Föstudagur 17.06.2016 - 07:07 - FB ummæli ()

Eins og síld í tunnu – Nýi þjóðarspítalinn við Hringbraut!

 

lsh

 

Við Íslendingar erum svo lánsamir að vera fámenn en rík eyþjóð í miðju Atlantshafi með nóg og gott landrými til íbúabyggðar um nær alla strandlengjuna. Eins og verið hefur í um þúsund ár þrátt fyrir allskonar harðindi á köflum. Höfuðborgarsvæðið hefur byggst upp sem höfuðborg alls landsins og þjónað því lengst af vel í samspili við öfluga byggðarstefnu um landið allt. Þangað sem allra leiðir hafa leigið þegar mestrar þjónustu er þörf.

Nú er þar skarð fyrir skildi og eins og verið sé að vinna að borgríki í miðbæ höfuðborgarinnar fyrir hagsmunaaðila sem vilja ekki sjá út fyrir 101 Reykjavík. Fyrirséðar miklar skerðingar á umferðarsamgöngum inn í miðborgina, af landi sem úr lofti. Meðal annars að nýja þjóðarsjúkrahúsinu okkar og sem byggja á, á versta stað á aðþrengdri Hringbrautarlóðinni þegar lífið sjálft liggur við. Heimsborgarsýnar borgarstjórnar á heimsmælikvarða og sumir skipulagsfræðingar vilja kalla mikilmennskubrjálæði sem samsvarar helst uppbyggingu höfuðborga á þéttbýlustu svæðum veraldar. Á stöðum þar sem möguleikar til annarra uppbyggingar eru kannski engir. Þar sem við fáum ekki lengur að elta atvinnutækifærin, heldur atvinnutækifærin okkur, m.a. nú á stærsta og sérhæfðasta vinnustað landsins, Nýjum Landspítala. Hiklaust á að fórna möguleikum samspils íslenskrar náttúru við íbúa- og spítalabyggð. Stappþéttingu byggðar m.a. með brottnámi flugvallarins í Vatnsmýrinni og sem alltaf var ein aðal forsenda staðarvals byggingaáforma spítalans um síðustu aldarmót. Allt til ársins 2012 að þeirri forsendu var skyndilega kippt út. Eins nú hótelbygginga um allan miðbæinn og eins og að aðrir kostir í nágrannabyggðum séu útilokaðir. Í raun græðgisvæðing borgarstjórnarmeirihluta stjórnmálaflokks sem vildi kenna sig við samfylkingaröfl alþýðunnar á landsvísu! Í dag er höfuðborgarsvæðið allt auðvitað svo miklu meira en bara „gamli miðbærinn í Reykjavík“ og sem getur munað fífil sinn svo miklu fegri.

Samtök um betri spítala á betri stað (SBSBS) hafa skorað á stjórnvöld og stjórnmálasamtök sl. ár að endurskoða fyrri ákvörðun um byggingu Nýs Landspítala við Hringbraut og finna honum betri stað, góðan stað á sem skemmstum tíma. Nú tengt alþingiskosningunum í haust. Byggingaframkvæmdir á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni setur málið nú í enn meiri forgang en áður og þegar allir vankantar eru orðnir miklu augljósari. Hér fyrir neðan er nýleg sameiginleg ályktun SBSBS og sem er birt í tilefni af degi okkar allra.

Við ákvörðun um staðsetningu sameinaðs spítala um síðustu aldamót þótti valið standa á milli Landspítala við Hringbraut og Borgarspítala. Erlendir ráðgjafar kusu Fossvoginn, en áhrifamönnum á Hringbraut hugnaðist það ekki og fengu því hnekkt. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og rökin standa nú til þess að byggja nýjan spítala á betri stað.
Heildarkostnaður er 50-100 milljörðum króna lægri
Nettó fjárfesting, að teknu tillit til betri nýtingar húsnæðis, söluverðmætis eigna sem losna og minni gatnaframkvæmda er um 20 milljörðum kr. lægri ef byggður er nýr spítali frá grunni.
Rekstrarkostnaður verður um 500 milljónum á ári lægri því það er ódýrara að reka spítalann í betra húsnæði og ferðakostnaður notenda ef spítalinn verður nær þungamiðju byggðar. Núvirt gerir þessi tala um 20 milljarða kr.
Samtals er ofangreindur hagur af því að byggja nýjan og betri spítala á betri stað 40 milljarða kr.
Ef nýr spítali verður einnig nær þungamiðju byggðar, en Hringbrautin er, þar sem ferðir til og frá spítalanum verða um 9.000 á sólarhring og þar sem hver kílómetri sem ferðin styttist sparar um 1 milljarð króna á ári gæti viðbótar sparnaður orðið allt að 60 milljarðar króna núvirði.

Það er tafsamara að byggja við Hringbraut en á aðgengilegu svæði.

imageTímaáætlun NLSH ohf. fyrir nýbyggingar við Hringbraut nær til 2023, sjá mynd. Endurgerð gömlu bygginganna er talin um 6 ár, sem kann að tefjast. Nýr spítali við Hringbraut verður því í fyrsta lagi tilbúinn 2027.
Samkvæmt áætlunum sérfræðinga SBSBS getur nýr spítali á nýjum stað verið tilbúinn árið 2025. Þó gerð faglegs staðarvals og nýr undirbúningur taki tíma, vinnst það upp með meiri framkvæmdahraða á betri aðgengilegri stað þar sem minni truflun er af byggingarframkvæmdunum.
Gæði nýs spítala eru meiri og öryggi sjúklinga tryggara
Nýr spítali á betri stað verður betri spítali og það mun bjarga mörgum mannslífum og bæta önnur. Í því sambandi skiptir miklu að sem flestir eigi stutta, greiða leið að spítalanum.
Það verða um 9000 ferðir að og annað eins frá spítalanum á sólarhring eftir sameiningu, enda starfsmenn um 5000.
Um 100 sjúkrabílar og allt að 200 í toppum munu koma að spítalanum á sólarhring.
Vænlegastir staðir fyrir spítalann liggja við meginstofnbrautir, sjá teikningu. Til að finna besta stað þarf faglega staðarvalsgreiningu, sjá neðar.
Aðflugsskilyrði sjúkraþyrlna skipta mjög miklu. Með góðri aðkomu verður hægt að nota svipaðar þyrlur og nú eru notaðar, en á Hringbraut er gert ráð fyrir þyrlupalli á þak spítalans, sem þýðir 2-3 sinnum dýrari þyrlur og minna öryggi.

Fagleg staðarvalsgreining og endanleg ákvörðun.
Til að gera faglega staðarvalsgreiningu þarf óháða fagmenn svo sem skipulagsfræðinga, sjúkraflutningamenn, þyrluflugmenn, verkfræðinga, viðskiptafræðinga, umferðarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk. Fagfólkinu yrði falið að gera úttekt á mögulegum staðsetningum á út frá fjárhags-, gæða-, ferða- og umferðar-, öryggismálum og svo framvegis.
Niðurstöðurnar ætti að birta með aðgengilegum hætti fyrir allan almenning, þannig að glögglega megi átta sig á hvernig hver staður kemur út á helstu mælikvörðum sem máli skipta.
Endanlegt val milli bestu kosta gæti svo verið Alþingis eða þjóðarinnar í vandaðri skoðanakönnun eða þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því sambandi er mikilvægt að búa þannig um hnútana að um niðurstöðuna verði ekki frekari ágreiningur.

Góðar lausnir geta brúað bilið.
Ef hætt verður við nýjan meðferðakjarna við Hringbraut má grípa til góðra ráðstafana til að brúa bilið.
Að sjálfsögðu þarf að tryggja nægt fjármagn til tækjakaupa og launa. Sjúklingahótelið kemur í gagnið á næsta ári og það mun létta á. Auðvelt er að byggja við sjúkrahúsið í Fossvogi álmu yfir greiningadeild lyflæknissviðs og fyrir legudeildir og nauðsynlegar skrifstofur. Þessar framkvæmdir þurfa ekki að taka nema 2-3 ár, þeim má haga miðað við að notkunin breytist síðar þegar nýr spítali kemur í gagnið. Þetta eru fljótlegar lausnir sem heilbrigðiskerfið þarf hvað mest en auk þess þarf að taka á aðflæðisvanda og fráflæðisvanda heilbrigðiskerfisins það er styrkja heilsugæslu og bæta við langtímalausnum fyrir aldraða.
Mikill meirihluti styður annað og betra staðarval.
Óyggjandi vissa er fyrir því eftir margar viðhorfskannanir að allur almenningur sem og heilbrigðisstarfsmenn styðja nýjan spítala á betri stað í stað klasturs við Hringbraut.

Gleðilega þjóðhátíð

Sjá nánar á:

Nýr Landspítali á betri stað

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn