Föstudagur 08.12.2017 - 14:35 - FB ummæli ()

Jólasteikin á næsta ári?

Mikil umræða hefur verið um matvælaóöryggi tengt nýföllnum dómi EFTA og að flytja megi inn ferskt kjöt til landsins. Mál sem Samtök verslunar- og þjónustu (SVÞ) hefur t.d. barist fyrir og endurtekið er í fréttum 365 miðla. Ekki var í dómnum sérstakt tillit tekið til sérstöðu Íslands vegna smitsjúkdómavarnarsjónarmiða og sem hefur verið laust við marga dýrasmitsjúkdóma sem eru landlægir í Evrópu. Eins miklu fátíðari sýkingar á borð við kamphýlóbaktersýkingar og salmonellusýkingar. Ekki heldur nýjum sýklalyfjaónæmum stofnum í sameiginlegri sýklaflóru manna og dýra (E.coli og klasakokkum) víða erlendis sem valdið geta síðan tilfallandi sýkingum, innvortis í okkur og í sárum. Fryst kjöt í ákveðinn tíma heftir vöxt allra þessara baktería og drepur jafnvel að einhverju marki (sérstklega kamphýlóbakter). Aðalmálið er þó að fryst kjöt smitar minna frá sér í flutningi frosið, samanborið við ferskt og blóðugar umbúðir t.d leka. Mestar áhyggjur manna í dag er samt smithætta á kamphýlóbaktersýkingum með kjúklingum erlendis frá. Svipað má reyndar segja um hugsanlegt salmonellu-smit með erlendum eggjum sem ekki þekkist hér á landi. Varðandi framtíðarlýðheilsu skiptir eins miklu máli að halda sýklalyfjaþolnum bakterístofnum í flóru erlendra sláturdýra sem mest frá okkar íslensku normalflóru (ESBL E. coli og klasakokkunum MÓSA (MRSA)) og gert hefur verið grein fyrir í fyrri pistlum. Um allar þessar hættur þarf enginn að efast þótt stjórnvöld kjósi e.t.v. að meta hagsmuni SVÞ og svokallaða neytendahagsmuni mt.t. valfrelsis meiri en lýðheilsuna. Með nýjum lögum og reglugerðum sem sniðin eru þá að evrópskum neytendalögum og nú er boðað.

Dæmi um markaðssvindl með hrossakjöt í nautahakk. Comigel hneykslið sem skók Evrópu 2013.

Annað og sem hefur fengið minni umræðu, er gæði kjötsins og framleiðsluaðferðir sem breytist reyndar ekki hvort sem kjötið er slet ferskt eða frosið. Í mörgum og vonandi flestum tilvikum (>60%) er hægt að treysta upprunamerkingu kjötsins. Útflutningslandið er þannig oft aðeins skráð (og við treystum misvel), en þar sem varan getur hafa farið gegnum marga milliliði frá fjarlægari löndum. Þannig hafa komið upp mörg hneykslismál í Evrópu á sl. árum. Flestir muna eftir „hrossakjötsfárinu“ fyrir 4 árum og þar sem upplýst var að hrossakjöti var blandað við nautakjötshakk og selt sem slíkt. En meiri spurningar vöknuðu við hvaða aðstæður hrossakjötið kom upprunalega. Í sumum tilvikum reyndist um sjálfdauðar skepnur (jafnvel asnar og dráttarhestar) og í einu tilviki komst upp að hrossakjötið var upprunnið úr hrossum í Frakklandi sem höfðu verið slátruð eftir not í lyfjatilraunum og til framleiðslu bóluefna. Eftirlitið í Evrópu brást m.t.t. neytendahagsmuna. Dýrin höfðu stundum fengið allskonar lyfjameðferðir og jafnvel útsett fyrir eiturefni t.d. skordýraeitur og þungmálma í fóðri og umhverfi. Hættuleg efni sem alls ekki eru ætluð í dýraeldi og þaðan af síður til manneldis. Hormónar og sýklalyf eru hins vegar viðurkennd vaxtar/þyngdaraukandi meðferð í eldi alidýra víða og sem finnst að lokum í kjötinu auðvitað einnig.

Það er því ekki að furða að maður spyrji sig um gæði erlendrar matvöru sem getur litið fjarska girnilega út á yfirborðinu í kjötborðinu og kostað jafnvel minna en það íslenska og við treystum vel upprunanum. Getum við ekki sætt okkur við að kaupa kjötið a.m.k. frosið? Það er reyndar rétt að svokallað gæðaeftirlit með matvöru er víða í Evrópu miklu betra en hér heima. Aðallega vegna fjársveltis eftirlitsstofnana og skorts á mannafla. Traustið á íslenskum framleiðendum og eftirlit með sjálfri framleiðslunni hefur verið látið nægja og sem á síðustu árum hefur skilað góðum árangri er varðar sýklalyfjanotkun í dýraeldi, salmonellusmit og kamphýlóbaktersmit. Síðan er jafnvel aðeins hárfín lína eftir, að dýrasmitvarnir á lifandi dýrum verði aflagðar hér á landi að kröfu annarra Evrópuþjóða og að eigendur geti þá bara ferðast með gæludýrin sín og hross að vild yfir öll landamæri. Það er því furðulegt af öllu þessu sögðu, að Evrópureglugerðir skulu einar vera látnar ráða ferðinni. Í sennilega mikilvægasta neyslu- og lýðheilsumáli okkar, smitvörnunum, og þegar sýnt er að við höfum svo miklu að tapa.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn