Nú líður fljótt að næstu alþingiskosningum. Skoðanakannanir sl. ár hafa sýnt að mikill meirihlut landsmanna og starfsmanna Landspítalans telja staðarval nýs spítala slæmt við Hringbraut og vilja fá nýja staðarvalsathugun. Sama vill fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi formaður Framsóknaflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Nokkrir staðir hafa þegar verið nefndir sem álitlegur kostur, einkum Vífilstaðir. Píratar og Dögun hafa samþykkt að slík athugun ætti að fara fram. Tæplega 9000 Íslendingar hafa einnig stutt málstaðinn á facebókarsíðu Samtaka um betri spítala á betri stað (SBSBS).
Hræðsluáróður fyrir ágæti Hringbrautarframkvæmdanna nær hins vegar stöðugt nýjum hæðum meðal stjórnvalda, einkum nú að ný athugun dragi of mikið á langinn að nýr spítali rísi. Samt er það svo að sýnt hefur verið fram á að svo þurfi alls ekki að vera og getur reyndar verið fullbúinn miklu fyrr ef byggt er á opnu landi frá grunni. Aðrar þjóðir hafa reist álíka stóra spítala og nýr Landspítali á að verða (um 140.000 fm2) á 7-8 árum með undirbúningstíma og það fyrir minna fé en framkvæmdir munu kosta að lokum á Hringbraut (80.000 fm. í nýbyggingum, þar af um 60.000 í nýjum meðferðakjarna sem ekki á að verða lokið fyrr en 2023-2024, og síðan endurnýjun á gamla og oft illa farna og skemmda húsnæðinu, um 60.000 fm. ekki fyrr en um 2030).
Miklu meira hagræði í alla staði er að byggja nýjan spítala á betri stað frá grunni og sem mætt getur öllum kröfum um vel útbúið nútímasjúkrahús. Minni rekstrarkostnaður gæti hugsanlega borgað niður nýbyggingalánskostnað á besta stað á 40 árum miðað við 60-70 milljarða árlega fjárveitingu til starfsem spítalans og nú er reiknað. Betra staðarval getur sparað þjóðfélaginu óþægindi og kostnað við allt að 9000 of langar akstursferðir á dag auk nauðsynlegra umferðamannvirkjaframkvæmda. Gríðarlegt ónæði sjúklinga, starfsfólks og íbúa Þingholta og nágrennis af niðurbroti og jarðvinnu ásamt flutningi á hundruð þúsunda tonna af grjóti og byggingarefnum gegnum miðbæinn má einnig fyrirbyggja og sem gæfi starfseminni nú á Landspítala við Hringbraut og í Fossvogi þann frið sem hún þarf, ásamt ódýrum bráðabirgðarlausnum í framkvæmdum, svo sem í Fossvogi með viðbótar legudeildum (t.d. viðbyggingu við núverandi bráðamóttöku fyrir 3-5 daga lyflæknalegudeild).
Aðgengi fyrir sjúkraflutninga í umferðinni verður miklu betra á miðlægum stað höfuðborgarsvæðisins alls, óháð staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Eins aðgengi sjúkraþyrluflugs sem á eftir að aukast mikið á komandi árum og sem er alls ófullnægjandi á þröngri Hringbrautarlóðinni og fyrirhugað er nú. Byggja má eins nýtt og betra húsnæði fyrir heilbrigðisvísindi HÍ á betri stað með næga stækkunarmöguleika fyrir framtíðina. Nálægð Hringbrautarlóðar við aðalbyggingu HÍ og DeCode í Vatnsmýrinni eru auðvitað veigalítil rök fyrir staðarvali spítalans. Miklu frekar græðandi umhverfi (helende medicine) sem mikið er lagt upp úr í hönnun nútímalegra spítala í dag og sem nágrannaþjóðir okkar leggja mikla áherslu á eins og t.d. Danir. Þar sem náttúran og rólegt umhverfi spilar veigmikið hlutverk í batanum, en ekki bara Laugavegurinn, Skólavörðuholtið og kaffihúsin hans Dags.
Aðeins það helsta hefur verið talið upp og sem mælir með að strax fari fram ný staðarvalsathugun á nýjum þjóðarspítala og sem Alþingi verður að ákveða. Forða má ennþá þjóðinni frá e.t.v. mestu og dýrustu mistökum sögunnar og sem virðist „föst“ vegna ártugagamalla ákvarðana og fóstbræðrablóðbanda gömlu stjórnmálaforingjanna frá því um aldarmótin og sem var alla tíð illa undirbúin. Skömmin er enn meiri í dag þar sem áhrifamiklir stjórnmálamenn og ríkisfjölmiðillinn (RÚV), sem virðast undir hælunum á sumum, neyta að horfast í augu við staðreyndir málsins eða hafa vilja til að ræða málin frekar. Þöggunin sé besta leiðin til að halda bara áfram. Á framkvæmd sem ekki er bara óörugg, heldur endast mun illa og kostað getur okkur allt að hundruð milljarða króna meira (framkvæmda-, og rekstrarkostnaður ásamt ótímabærum úrheldingarkostnaði), en skynsamleg framkvæmd á besta stað. Þjóðarheilsunnar og öryggisins okkar allra vegna og sem enst getur langt inn í framtíðina. Það sem þjóðin væntanlega kýs með atkvæði sínu í komandi alþingiskosningum.