Fimmtudagur 13.02.2014 - 13:39 - FB ummæli ()

Hvað eru ásættanlegar aukaverkanir vegna læknainngripa í fegrunarskyni?

cosmetic-surgeryMikil umræða er nú um skapaaðgerðir á kynfærum ungra kvenna sem framkvæmdar eru af lýtalæknum. Sitt sýnist hverjum um mikilvægi þessara aðgerða og hvað sé verið að halda að ímynd kvenna með auglýsingamennsku og markaðssetningu fegrunaraðgerða. Um þau mál almennt hef ég nýlega skrifað pistil. Umræðan nú virðist mest snúast um áhættu af slíkum aðgerðum, til styttri eða lengri tíma. Um það ber mér skylt sem heimilislækni að hafa ákveðnar skoðanir. Hvað er ásættanleg áhætta með fyrirfram ákveðnum læknainngripum sem jafnvel snúa ekki að heilsunni eins og við skilgreinum hana gjarnan? Þegar um lyfjameðferðir er að ræða, sem er líka læknisfræðileg inngrip, má áhættan ekki vera mikil.

Í þessu sambandi er rétt að benda á umræðu sem var um hormónauppbót kvenna við tíðarhvörf með lyfjum um árið og sem um árabil var beinlínis haldið að konum, heilsu þeirra vegna. Til að bætta lífsgæði þeirra og gegn tíðarhvarfseinkennum og hitakófum. Jafnvel mikið lengur, allt fram til gamals aldurs. Langtímarannsóknir síðar sýndu hins vegar aukna áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum um nokkur prómill (ca. 3 af hverjum 1000 konum sem notuðu hormón til meira en 10 ára ef ég man rétt). Þetta þótti óásættanleg áhætta og læknar hvattir til að skrifa almennt ekki upp á þessi lyf fyrir konur í tíðarhvörfum, en í versta falli þá aðeins til skemmri tíma (< 3 ár).

Önnur umræða og miklu alvarlegri um hættulegar aukaverkanir læknainngripa var fyrir rúmlega tveimur árum síðan og spratt upp úr PIP (Poly Implant Protheses) málinu margfræga og sem ætti að vera okkur Íslendingum góð leksía. Algenga ísetningu sílikon gervibrjóstapúða í ungar konur um aldarmótin og sem opinberaði síðan miklu stærra vandamál um tíðni leka og hugsanlegar afleiðingar ísetninga gervibrjóstabobbinga almennt. Til dæmis að í stað 1-3% leka á sílikongeli úr skelinni á 10 árum og sem konurnar reiknuðu með í sínu upplýsta samþykki fyrir aðgerð, að þá reyndust flestar tegundir leka gelinu í yfir 20% tilfella á innan við 10 árum. PIP gervibrjóstin voru bara miklu verri en önnur sílikonbrjóst og láku eða tærðust upp í allt að 80% tilvika á innan við 10 árum.  Hvað verður síðan um þann hluta gelsins sem ekki festist í brjóstvef, milli rifja eða í holhandareitlum (sílikonsnjókoma í holhönd) ásamt stóru innihaldi af skelinni sjálfri sem tærist upp, virðist mörgum hulin ráðgáta enn í dag. En langtímaafleiðingar sem mælast m.a. í brjóstverkjum og sýkingum meðal þessara þúsunda kvenna á Íslandi í dag, er öllum löngu ljós. Það breytir engu þótt þeir nýjustu eigi að verða eitthvað betri en þeir gömlu. Nýtt lýðheilsuvandamál er orðið til.

Hver bar síðan endanlega ábyrgð á fölskum upplýsingum um háa lekatíðni á flestum gerðum brjóstaimplanta og alvarlegum tilfellum sýkinga hér á landi? Bandarísk heilbrigðisyfirvöld vöruðu við saltvatnspúðunum frá PIP  þegar árið 1994 og bönnuðu þá síðan í framhaldinu. Eftir að hafa kynnt sér PIP sílikonpúðana árið 2000 var algjört bann sett á innflutning og notkun þeirra í Bandaríkjunum. Á sama tíma og ýmsir aðrir gelpúðar voru leyfðir og sem nutu þá vaxandi vinsælda. PIP sílikonpúðarnir voru hins vegar á sama tíma fluttir inn til Íslands og notaðir reyndar víða í Evrópu, allt til ársins 2010. Þegar á fyrsta ártugi þessarar aldar mátti hins vegar ætla að PIP púðarnir stæðust ekki eðlilegar heilbrigðiskröfur vegna fjölda mála sem upp kom með notkun þeirra, aðallega leka og sýkingahættu. Í mars árið 2010 var loks ljóst að um glæpsamlega og falsaða vöru var að ræða og þá loks komst málið í hámæli víða um heim, en síður hér heima. Konurnar sem báru PIP púðana hérlendis voru enda ekki látnar vita, en ákveðið að sjá og fylgjast með endingu þeirra í þeim úr fjarlægð, eins og í óupplýstri lyfjatilraun. Vandinn virtist einfaldlega okkur ofvaxinn að takast á við.

Niðurstöður „tilraunarinnar“ og sannleikurinn um gæði PIP púðanna var síðan verri en nokkurn grunaði. Þegar Landlæknir ætlaði loks að leita eftir nánari upplýsingum um þessi mál til að gera sér betur grein fyrir umfangi vandans með skýrslum frá lýtalæknunum, gerðist hið óvænta. Persónuvernd hafnaði þessari málaleitan á grundvelli laga um persónufrelsi og að um trúnaðarupplýsingar væri að ræða sem honum kæmi ekki við. Þótt gelið og innihald sílikonbrjóstana færi á flakk um líkama kvennanna, stefndi það ekki LÍFI og heilsu þeirra í nógu mikla hættu til að upplýsingar til hans væru réttmætar. Sjaldan hefur maður heyrt nokkuð eins fjarstæðukennt og sem er í raun makalaust álit frá opinberri stofnun sem á að vera vakandi fyrir hagsmunum einstaklingsins, ekkert síður en samfélagsins. Í máli þar sem lögfræðin og læknisfræðin fara greinilega illa saman.

Fáir efast hins vegar í dag um alvarleika PIP málsins svokallaða, ísetningu gallaðra og jafnvel eitraðra íhluta í brjóstin hjá rúmlega 500 íslenskum konum á besta aldri. Í sakamáli aldarinnar sem tilheyrir læknisfræðinni á heimsvísu og upplýsti í raun svo miklu stærri vandamál sem höfðu verið falin lengi. Ekki síst hér á landi þar sem vandinn var hlutfallslega miklu meiri. Jafnvel þótt flest fórnarlömbin vilji nú fara huldu höfði, enda konurnar margar komnar í blindgötur og engin önnur góð úrlausn í boði en að fá sér ný sílikonbrjóst. Þar sem má segja að erfitt er að taka það sem áður hafði verið gefið. Sönnunargögnum var hins vegar jafnóðum eytt og þeirra var aflað úr konunum. Málefni sem jafnvel fjölmiðlarnir eru feimnir að ræða og konurnar sjálfar bera allan skaðann. Og hvað nú með þær þúsundir kvenna sem eru þó bara með aðeins betri púða en PIP púðanna illræmdu?

Nú er rætt um litlar aukaverkanir með skapabarmsaðgerðum ungra kvenna. En hverjar eru í raun þessar aukaverkanir? Hver er hin raunverulega áhætta á að aðgerð misheppnist, örvefir verði til og varanleg óþægindi skapist? Hversu fljótt þarf etv. að fara í nýja aðgerð og laga aldursbundnar breytingar? Hverjar eru afleiðingar varðandi hugsanlega truflun við fæðingu barns? Hverjar eru langtímaafleiðingar varðandi sýkingarhættu og gæti verið að sílikon sé líka notað á þessu svæði eins og í varir? Er áhættan á að fá alvarlegar aukaverkanir og sem konur skrifa upp á í dag með upplýstu samþykki sínu fyrir aðgerð, minni en nokkur prómill, t.d. í samanburði við hormónauppbótalyf sem ráðlagt er þess vegna frá að gefa konum í dag, en sannarlega geta bætt lífsgæði þeirra? Eða gæti verið að áhættan sé svipuð og talið var vera með brjóstapúðaísetningar fyrir nokkrum árum, en reyndist síðan ekki tíföld, eða hundraðföld, heldur tíuþúsundföld.

http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2013/11/16/spegill-spegill-herm-thu-mer/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/11/21/ihlutun-og-ihlutir-fyrri-hluti/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/11/25/personuvernd-og-islensku-brjostabobbingarnir-ihlutun-og-ihlutir-seinni-hluti/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn