Föstudagur 01.11.2019 - 10:40 - FB ummæli ()

Eitthvað til að læra af? Staðarval þjóðarspítalans á Hringbraut.

Varla líður sá dagur að ég velti ekki fyrir mér hvað réð eiginlega för hjá ráðamönnum upp úr aldarmótunum síðustu og þegar svo lokaákvörðunin var tekin á Alþingi 2014 að nýi þjóðarspítalinn skildi reistur á Hringbrautarlóðinni. Allir vildu góðan nýjan þjóðarspítala enda sá gamli að úreldast og starfsemin komin í ótal byggingar um allt höfuðborgarsvæðið. Menn vildu samt ekki sokkinn kostnað sem slagar uppi sjálfan byggingakostnaðinn eins og hann var áætlaður í upphafi, vegna skipulags- og hönnunargalla eingöngu og löngu mætti sjá fyrir með kolvitlausu staðarvali m.a.

Miklu hagkvæmari kostir voru í boði og sjá má enn betur í dag sem sparað hefði getað tugi milljarða króna í lægri afleiddum kostnaði  tengt góðu aðgengi sjúklinga og starfsfólks að væntanlegu spítalasvæði.

Um aldarmótin síðustu mátti vissulega skilja rökin um sameiningu spítala LSH á einn stað í hagræðingarskyni og sem var sparnaður sem metinn var um 2 milljarða króna á ári. Hringbrautin var nefnd sem heppilegasti staðurinn og þar sem samþætta mætti not eldra háskólasjúkrahúss. Eins háskólaumhverfið í Vatnsmýrinni. Hugmyndirnar voru samt alltaf nærri hugmyndum um staðarvalið heillri öld áður, n.t.t. 1903 og þegar ákveðið var að reisa gamla Landspítalann á  bestu forsendum og borgarskipulags þess tíma. Nú á grafarbakka nýja Landspítalagrunnsins og samkvæmt borgarskipulagi sem helst má finna í milljónaborgum og þar sem ný landsvæði eru mjæg af skornum skammti.

Umferðarálagið var reyndar metið ásættanlegt fyrir Hringbrautarvalinu um aldarmótin síðustu, jafnvel þótt meirihluti íbúðabyggðar lægi mikið austar á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurflugvöllur var einnig föst forsenda staðarvalsins, nátengt sjúkraflugi  frá öllu landinu. Allt sem fyrirliggjandi borgarskipulag gerði ráð fyrir (AR 2002-2021). Aðrir kostir komu þó sterklega til greina og sem margir töldu betri kost en Hringbrautin, þegar horft var til lengri framtíðar. T.d. Fossvogurinn á Borgarspítalalóðinni (nú Landspítalalóð í Fossvogi) og áður en byggðin umhverfis fór að þrengja að. Þar voru meðal annars frábærar  aðstæður fyrir sjúkraþyrluflug og sem sífellt vegur þyngra. Einu mikilvægasta þjónustuhlutverki aðal bráðasjúkrahúsi landsins að taka á móti.

Nálægðin við Vatnsmýrina og gamla háskólann réðu mestu að lokum. Eins ofuráhersla Reykjavíkurborgar að halda Landspítalanum á sínum stað á Hringbrautinni, sennilega fyrst og fremst vegna hræðslu að missa hann og stærsta vinnustað landsins frá sér til nágrannasveitafélaga. T.d. í Garðabæinn ef á Vífilstaðalóð og sem var talinn ágætis kostur eftir að þrengra var orðið um allt í Fossvoginum fyrir um áratug. Hugsun um hvað kæmi starfsemi þjóðarsjúkrahúss, sjúklingum og starfsfólki best, virtist skipti miklu minna máli.

Miklar og hraðari breytingar en menn áttu von á, urðu fljótt á meginforsendum Hringbrautarvalsins. Fyrst ber að nefna góðu umferðaaðgengi og svo nýjar hugmyndir um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar og sem var staðfest með nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar (AR 2010-2030). Skipulag sem lá fyrir þegar Alþingi samt tók ákvörðun sína   um byggingaframkvæmdina 2014.

Umferðaröngþveiti á álagstímum til miðborgarinnar í dag hafa þegar leitt til nýrrar áætlana á umfangsmiklum umferðamannvirkjagerðum fyrir á annað hundrað milljarða króna næstu tvo áratugina og sem ekki var gert ráð fyrir í fyrirliggjandi borgarskipulagi. Staðsetning þjóðarspítalans nýja skýrir að stórum hluta þessa auknu þörf, auk allt of mikillar þéttingar atvinnustarsemi og þjónustu hverskonar í miðbænum.

