Fyrir helgina átti ég leið framhjá Grábrók í Norðurárdal á leið minni norður á Strandir og ákvað þá að stoppa við og teygja aðeins úr mér enda gott veður. Norðan Stórubrókar blasti við mér í lok gönguferðarinnar forn fjárrétt. Rétt sem er friðlýst eins og allt Grábrókarsvæðið. Sannkölluð náttúruperla fyrir okkur og börn framtíðarinnar að njóta og þar sem nútímasamfélagið hefur lyft Grettistaki með lagningu trétrappa um alla öskjuna til að auðvelda að henni aðgang og verja hana gegn óþarfa ágangi.
Gamla-Brekkurétt eins og réttin heitir, er fagurt mannvirki þótt lítil sé. Mikilfengleikinn er hvað hún fellur vel inn í umhverfið og í hraunið. Þarft mannvirki á sínum tíma til að greina óreiðuna eftir smölun á haustin. Þegar bændurnir drógu sjálfir fé sitt í dilka og komust að samkomulagi hvert var fé hvers.
Flestir undu þeir vel við sitt að lokum. Í dag eru flestar ákvarðanir miklu flóknari í samfélaginu og ekki eins sjálfsagðar, ekki síst hjá því opinbera þar sem glundroðinn ríður oft fjöllum. Flokkslínur eru enda loðnar og ákvarðanir litast stundum af hentisemi eða gömlum þverpólitískum loforðum eldri stjórnmálamanna og sem eru fyrir löngu orðnar úrheldar. Oft eins og kaup kaups á eldri gæluverkefnum þótt um stærstu ríkisframkvæmdirnar sé að ræða. Bæjarfélög eins og sjálf höfuðborgin setur síðan jafnvel ríkinu afarkosti til að gæta sinna persónulega hagsmuna, svo sem gegn verndun fornminja og í uppbyggingu nauðsynlegustu þjónustustofnana eins og nýjum þjóðarspítala.
Þetta mál með spítalann okkar kom upp í hugann á henni Grábrók og þegar ég horfði á Gömlu-Brekkuréttina og hugsaði til forfeðranna. Nú nær tveggja áratuga brýn þörf á nýju og nútímalegu þjóðarsjúkrahúsi í stað þess gamla sem þjónaði okkur svo vel á síðustu öld. Þar sem loks á að hefjast handa með hugmyndum um bútasaum við gamla spítalann í stað þess að byggja nýtt og betra sjúkrahús á betri stað sem þjónað getur okkur mikið betur og kostað mikið minna þegar upp er staðið og reiknað hefur verið út. Ekki þó með fyrirhuguðum smáskammtalækningum fjárveitingavaldsins eins og gert er ráð fyrir, heldur nauðsynlegum föstum fjárlögum.
Eins varð mér hugsað til þess að þjóðin sjálf hafi dregið illa í rétta dilka í síðustu kosningum varðandi alþingismennina okkar sem nú sitja á Alþingi og sem margir vilja hlutkastast með heilbrigðiskerfið okkar af hentisemi og jafnvel einkavæða. Vilja þannig spara í nauðsynlegum ríkisrekstri, m.a. í framkvæmdum við nýtt og betra sjúkrahús allra landsmanna, á bullandi hagsældartímum þjóðarinnar. Að minnsta kosti miðað við það sem áður þekktist fyrir rúmri öld síðan og sem þótti þá sjálfsagður hlutur og var efst á forgangslistanum. Nú með framtíðarsjúkrahúsið okkar þar sem greina á sjúklinga líka í rétta dilka, lækna síðan og hjúkra það sem eftir er aldar.