Eitt að því síðasta sem nú stendur eftir í „glæstri“ sjálfsmynd okkar er samt sjálft háskólasjúkrahúsið, Landspítalinn og sem er mér enn afar kært. Minn vinnustaður í fjóra áratugi og sem mér er alls ekki sama hvað verður um.

Heilbrigða skynsemi sem maður telur, hlýtur maður að mega að eiga og sem ætti að vera vert fyrir aðra að hlusta á varðandi framtíðaruppbyggingaráformum spítalans. Nýr sameinaður Landspítali við Hringbraut og þar sem framkvæmdir eru að hefjast við uppbyggingu á, er stór og kostnaðarsöm framkvæmd sem nýtast verður þjóðinni sem best nánast fram á næstu öld, en sem mér finnst vitlaus í veigamestu atriðunum, hvað sjálfa staðsetninguna varðar og bútasauminn. Staðarvalið tengist einnig eigin skipulagsmálum Reykjavíkurborgar og sem er kolvitlaust í veigamestum atriðunum er varðar allt höfuðborgarsvæðið og landið. Atriði sem nýstofnuð „Samtök um betri spítala á betri stað“ (SBSBS) hafa gert vel grein fyrir. Á síðustu stundu ef svo má segja áður en allt verður of seint en sem margir hafa bent á áður. Sl. 6 ár hef ég tjáð mig um málið eins og margir aðrir, en aldrei orðið var við að mark hafi verið tekið á þeim sjónarmiðum hjá stjórnvöldum.

reykjavik

Innan græna svæðisins búa um 70 þúsund manns. Kortið sýnir annars vegar 15 mínútna göngufjarlægð og hins vegar 15 mínútna hjólafjarlægð frá þungamiðju Reykjavíkur. Þungamiðja búsetu er eilítið austar. Með tilliti til samgangna er hagkvæmast fyrir íbúana að vinnustaður þeirra sé sem næst miðju þessa svæðis. (Úr Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030)

Umræðan hjá SBSBS sl. vikur er í raun nauðvörn samfélagsins sem forða vilja þjóðinni frá stórkostlegum mistökum eða jafnvel meinloku 21. aldarinnar eins og ég hef kallað áformin áður. Komið hafa skýr rök fyrir að endurskoða þurfi sjálft staðarvalið a.m.k. að nýju, en ekki að nýja spítalabyggingu bráðvanti ekki og flestir eru sammál um. Reiknað hefur verið út og þeir reikningar endurskoðaðir af KPMG að byggingaráformin nú á „vitlausum“ stað við Hringbraut geti kostað þjóðina tvöfaldan þann kostnað sem kostar að byggja sjálfar byggingarnar við Hringbraut og þegar allt er reiknað með. Óreiknað eru ýmsar aðrar nauðsynlegar umferðaframkvæmdir, Lélegt aðgengi við sjúkraflutninga, þyrlusjúkraflug, mengun í óþarfa akstri, auk þess mikla óhagræðis sem verður fyrir starfsemi gamla sjúkrahússins, sjúklingana og borgarbúa almennt, meðan meðan á framkvæmdunum stendur.

Rúmlega 5000 manns eru í dag stuðningsaðilar SBSBS og sem vilja heildarendurskoðun málsins eins fljótt og verða má. Álitlegur hópur sem vel er þess virði að hlustað sé á og komið hafa með tillögur hvernig flýta megi undirbúningi með nýju staðarvali. Margir þar fagmenn, hver á sínu sviði. Mikill meirihluti lækna (>85%) hefur eins verið á móti staðavalinu við Hringbraut sl. ár og þeir ásamt öðru heilbrigðisstarfsfólki e.t.v. sem best þekkja til. Það er í raun með ólíkindum að sjá í raun hvað svona rándýr ríkisframkvæmd (sú dýrasta í Íslandsögunni) er í raun illa undirbúin. Síðasta nefndarálit ríkisins um nýjan Landspítala frá 2007-2009 um fasteignamat og kostnað framkvæmda, átti að vera lokaendurmat áður en framkvæmdir hæfust og sem þrír velferðarráðherrar hafa mikið vitnað til. Áliti um staðarvalið var hins vegar stungið undir stól þegar vorið 2008, tæpl. ári áður en nefndin var leyst upp. Nær eingöngu var þar um að ræða um endurtekna úrdrætti á fyrri skýrslum að ræða. Heilar fjórar A4 blaðsíður með 3-4 vegakortum frá Vegagerðinni. Álit sem sennilega var of illa unnið til að flagga opinberlega. Vel á annað hundrað milljarðakróna verkefni er nú í húfi, stærsta einstaka ríkisbyggingarverkefni Íslandssögunnar en sem virðist eiga að byggjast á sandi, eða skulum við segja í dós.

stofnar

Meðfylgjandi kort er úr Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040 en það sýnir fyrirhugaða legu megin stofnvega á höfðborgarsvæðinu til þess tíma. „Besti staður“ fyrir spítalann er greinilega þar sem þessir aðal stofnvegir mætast.

Í fáum skipulagsferlum heilbrigðismála hef ég eins orðið vitni af jafnmikilli þöggun meðal starfsmanna Landspítala og lækna almennt og í þessu máli. Þöggun sem á rætur að rekja til sameiningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu um aldarmótin og þar sem stjórnendur gamla Landspítalans vildu ráða mestu. Síðar yfirstjórnir sameinaðs Landspítala og Háskóla Íslands, en aðrir aldrei spurðir álits. Vissulega voru ákveðin rök um nálægð við Háskólans þung í byrjun, en margt hefur breyst á tækniöld, og skólarnir sannarlega líka. Stjórnmálmenn og ráðherrar hafa hins vegar alla tíð látið heilaþvo sig í heilbrigðis- og velferðarráðuneytinu af einsleitum rökum, aðallega hvað staðsetningin væri mikilvæg Háskólanum í Vatnsmýrinni og öfugt. Reykjavíkurborg hefur lagt sína eigin fjárhagslegu hagsmuni fram yfir hag íbúa höfuðborgarsvæðisins í þessu máli og raunar landsþegna allra. Umræða sem litast af fégræðgi, enda um stærsta vinnustað landsins að tefla og sem virðist af umræðunni að dæma vera hrædd um að missa vinnustaðinn út fyrir borgarmörkin, sé farið að vagga bátnum á annað borð. Önnur rök og sem nú eru rædd hjá SBSBS hafa í raun aldrei fengið að komast að. Svo virðist sem flestir stjórnmálaflokkar hafi bundist þagnareyði að hreyfa heldur ekki við málinu, enda flestir innblandaðir í allar ákvarðanir sl. tvo áratugi. Umræðunni hefur heldur ekki verið hleypt til fjölmiðla og fjölmiðlar áhugalitlir. Ríkisfjölmiðlarnir á RÚV hafa þar verið hvað verstir, en sem eiga auðvitað að vera bestir þegar um slíkar umdeildar ríkisframkvæmdir er að ræða og sem vitað er að alls ekki er samstaða um með þjóðarinnar.

Byggingaráformin á Nýjum Landspítala við Hringbraut eru helsjúk. Minnir á geimveru sem er að reyna að endurfæðast út úr sjálfum sér á Hringbrautinni til að geta orðið eilíf. Það ætti flestum ólæknismenntuðum að vera nokkuð ljóst og sem kynna sér málið. Þjóðin (læknirinn) þarf að vitja sjúklingsins strax og sem er að því er virðist veruleikafyrtur (tekur ekki tiltali). Afkvæmið hans er þegar komið á vergang, en sem þarf á öruggum stað að halda sem fyrst, Nýjan Landspítala á betri stað. Hlúum að sjúklinginum nú með bráðaaðgerðum, fjölgun leguplássa og bættum mannauð í heilbrigðiskerfinu. Skoðum strax mögulega framtíðarbúsetu fyrir afkvæmið svo það verði ekki vargfuglunum að bráð. – Gleðilega þjóhátíð og bestu afmæliskveðjur sonur sæll.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn