Ég er sérstaklega gáttaður á viðhorfi flestra stjórnmálaflokka, allra nema Framsóknarflokks í dag og Pírata vonandi á morgun, fyrir því augljósasta af öllu varðandi byggingaframkvæmdir nú á Nýjum Landspítala við Hringbraut. Að vilja ekki tryggt öryggisplan B við móttöku sjúkraflutninga utan af landi, landleiðina eða með sjúkraflugi. Hvorki þarna né öðrum rökum Samtaka um betri spítala á besta stað (SBSBS) hafa stjórnvöld viljað ræða og RÚV, ríkisfjölmiðilinn, þögull sem gröfin. Lokun neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar er staðreynd og þegar byrjað að byggja við NA brautarendann, á gömlu Valslóðinni. Samkvæmt byggingaáformum við Nýjan Landspítala er áformað að hafa þyrlupall fyrir eina þyrlu á 5 hæð rannsóknarbyggingar, rétt við sjálfan meðferðarkjarnann og sjá mátti í kynningarriti í Fréttablaðinu í morgun. Byggingaáform sunnan nýju Hringbrautarinnar útilokar síðasta opna svæðið aðlægt Nýjum Landspítala við Hringbraut og þannig öllu mögulegu nauðlendingarsvæði fyrir sjúkraþyrlur sem þangað mundu vilja leita í framtíðinni.
Vegna afleiddra lendingaraðstæðna eru því gerðar kröfur um stórar þyrlur sem geta haldið sér á lofti ef mótorbilun verður í einum mótor. Þyrlur sem eru venjulega allt of stórar og dýrar fyrir venjulega sjúkraflutninga og sem geta engu að síður skapað stórhættu við erfið skilyrði og aðrar bilanir. Allir geta séð fyrir sér hvaða áhættu þetta ber með sér fyrir íbúabyggðina í Þingholtum og nýjum byggingarsvæðum við Hlíðarenda sem og á gömlu Valslóðinni. Að ekki sé talað um spítalann sjálfan og meðferðarkjarnann. Ekkert öryggisplan B þannig eins og reyndar fyrir venjulegar sjúkraflugvélar í dag í slæmum veðurskilyrðum á sjálfum Reykjavíkurflugvelli með lokun neyðarbrautar og sem verður jafnvel allur látinn víkja í framtíðinni. Mál sem m.a. rædd voru við mig fyrir helgi, Í bítinu.
Nálægð við Reykjavíkurflugvöll var alltaf ein af aðalforsendum fyrir staðarvali nýs þjóðarsjúkrahúss við Hringbraut rétt um síðustu aldarmót, ásamt nauðsynlegum samgöngubótum og umferðarmannvirkjum (Miklubraut í tvöfaldan stokk og nýja stofnbraut við Hlíðarfót) til að tryggja góðan aðgang að sjúkrahúsinu. Þessum tveimur af þremur aðalforsendum fyrir staðarvali spítalans var kippt út með nýju deiliskipulagi Reykjavíkurborgar 2012 sem vildi nýta lóðirnar og Vatnsmýrina fyrir íbúabyggð. Öllum aðalforsendunum þannig nema nálægðinni við aðalbyggingu HÍ. Allir vita hins vegar hvernig umferðin vestur í miðbæ Reykjavíkur gengur fyrir sig á daginn úr austurborginni, hvað þá hvernig hún á eftir að þróast í náinni framtíð og þegar framkvæmdir aukast margfalt á miðbæjarsvæðinu og keyra þarf nú burt hundruð þúsundunda kílóa af klöpp sem á eftir að sprengja fyrir nýjum meðferðarkjarna í Þingholtunum. Þegar sjúkraflutningar landleiðina teppast einnig og hver mínúta getur skipt máli milli lífs og dauða.
Þegar er mikil aukning á sjúkraflugi utan að landi sem nálgast 1000 á ári. Þyrlusjúkraflugin ein og sér nálgast 300 og með stöðugt auknum ferðamannastraumi á næstu árum má reikna með að sjúkraþyrluflugin á háskólasjúkrahúsið og eina hátæknibráðamóttöku landsins verði allt að 2-3 á dag. Hver klukkustund skiptir miklu máli þegar flytja þarf alvarlega veikan eða stórslasaðan einstakling langar vegalengdir. Fjlöga þyrfti því léttari sjúkraþyrlum og helst að hafa þær til taks í öllum landsfjórðungum og sem þegar er farið að skipuleggja á Suðurlandi. Slíkar þyrlur mega hins vegar ekki lenda við háskólasjúkrahúsið nýja á Hringbraut eins og áður sagði. Eins þyrfti að tryggja betra viðhald flugvalla til sjúkraflugs og sem nú eru víða látnir drappast niður. Ófá dæmi er um margra klukkustunda keyrslu í sjúkrabílum með alvarlega veika sjúklinga utan af landi, einkum af Vesturlandi að meðtöldum Vestfjörðum og Norðvesturlandi. Jafnvel daglega. Stjórnmálaöfl sem vinna gegn öllum þessum markmiðum um að gera sjúkraflutninga öruggari, á besta og fljótlegasta máta til vel staðsetts spítala sem á að geta tekið á móti sjúklingum á sem bestan máta, vinna í raun gegn almannahagsmunum og sem reynir stundum mest á í lífi sumra.
Jæja, ættum við ekki að fara að kjósa um vel staðsettan þjóðarspítala og lágmarks öryggi sjúkraflutninga utan og innan höfuðborgarmarkanna? Okkur er ekki sama um stöðnun spítalaþjónustunnar, bara af því að henni er nú valin slæmur staður. Miklu dýrari auk þess þegar upp verður staðið eftir áratuginn (munur sem hefur verið reiknaður allt að 100 milljörðum króna hjá SBSBS á yfir 20 árum). Og hugsið ykkur allt óhagræðið og ónæðið á framkvæmdatímanum næsta áratuginn. Eins kostnað þjóðfélagsins vegna sífeldrar umferðateppu, miklu dýrara nýtt spítalalagnakerfi og skolplagnir í gömlu rótgrónu hverfi auk síðan nauðsynlegs dýrari þyrlukosts sem sem krafist er fyrir allt að tugi milljarða króna og sem getur auk þess skapað óþarfa stórhættu á lendingarstað við þjóðarsjúkrahúsið nýja.
Ætla flestir stjórnmálflokkar aðrir en Framsókn og kannski Píratar virkilega að mála sig út í horn hvað þessi mikilvægu og augljósu mál varðar og sem er mest Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki um að kenna og sem gert hafa allt sem þeir geta til að heilaþvo þjóðina sl. 2-3 ár vegna „einkennilegra“ hagsmuna. Kosta jafnvel til áróðursins nú gegn málstað Samtöka um Betri spítala á besta stað og sem er félaust áhugamannafélag, án nokkra persónulegra hagsmunatengsla, með útgáfu sérblaðs með Fréttablaðinu í morgun fyrir 1-2 milljónir króna á að giska og sem tekið er af almannafé. Af fé fólksins sem flestar skoðanakannanir sýna að um allt að 70% vilja allt annan stað en Hringbrautina. Stjórnvöld hafa aðeins verin beðin um að láta gera nýja óháða staðarvalsathugun enda slík athugun aldrei verið gerð og margt breyst á 20 árum. Óháða hagsmunum 101 Reykjavíkurborgar nú og annarra hagsmunaaðila fyrir Hringbrautarframkvæmdina og flestir sjá að er stórgölluð. Dýrustu ríkisframkvæmd Íslandssögunnar og allt er talið með. En því miður virðast flest stjórnmálaöflin halda áfram á berja hausnum við Hringbrautarklöppina og sem á eftir að sprengja.