Það má segja að ákvörðunin 2014 á Alþingi sé fordæmalaus hvað varðar aukakostnað á opinberri framkvæmd á Íslandi og það áður en hún er í raun hafin. Röngum ákvörðunum sem teknar voru gegn betri vitund og þjóðarvilja og allar skoðanakannanir höfðu sýnt fram á.

Hringbrautarverkefnið er líka eitt skýrasta dæmi samtímasögunnar um hvað stjórnvöld leggja á sig til að halda upplýsingum um fyrirséða forsendubresti frá þjóð sinni. Líklega vegna fjárhagslegra sérhagsmuna. Einnig Reykjavíkurborgar sem lögðu ofuráherslu á staðarvalið á Hringbraut og lögðu endurtekið steina í götu hugmynda um nýtt staðarval. Eins hefur þátttaka sjálfs ríkisfjölmiðilsins, RÚV ohf. systurhlutafélags Nýja Landspítalans ohf. verið alla tíð forkastanleg og mótrök fyrir Hringbrautarstaðarvali endalaust þögguð niður. Málið var auk þess flækt í hnút á Alþingi vegna þverpólitískrar samstöðu hreppapólitíkunarinnar um hvað og hver lofaði hverjum.

Í dag strax við upphaf framkvæmdanna á Hringbraut og sem tekur næstu 5-10 ár að ljúka, má þannig augljóslega sjá fyrstu reiknisskekkjuna og sem nemur í raun tugprósentum af heildarreiknisdæminu öllu fyrir ríkið. Kostnaðinn við að laga aðgangshindranirnar og sem hefðu þar að auki átt að vera lokið áður en byggingaframkvæmdirnar sjálfar hæfust á Hringbraut, svo sem Miklubrautina í stokk.

Síðasta starvalsnefnd ríkisins benti einmitt á þetta skilyrði með bætt aðgengi að þjóðarspítalanum í áliti sínu 2008, áður en framkvæmdir hæfust. Óháðu samtökin SBSBS sem unnu eingöngu að því takmarki að velja þjóðarspítalanum besta og hagkvæmasta stað, hafa ítrekað þessi atriði í tæpan áratug. Að forsendu góðs aðgengis yrði að uppfylla og þá einnig með tilheyrandi afleiddum kostnaði ef af yrði að byggja á Hringbrautarlóðinni. Forsendur sem voru hins vegar afskrifaðar á Alþingi 2014 eins og áður sagði og KPMG jafnvel fengið ári síðar að leggja fram kostnaðaráætlun á Hringbrautarframkvæmdunum án þarfar á frekari umferðamannvirkjagerð 2015!!.

Eins hafa SBSBS bent á marga aðra ókosti að velja Hringbrautarlóðina fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús og sem væntanlega koma fram eitt af öðru á næstu árum. Eins var bent á mikilvægi græðandi spítalaumhverfis, opinna og náttúruvænra svæða og þar sem mengun hverskonar væri í lágmarki og loftgæði eins og best yrði á kosið, bæði fyrir sjúklinga og starfsmenn.

Gagnrýni SBSBS hafa ekki síður snúist hagkvæmni byggingaframkvæmdanna sjálfra, en þó sérstaklega vanáætlaðan kostnað vegna endurnýjunar eldra húsnæðis (um 60.000 fm2 þar sem áætlaður var um 115.000 kr á fm2) og hagkvæma samþættingu eldri húsa við Meðferðarkjarnann nýja og rannsóknahúsið (80.000 fm2, áætlaður nýbyggingakostnaður 500.000 á fm2). Mismunur útreikninga á heildarkostnaði Nýs Landspítala á Hringbrautarlóð og ef byggt hefði verið á besta stað á opnu og góðu svæði t.d. í Keldnalandinu sem mest er rætt um að skipuleggja mætti í dag sem besta kost (Vífilstaðahugmyndin útbrunnin sennilega vegna nýs skipulags þar og framkvæmda) spannar tugi, ef hundrað milljarða króna. Nokkur Vaðlaheiðagöng þar og þar sem nýta mætti fjármagnið frekar í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar og ef peningarnir eru svona mikið á lausu.

Óverulegar tafir hefðu þurft að vera á að nýr spítali risi á besta stað miðað við á Hringbraut, kannski í versta falli 2-3 ár vegna undirbúningstíma og skipulagsvinnu (t.d. í Keldnalandinu), en síðan miklu hraðari byggingartíma á opnu og aðgengilegu byggingasvæði. Á móti kæmi líka lágmarks truflun á fyrirliggjandi starfsemi LSH og óhjákvæmilegum umferðarröskunum kringum gamla Landspítalann á byggingartímanum.

Þegar hefur sýnt sig að gamli Borgarspítalinn – LSH í Fossvogi tekur á sig auknar skyldur í allri bráðaþjónustu frá því framkvæmdirnar hófust á Hringbraut og áformin þar um enn meiri á komandi árum. Hjartagáttin er flutt að hluta og jafnvel áform um flutning göngudeildar geðdeildarinnar á Hringbraut. Öldrunarþjónusta þar að auki stóraukin á Landakoti og Vífilstaðaspítala og ekki er séð fram á úrlausn fráflæðisvanda bráðamóttökunnar næstu árin, jafnvel allt þar til nýr spítali verður reistur og jafnvel mikið lengur.

Rökin að seinkun nýbyggingar á nýjum stað hafi ráðið mestu um staðarvalið á Hringbraut standast heldur ekki. Hægt hefði verið að leysa fráflæðisvandann, mesta vanda Landspítalans sem riðlað hefur almennri starfsemi hvað mest, þ.á.m. bráðastarfseminni á BMT í Fossvogi, með viðbótarbyggingu t.d. í Fossvogi og með eflingu starfsmannahalds, einkum hjúkrunarfræðinga þar sem ýmsar deildir standa auk þess hálf lokaðar í dag (40-60 rúm).

Annar alger forsendubrestur fyrir Hringbrautarstaðarvalinu á komandi árum er ef Reykjavíkurflugvöllur verður látinn fara eins og borgin vill. Reyndar strax um svipað leiti og Hringbrautarframkvæmdum á að vera lokið. Sjúkraflug eru hátt í 1000 á ári, flest til Landspítalans. Þar af eru um 200 þyrlusjúkraflug, flest til BMT í Fossvogi. Í áætlunum Nýs Landspítala frá 2012 er samt aðeins gert ráð fyrir lendingu sjúkraþyrla á þyrlupalli á 5 hæð nýja spítalans í “algjörri neyð” og að fjöldi slíkra lendinga sé innan við 10 árlega!!!

Flugmálaeftirlitið varaði strax 2011 við mjög svo takmörkuðum aðflugsskilyrðum og skorti á opnum svæðum til nauðlendinga í aðflugi að spítalanum. Eftir að leyfið var samt gefið fyrir þyrlupallinn með skilyrðum um að hann yrði aðeins notaður fyrir öflugustu þyrlur LHG, hefur enn þrengt að og eina áður opna aðflugssvæðinu yfir gömlu neyðarbrautina svokölluðu og Valslóðina, ekki lengur fyrir hendi. Hver ætlar í dag að bera ábirgð á ófullnægjandi öryggiskröfum á mikilvægasta framtíðarlendingarstað landsins og þegar neyðin kallar mest á?

Öll þessi ofantöldu atriði hefur ekki mátt ræða opinberlega í ríkisfjölmiðlinum RÚV ohf. Framkvæmd sem getur orðið þjóðinni og heilbrigðiskerfinu þungur millusteinn, samanborið ef skynsamlega hefði verið að málum staðið. Hagræði látið liggja í fyrirrúmu, án þöggunar á réttsýna gagnrýni. Hvernig eiga stjórnmálin á Íslandi að þroskast og að spornað sé gegn sérhagsmunagæslu hverskonar og að hún jafnvel ráði för í stærstu ákvörðunum þjóðarinnar. Sérhagsmunagæsla sem virðast virðist hafa getað tengt anga sína víða. Jafnvel milli óskyldra opinberra hlutafélaga (ohf).

Að öllu þessu sögðu, vonar maður auðvitað samt það besta. Heilbrigðiskerfið á ekkert annað skilið. Fjárlög til byggingar þjóðarspítalans eru eyrnamerkt í sömu lögum og til reksturs heilbrigðiskerfisins. Því er afar mikilvægt að fjármunir til málaflokksins nýtist sem best, en ekki í tugprósentavís sem sokkinn kostnaður vegna óskynsamlegra byggingaákvarðana ríkisins sjálfs.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn