Mánudagur 06.07.2020 - 17:44 - FB ummæli ()

Við erum öll almannavarnir

Stundum er lífið svo einkennilegt og samsett úr röð tilvika og minningarbrota, en sem endað getur svo sorglega. Hvað ef ég hefði getað gert eitthvað til að breyta atburðarrásinni? Atburðarrás sem byrjaði fallega, en endaði svo hörmulega og þrátt fyrir að hafa gert eina tilraun til að grípa inn í. Með viðvörun til viðeigandi viðbragðsaðila, eða hvað?

Svo vill til að ég á tvö minningarbrot um mótorhjólahópinn sem hjónin sem létust tilheyrðu og annan sem slasaðist fyrir rúmlega viku á nýmalbikuðum vegarkafla á Kjalarnesi sunnan við Hvalfjarðargöngin. Í fyrra minningarbrotinu fylgdist ég með hópnum þar sem hann kom síðdegis á fallegum sumardegi 25.6. sl. norður til Hólmavíkur. Fylgdist með þar sem glæsilegu mótorhjólin komu keyrandi upp Bröttubrekku við heilsugæsluna á leið inn á Borgarbraut og síðan að Finnahóteli þar sem flestir höfðu síðan náttstað. Áreynslulaust, með mjög hófstilltum mótorhjólagný, sem samt fór ekki fram hjá neinum. Ári eftir hörmulegt mótorhjólabanaslys rétt sunnan við Hólmavík og sem enn situr í starfsfólki heilsugæslunnar. Nýir gestir á vígalegum fákunum sínum. Sniglarnir sjálfir komnir til Hólmavíkur (reyndar sem tilheyrðu HOC Chapter Iceland).

Seinna um daginn eftir vinnu mætti ég hópnum á göngu frá íþróttasvæðinu og sundlauginni í átt að gamla bænum á eyrinni. Tók sérstaklega eftir hvað fólkið var í raun hverdagslegt og nú í venjulegum klæðnaði. Ekkert sem minnti á „motórhjólagengi“. Ekki ungt fólk sem þyrfti að berast á. Ég og flestir í hópnum horfðumst í augu stutta stund, enda kom ég á móti því á aðeins um 30 km hraða suður Hafnarbrautina. Ég á grámann, kagganum mínum, stóra ameríska V8 jeppanum sem í seinni tíð ég hef kallað Hólmarann. Bíll sem þjónað hefur mér svo vel sl. áratuginn við afleysingar á Ströndum og allir taka eftir.

Morguninn eftir 26.6 fylgdist ég síðan með hópnum aftur út um eldhúsgluggann á læknabústaðnum þar sem hann var að leggja af stað frá Finnahótelinu, út úr bænum. Einn af öðrum, allir með sína voldugu hjálma og í leðurgöllum, en svo rólega í morgunkyrrðinni. Sumir tvímenntu á hjólunum og einn að lokum akandi með svart flagg. Góða ferð hugsaði ég. Bar virðingu fyrir hópnum fyrir tillitsaman akstur á fákunum sínum fráum og eftir að hafa litið fólkið augum. Góður hópur sem sennilega gæti verið gaman að tilheyra. Seinna um daginn var veru minni líka lokið á Hólmavík. Heimferð suður í fallegu sumarveðri við bestu aðstæður, í lítilli umferð um hábjartan daginn. Oft kynnst honum svörtum á sömu leið áður. Jafnvel flughálku um vetur og roki. Alltaf komist samt klakklaust heim, án óhappa.

Þegar komið var upp úr svörtu Hvalfjarðagöngunum um kl 17.15 blasti við mér mikil birta eins og oft og síðan nýmalbikaði þjóðvegurinn. Í þá aðeins meiri umferð, en þar sem allir keyrðu rólega og komutími minn einstaklega hagstæður fyrir kvöldboð heima síðar um kvöldið. Allt í einu fór bíllinn að rása upp úr engu, á tiltölulega lítilli ferð. Afturendinn sveiflaðist endurtekið til hliðar. Ég hægði á mér vel niður fyrir 60 km/klst, en sem breytti engu. Varð mjög smeykur og átti erfitt með að treysta á að bíllinn héldist á veginum. Leitaði af fyrsta stað til að stoppa úti á vegkantinum. Aðrir bílar keyrðu síðan hægt framhjá mér. Allt fólksbílar og ekkert virtist vera að hjá þeim! Dekk hlyti að vera laust hjá mér og sem ég fór að skoða og toga í á alla kanta. Hvað, var kannski eitthvað að veginum? Nýja malbikið virtist þarna ósköp venjulegt, nýlegt og ég hafði ekki séð nein skilti um að einhvers bæri sérstaklega að varast. Ekki áberandi blautt. Ef til vill hafði gert einhvern skúr áður en ég kom upp úr göngunum. En malbikið alls ekki áberandi blautt. Eitthvað hlyti að vera að bílnum. Loft samt í öllum dekkjum og þau ekki slitin. Var farinn að hugsa um skilja bílinn eftir og fá konuna til að sækja mig upp á Kjalarnes. Sennilega og þar sem hún var að undirbúa komu gestanna, vildi ég síður trufla hana. Ætlaði að gera eina tilraun enn og keyra löturhægt heim í Mosó, sem ég og gerði. Hafði á tilfinningunni alla leiðina að bíllin færi að rása aftur, en sem gerðist ekki. Sennilega var ég heppinn enn eina ferðina. Samt eiginlega búinn að ákveða að skoða bílinn betur daginn eftir, fara í prufuakstur og fara jafnvel með hann á verkstæðið mitt góða í Hafnarfirði eftir helgina. Ræða málin betur við hann Kára og vini mína á Max 1 eins og ég hef gert svo oft áður.

Morguninn 27.6 eftir heyrði ég um fyrra slysið í fréttum. Útafkeyrslu á sama vegarkafla sunnan Hvalfjarðarganga og ég hafði lent í vandræðunum á, síðdegið áður. Það hafði orðið bílvelta og einn farþegi kastast út úr bílnum. Hljómaði ógnvænlega og sem ég sá fyrir mér hvernig hefði geta atvikast. Einkennileg tilviljun annars, á nákvæmlega sama vegarkafla og ég hafði orðið svo skelkaður á, daginn áður. Reynsla sem sat ennþá mjög óþægilega í mér. Sennilega var þá eitthvað að malbikinu og veginum eftir allt saman og þar sem ekkert virtist hafa verið að bílnum á lokakílómetrunum heim! Hlaut að vera vegurinn. Bylgjur eða snúningur, jafnvel í einhverskonar í bland við nýtt hált malbik. Þá stórhættulegt vegfarendum. Sennilega verst afturdrifnum ökutækjum eins og mínu. Ég varð að láta lögregluna vita og að slysið um morguninn tengist þessum hugsunum mínum um dauaðgildru á þjóðvegi eitt.

Eins og ég hafði reynslu af einu sinni áður, gengur ekki áreynslulaust að fá samband við lögreglu gegnum neyðarlínuna, ef ekki er beinlínis verið að tilkynna um slys. Spurt og spurt hvort erindið snúist um slys. Bent á að tilkynna til Vegagerðarinnar eftir helgina. Varð að vera mjög ákveðinn og kynna mig betur og að lokum sem lækni. Fékk loks samband við varðstjóra í stjórnstöð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu  (sem ætti að vera til upptaka af) og gaf honum alla lýsingu mína og kenningu um samhengið af reynslu minni á stjórnlausum bílnum daginn áður og hugsanlega a.m.k., meðvirkandi þætti í bílveltunni um morguninn.

Daginn 28.6 vorum við hjónin síðan að koma heim úr hjólreiðartúr til Reykjavíkur og stödd á hjólabrautinni við Vesturlandsveg í blíðskaparveðri, rétt upp úr hádeginu. Heyrum allt sírenuvælið og m.a. mótorhjólalögreglur á fullri ferð norður eftir Vesturlandsvegi. Við stoppuðum. Ég sagði við konuna mína. „Ég er viss um að alvarlegt umferðarslys hefur orðið aftur á sama stað, sunnan Hvalfjarðaganganna“ Eftir hádegið og þegar ég frétti nánar af slysinu varð ég miður mín. Hvað hefði ég getað gert meira?

Ég hringdi aftur til lögreglunnar seinni partinn 28.6 gegnum neyðarlínuna (og sem gekk aftur erfiðlega að ná sambandi við, fyrr en ég kynnti mig sem lækni og að erindið væri alvarlegt, tengt slysinu fyrr um daginn). Ég vildi gefa aftur skýrslu og kvarta um viðbragðsleysi við aðvörun minni daginn áður. Lögreglan kallaði þetta þá skýrslu sem vitni í málinu og sem ég samþykkti. Hef samt ekkert heyrt síðan frá lögreglunni og þannig ekki haft tækifæri á að gefa nákvæmari lýsingu.

Ég hringdi líka á mánudagsmorgninum 29.6 í Vegagerðina og fékk að tala við upplýsingafulltrúa. Hann tók erindi mínu svo sem vel og sagði að þetta atvik mitt yrði rætt innanhús hjá þeim. Ekkert samt heyrt frá honum eða Vegagerðinni síðan. Fylgst eins og allir aðrir bara með málinu í fjölmiðlum. Þjóðin slegin. Vissi ekki einu sinni um tengsl mín við hópinn á Hólmavík fyrr en nú viku síðar, af tilviljun. Að þetta var fólkið sem ég hafði hitt 2 dögum fyrir slysið og sem vel hefði mátt fyrirbyggja. Sorgin þá enn meiri og persónulegri. Særindi á viðbragðsleysi viðbragðsaðila við aðvörun minni og sennilega fleirum, er svo mikil. Á tímum þar sem sagt er að „við erum öll almannavarnir“.

Ég votta aðstandendum og vinum hjónanna sem létust í slysinu á Kjalarnesi 28.6 og sem ég tel mig hafa náð smá vinsamlegu augnsambandi við þremur dögum áður á Hólmavík 25.6 og varað við slysagildrunni sem þau lentu svo að lokum í, án árangurs, dýpstu samúð. Ég vona að við öll, Vegagerðin og viðbragðsaðilar læri af þessu sorglega máli og sem mun alltaf lifa með mér.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn