Laugardagur 29.07.2017 - 16:45 - FB ummæli ()

Kreppta hjálparhöndin þegar mest á reynir!

Fyrir helgi lenti amerísk skúta með 3 mönnum innanborðs í miklum sjávarháska. Fékk á sig brotsjó, snerist og hvolfdi svo mastur brotnaði og skútan fylltist af vatni. Skipsverjar höfðu löngu áður náð að senda út neyðarkall. Leitarflugvél LHG var í útleigu erlendis. Reiða þurfti sig því á hjálp flugmálastofnunar og flugvélar Isavia til leitarinnar. Tókst þeim giftusamlega að miða út skútuna frá neyðarsendingum. Skútan var rúmlega 200 sjómílur SV af landinu og of langt í burtu til að þyrlur LHG gætu náð til hennar. Hún var síðan við að sökkva, stjórnlaus og rafmagnslaus þegar skipsverjum á hafrannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni sem statt var 40 sjómílum frá slysstað tókst að bjarga áhöfninni um 7 tímum eftir slysið og áhöfnin komin í björgunarbáta.

Hér fyrir ofan er mynd af einni af 17 glænýjum AW101 þyrlum norsku strandgæslunnar sem þeir eru nú að fá afhendar, eina af annarri og sem ætlaðar eru m.a. til erfiðari sjúkraflutninga, sérútbúnar fyrir flug norðurslóðum með fullkomnum nauðsynlegum tækjabúnaði til leitar og björgunar. Þær eru með umtalsvert meiri flughraða 277km/klst og hafa flugþol í allt að 7 klst. og þannig langdrægni til flugs allt að 350 sjómílur á haf út og fullkominn afísingabúnað. Tvær slíkar höfðu Íslendingar pantað með Norðmönnum fyrir kreppuna 2008, en hættu síðan við árið 2012 og sem Norðmenn tóku þá pöntunina yfir. Norðmenn reka yfir 20 bækistöðvar fyrir þyrlurnar víðsvegar um allt landið, auk reksturs léttari sjúkraþyrla fyrir styttri flutninga innanlands. Auk þess auðvitað þyrlur sem lögregla og her hefur yfir að ráða.

Hvað ætlum við Íslendingar að trassa lengi nauðsynlega innviðauppbyggingu gagnvart mikilvægustu öryggisþáttum landsins. Heyrst hefur að LHG fái fljótlega þrjár nýlegri þyrlur í stað þeirra þriggja sem nú eru í langtímaleigu. Eingin fjölgun á þyrlukosti þannig hugsuð og hin fullkomna leitarflugvél þeirra, TF-Sif ennþá í útleigu erlendis vegna fjárhagsstöðu og almennra fjárhagsskuldbindinga LHG. Heilbrigðisþjónustan úti á landi hefur nánast verið hin sama sl. áratugi og margir flugvellir lokaðir vegna viðhaldsleysis og því ónothæfir til sjúkraflugs. Fjölgun erlendra ferðamanna teljast í milljónum og þannig  margfaldast sl. ár um land allt sem og umferðarþunginn.

Betur fór en á horfðist um tíma með björgunina í vikunni og eiga þeir sem að henni stóðu hrós skilið. Sennilega hefði hún samt tekið helmingi styttri tíma og verið öruggari á allan hátt ef við hefðum yfir að ráða svipuðum þyrlum og Norðmenn. Er ekki kominn tími til að stjórnvöld láti af kreppustefnu sinni í innviðauppbyggingunni og nýr raunveruleiki blasir við. Gott efnahagsástand en miklu meira álag og óvissa með alla neyðarþjónustu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn