Föstudagur 28.07.2017 - 00:53 - FB ummæli ()

Lyfjaskorturinn og hin ógnvænlega þróun

Nú mætti af fyrirsögninni halda að verið væri að fara með ýkjur. Nokkur dæmi hafa reyndar komið upp þar sem ekki hefur fengist nauðsynleg lyf fyrir einstaka einstaklinga, vegna kostnaðar og þá oftast um að ræða svokölluð spítalalyf eða undanþágulyf á almennum markaði. Nei hér og nú ætla ég að ræða um algengustu lífsbjargandi lyfin sem gagnast flestum, oft líka þau ódýrustu og afleiðingarnar fyrir þjóðfélagið þegar þau vantar og sem auðvitað er á ábyrgð stjórnvalda.

Sl. mánuð hefur ekki fengist algengasta og þröngvirkasta lyfið við klasakokkasýkingum (S. aureus). Algengasta sýkingarvaldi mannkyns, t.d. varðandi húðsýkingar, sýkingum tengt aðskotahlutum í húð eða sýkingum í brjóstum kvenna. Nánar tiltekið Staklox (dicloxacillín). Læknar hafa því þurft að notast við breiðvirkari lyf sem gagnast síður við einfaldar og næmar sýkingar. Þannig einstaklingi jafnvel til tjóns eða til seinkaðs bata og sem stuðlar síðan að vaxandi þróun sýklalyfjaónæmis og dreifingu sýklalyfjaónæmra sýkingarvalda. Eins annarra en sjálfra klasakokkanna.

Nú er þetta svo sem ekki einstakt tilvik. Endurtekið vantar lyf sem stundum ekkert lyf kemur í staðinn fyrir. Oftar þó að nota má mikið sterkari og dýrari lyf. Hér nefni ég bara lyf í flokki sýklalyfja, en svipað á við um aðra lyfjaflokka. Í næstum ár fyrir 3 árum fékkst ekki algeng sýklalyfjablanda, amoxicillin í mixtúruformi fyrir börn. Notast þurfti því við sterkari lyfjablöndur og sem stuðla að þróun og dreifingu sýklalyfjaónæmra stofna meðal barna og sem geta m.a. valdið alvarlegustu eyrnabólgunum og lungnabólgunum. Augmentin og Zitromax nánar tiltekið.

Árið 2009 skrifaði ég um lyfjaskortinn í landinu. Að hluta mátti kannski kenna þá hruninu um. Ekki í dag og sagan er samt söm við sig og síst skárri. Algengust augndropar við sýkingum í augum, einkum barna, fengust ekki í nokkra mánuði í vetur. Notast varð við miklu sterkari augndropa í staðinn. Skortur (alger vöntun) sem oftast skellur á án fyrirvara og þar sem innflytjendur eða framleiðendur standa sig ekki í stykkinu og ónógar langtímabyrgðir til í landinu. Lyfjastofnun ber fyrst og fremst ábyrgð á skráningu og sölu lyfja, ekki innflutningi og vísar ábyrgðinni frá sér. Ábyrgðin hlýtur því að vera alþingis, heilbrigðisyfirvalda (ráðherra) og landlæknis. Með núverandi lögum um frjálsa sölu og innflutning lyfja í apótekum með skilyrðum svo sem skráningu og lyfseðalskyldu. Markaðurinn síðan bara látinn ráða ferðinni.

Vandamálið er sérstaklega alvarlegra hvað sýklalyfin varðar og þar sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) leggur ríka áherslu á skynsamlega notkun sýklalyfja meðal manna og til notkunar í landbúnaði. Mælst er til að nota ávalt þröngvirkustu lyf sem völ er á, á réttum forsendum, til að sporna gegn alvarlegust heilbrigðisvá samtímans að þeirra mati og flestra sem til þekkja. Sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda okkar og þar sem útlit er fyrir að lyfin, jafnvel breiðvirkustu sýklalyfin virki ekki lengur og nýlega var í fréttum tengt meðhöndluna á lekanda erlendis. Það hlýtur því að skjóta skökku við að læknum á Íslandi sé ekki gefinn kostur á að nota rétt lyf, heldur „breiðvirkari lyf“ sem virka stundum síður á næmustu stofnana og sem stuðlar þannig að hraðari þróun og dreifingu sýklalyfjaónæmra stofna út í samfélagið.

Að lokum. Það er ekki nema rúm hálf öld síðan sýklalyf fóru að vera aðgengileg og í raun ekki fyrr en í seinni heimstyrjöldinni sem þau voru verksmiðjuframleidd, þá fyrst fyrir hermenn bandamanna okkar. Eitt sterkasta vopnið í heimsvánni á þeim tíma. Rúmlega tíu árum fyrr hafði Alexander Fleming tekist að einangra penicillín úr sveppaskánum og er uppgötvuninni oft líkt við stærsta kraftaverk læknisfræðinnar og sem átti síðar eftir að lengja meðalaldur mannkyns um áratugi. Eftir mikið streð og tíma tókst Alexander í fyrstu að einangra 2 grömm af hreinu penicillíni og sem jafngildir í dag tveimur töflum sem oft eru gefnar t.d. við streptókokkahálsbólgu. Það vildi svo til að bresk yfirvöld leituðu til hans vegna lögregluþjóns sem var deyjandi af sýkingum í sárum sem hann hafði fengið eftir hundaárás í London. Alexander lét penicillínið sitt af hendi og dreifði því í nokkra skammta í æð lögreglumannsins. Lögreglumaðurinn fékk fljótt skjótan bata á fyrstu 2-3 dögunum, en grömmin tvö nægðu ekki til að klára að ráða niðurlögum sýkingarinnar. Lögreglumanninum hrakað því fljótt aftur og lést af sýktu sárunum. Það var ekki til meira penicillín.

Sagan segir okkur kannski aðeins hversu verðmæt sýklalyfin eru okkur enn í dag og þótt mörg ný sýklalyf hafi verið framleidd síðan, sum af stofni penicillíns, önnur ekki, að þá hafa ný lyf engan veginn unnið upp á móti vanda vaxandi sýklalyfjaónæmis í heiminum sl. áratugi. Því þarf að fara vel með þau og nota ávalt þau þröngvirkustu sem kostur er á í byrjun. Sterkustu vopn læknisfræðinnar ennþá daginn í dag, ekki síst tengt hátæknilæknisþjónustunni á spítölunum, en líka úti í samfélaginu. Og stjórnvöld þurfa að skilja þetta jafnvel og læknarnir og semja lög og reglugerðir rétt svo lyfjamálin standi traustari fótum. A.m.k. til að algengustu lífsnauðsynlegustu lyfin séu til fyrir sem flesta.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn