Þriðjudagur 28.11.2017 - 16:47 - FB ummæli ()

Hin tilbúna gerviveröld – sýklabúin og mósar á íhlutum – í okkur og á.

Sennilega gera ekki allir sér grein fyrir þeim tímamótum sem við stöndum frammi fyrir varðandi öryggi sýklalyfjameðferða okkar og fjallað hefur verið um í síðustu pistlum. Sýklalyfjaópnæmi helstu sýkingarvalda okkar er ein helsta heilbrigðisvá nútímans að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO og sem tengist óhóflegri notkun sýklalyfja. Sýklarnir hafa þróað með sér vörn gegn sýklalyfjaþrýstingnum og eru enn að. Í Bandaríkjunum til að mynda eru um þrjár milljónir sjúklinga að fást við vandann árlega, margir á sjúkrahúsum, og dauðsföll sem rakin til sýkinganna um 24.000 talsins. Hér á landi höfum við verið heppin, enda fámenn þjóð og nýir stofnar hafa ógreiðari aðgang að okkur en í flestum öðrum löndum. Mikið hreint vatn, kalt veðurfar og strjálbýli, auk þess sem óvíða hefur mælst minni notkun sýklalyfja í landbúnaði. Sýklalyfjanotkun meðal manna, einkum ungra barna og gamalmenna, er þó sérstakt áhyggjuefni og sem mælst hefur meiri en á hinum Norðurlöndunum.

Notkun sýklalyfja auka alltaf líkur á að við gripum nýjar sýklalyfjaónæmar flórubakteríur úr umhverfisflórunni og þegar okkar eigin eldri flóra nær ekki að veita nægjanlega mótspyrnu. Þannig segir saga að við höfum fengið yfir okkur tvo faraldra sýklalyfjaónæmra pneumókokka sl 2-3 áratugi og sem jafnframt er algengasta flórubakterían í nefkoki barna. Allt að 20% íslenskra barna hafa þá smitast af sýklalyfjaónæmum pneumókokkum. Flest eftir undangengnar sýklalyfjameðferðir. Sum sýktust af þessum sýklalyfjaónæmu stofnum og þurftu að fá sterkustu sýklalyf í æð á barnadeild LSH sem völ var á. Um var að ræða nokkur hundruð börn og sem a.ö.l. voru frísk og með sýkingar sem auðveldlega hefði verið hægt að meðhöndlaða áður með gömlu góðu sýklalyfjunum (penicillín og skyldum lyfjum).

Önnur flórubaktería sem gjarnan er í nefi okkar manna og á húð, eru klasakokkarnir (Staphylococcus aureus og S. epidermidis). Þeir eru jafnframt algengasti sárasýkill ungra sem aldra. Tvær gerðir sýklalyfjaónæmra S. aureus, svokallaðir MÓSAR (MRSA) hafa orðið til og þróast á sl. áratugi. Spítala-mósinn er reyndar ónæmur fyrir flestum og stundum öllum sýklalyfjum sem til eru en Samfélags-mósinn er ónæmur fyrir penicillínlyfjum og stundum öðrum sýklalyfjum einnig. Spítla-mósinn er sú sýklalyfjaþolna baktería sem heilbrigðisstarfsfólk hræðast hvað mest, einkum, á hátæknisjúkrahúsum og þar sem veikustu sjúklingarnir liggja. Samfélags-mósinn finnst orðið hins vegar víða meðal almennings erlendis og veldur þar sárasýkingum og ein tegund hefur t.d. tengst svínarækt í Danmörku og þar sem sýklalyf eru mikið notuð í landbúnaði.

Um 80% svínakjöts á markaði í Danmörku hefur þannig greinst með samfélags-mósa og rannsóknir hafa sýnt að allt að þriðjungur svínabænda bera sýkilinn í nefflórunni. Hér ætla ég hins vegar að gera betri grein fyrir alvarleika málsins sem tengist sýklabúum (svokölluðum biofilmum) klasakokka eftir nýfallinn EFTA dómsúrskurð og þeim vanda sem við stöndum hugsanlega frammi fyrir þegar MÓSAR berast með fersku innflutti kjöti erlendis frá til landsins. Að lokum í kjötborð verslunarinnar, í eldhúsin og okkar eignin flóru og barnanna. Ekki verður hér heldur fjallað nánar um aðrar jafnvel meiri hættur eins og stórauknar líkur matareitrunarsýkla eins og Kamphyplóbakter (sennilega alvarlegasta ógnin í dag) og dreifingu sýklalyfjaþolinna E. coli (ESBL) með fersku innflutti kjöti. Eins annarra sýkla og veira sem borist geta með fersku kjöti erlendis frá og valdið geta sjúkdómum í mönnum og dýrum og við höfum að mestu verið laus við.

Sýklabú (biofilms) er einskonar sambýli sýkla, gjarnan af sömu tegund, sem þeir gera með ákveðinni verkaskiptingu sín á milli. Flestir þekkja fyrirbærið „biofilms“ tengt þekju sem myndast gjarnan í botni og köntum vatnsdalla heimilisdýra og sem erfitt getur verið að þrífa. Algengustu staðirnir í líkamanum eru þar sem blóðrásin er tæp. Algengt er að finna sýklabú t.d. á tönnum og jafnvel tannholdi heilbrigðra. Eins á hjartalokum sem eru gallaðar eða skemmdar eða í öðrum örvef. Klasakokkar (eins og nafnið ber með sér) eru algengastir sýkla sem mynda slík bú (ákveðin samlíking með mauraþúfum eða býflugnabúum). Sýklarnir mynda sterka varnarhúð efst í búinu og þaðan sem árásarsýklar eru síðan sendir út af örkinni til að nema ný lönd. Út um allan líkamann (sjá skýringarmynd að ofan) ef því er að skipta. Sýklar í millilögum sjá hins vegar t.d. um næringarforða og loftrásir, m.a. til sýkla sem eru að fjölga sér í búinu og jafnvel til þeirra sem liggja dýpst í dvala. Sýklalyfin ná ógjarnan í dýpstu lög búsins (kostar a.m.k. langar og strangar sýklalyfjameðferðir til að uppræta). Erfiðast verður að ná til sýklalyfjaónæmu sýklanna.

Í dag beinist athygli manna síðan mest í þessu samhengi að aðskotahlutum hverskonar, í okkur og á. Stálhlutir og málmar eru síður gjarnir að hlaða á sig biofilmum en plasthlutir. Þar má nefna t.d. þvagleggi og dren sem eru lengi óhreyfð í líkamanum, svo og æðaleggir hverskonar, jafnvel gangráðsþræðir. Þúsundir Íslendinga eru með gerviliði hverskonar af illri nauðsyn og sem eru sem betur fer oftast úr málmi. Algengustu og lang stærstu plastíhlutirnir í dag eru hins vegar brjóstaimplöntin í allt að tugþúsund íslenskra kvenna. Enginn veit reyndar í raun hvað konurnar (stúlkurnar) eru margar vegna persónuleyndarákvæða hjá lýtalæknum. Ekki einu sinni landlæknir. Íhlutir sem vega í þyngd allt að 1% af líkamsþyngd kvennanna. Við bætist lekaáhætta sílikons úr gervibrjóstskelinni með aldrinum og þar sem sýklar komast í innihaldið. Eins á sílikonið sem lekið hefur út í aðliggjandi eitla. Jafnvel á rif og í millirifjavöðva. Mál sem vakti mikla athygli þegar PIP-púðamálið/hneykslið var í algleymingi fyrir 3 árum og í ljós kom að meirihluti púðanna lak eða tærðist upp á 10 ára tímabili.

Almennt er talið að milli 3-80% brjóstaimplanta sýkist með tímananum miðað við erlendar rannsóknir í dag (vantar eins upplýsingar á Íslandi) og sennilega eru biofilmurnar sem hafa hægt um sig mikið vantaldar. Ef  við reiknum með um 10% klínískra sýkinga á einhverjum tímapunkti í lífi kvennana, má reikna með þúsundum sýkinga á Íslandi. Eins og nú stefnir í með innflutta samfélags-mósa, hugsanlega hundruð mósa-sýkingar bara tengt implöntum í brjóstum kvenna og sem gerir alla meðferðir mjög erfiðar. Sýkingar sem kalla síðan á skurðaðgerðir til að fjarlæga aðskotahlutinn og síðan strangar sýklalyfjameðferðir sem virka jafnvel takmarkað. Álag sem hlýst af þessu og löngum sýklalyfjameðferðum, kallar síðan á enn meira ójafnvægi í sýklaflórunni okkar og nánasta nærumhverfi. Allir ættu að sjá í hvaða óefni getur stefnt með slíkar ísetningar gervihluta í líkamann og auknu sýklalyfjaónæmi sýkla eins og klasakokka og sem nú stefnir í að verði jafnvel fluttir inn með fersku kjöti. Pólitíkin og stjórnsýslan er óráðin, en sem ræðst af mannanna hugverkum í nafni framfara. En við spilum aldrei með sjálf lögmálin, nema ef vera skyldi markaðslögmálin, og þaðan af síður sjálfa móður náttúru.

 https://www.frontiersin.org/articles/10.3389/fcimb.2015.00001/full

 

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn